Fréttir

Þakkir til allra sem hafa lagt hönd á plóg

Sigmundur Hreiðarsson, vinnslustjóri Norðlenska á Húsavík, lætur hér hugann reika að lokinni sláturtíð. „Að sjálfsögðu ber hæst þakklæti til allra sem að hafa lagt hönd á plóg, því án alls þess öfluga fólks sem að þessu kemur væri þetta ekki mögulegt, að þessu sinni var slátrað 80.718 kindum,” segir Sigmundur í pistli.

Pistillinn, sem Sigmundur sendi heimasíðunni, er svohljóðandi:

Nú að sláturtíð lokinni er ekki úr vegi að láta hugan reika og að sjálfsögðu ber hæst þakklæti til allra sem að hafa lagt hönd á plóg, því án alls þess öfluga fólks sem að þessu kemur væri þetta ekki mögulegt. Að þessu sinni var slátrað 80.718 kindum.
 
Það sem kannski mest er rætt um núna er verulega aukin meðalþyngd dilka frá árum áður en t.d árið 2004 var meðalþyngd hér hjá Norðlenska á Húsavík  14,76 en nú 10 árum síðar er þetta komið í 17,34 kg sem gerir miðað við svipaðan sláturfjölda um
200 tonna aukningu af kjöti, á sama tíma hefur fita farið úr 6,48 í 6,89 og gerðin úr 7,60 í 8,67.
 
Hér má sjá hver þróunin hefur verið:

 
Fita
Gerð
Meðalþ
2004
6,48
7,60
14,76
2005
6,34
7,57
15,11
2006
6,22
7,58
15,31
2007
6,18
7,87
15,21
2008
6,34
8,31
16,08
2009
6,48
8,16
16,10
2010
6,44
8,48
16,06
2011
6,26
8,21
15,69
2012
6,42
8,23
16,28
2013
6,50
8,40
16,52
2014
6,82
8,67
17,34

 

Svo er það auðvitað sláturtíðin sjálf sem er farin að dragast all langt fram á veturinn og er umhugsunarefni hvernig sú þróun hefur verið. Sem dæmi má nefna að fyrsti sláturdagur árið 2004 var 10. ágúst og það árið var lógað um 14.000 lömbum í ágúst, en nú var fyrsti dagur 3. september.
 
Innleggjendur og afurðastöðin þurfa að leita allra leiða til að tryggja sem mesta hagkvæmni og allt tal um „við” og „þið” er úrelt og allir  þurfa að leggjast á eitt til að gera betur, því alltaf má gera betur og þar þarf afurðastöðin að koma sér upp aðstöðu til að auka slátrun hvern dag og innleggjendur geta lagt sitt af mörkum með t.d bættri aðstöðu fyrir fjárflutningabílana, að vera klárir með þá pappíra sem þurfa að fylgja og kannski ekki síst hvað varðar heimtökukjötið.
 
Þetta árið voru heimteknir skrokkar 4402 stk lömb og 1380 stk fullorðið, þetta gerir 7,16 % af slátruninni í haust, svo það má nærri geta að eftir því sem upplýsingar eru skýrari auðveldar það úrvinnslu og sparar vinnu.
 
Eitt af því sem  mikilvægt er að sláturfjárloforð séu eins nákvæm og hægt er og það séu líka gefnar upp tölur hvað varðar fullorðið, að sjálfsögðu er þetta í lagi hjá all mörgum og auðvitað geta aðstæður manna breyst með stuttum fyrirvara en klárlega geta margir gert betur, ástæðan fyrir því að ég nefni þetta er að  mjög erfitt er að sjá fyrir sláturtíðarlok og skipuleggja ferðir starfsfólks þegar svona er, því um er að ræða ferðalög um það bil 130 manns.
 
Ráðningar og skipulag ferða starfsfólks byrja nokkrum mánuðum fyrir upphaf sláturtíðar og eigi síðar en í apríl þarf að gefa upp fyrsta sláturdag og hvað lokin varðar þá er ekki ásættanlegt að geta ekki sagt starfsfólki um viku fyrir sláturtíðarlok, nákvæmlega hver síðasti dagur verður til að fólk geti pantað sér flug, því flest af starfsfólkinu er komið langt að.
 
Við vitum að náttúruöflin geta gripið inn í og breytt ansi mörgu eins og nýleg dæmi sanna, en vonandi er það eitthvað sem er undantekning frá reglunni og að sjálfsögðu leggjast allir á eitt ef svo ber undir.
 
Allt snýst þetta um að gera okkar ágæta fyrirtæki betra og því þurfa allir að leggjast á árarnar og róa í sömu átt.

Kveðja,
Sigmundur Hreiðarsson,
vinnslustjóri Norðlenska,
Húsavík


Svæði

Norðlenska ehf

Grímseyjargötu
600 Akureyri

s. 469-4500

kt: 500599-2789

upplysingar@nordlenska.is

Póstlistinn

Skráðu þig á póstlistann hjá okkur og fáðu fréttir sendar á netfangið þitt.

Vörumerki Norðlenska

GoðiKEAHúsavíkur kjötBautabúrið

Goði á facebook