430 ára afmæli á Húsavík!
Svo skemmtilega vill til að í ár eiga níu starfsmenn hjá Norðlenska á Húsavík merkisafmæli. Samtals verða umræddir starfsmenn 430 ára í ár, en að sjálfsögðu verður aldur hvers og eins ekki tíundaður hér!
Að sögn Sigmundar Hreiðarssonar vinnslustjóra Norðlenska á Húsavík er hefð fyrir því að afmælisbörn þar á bæ komi með eitthvert góðgæti á afmælisdegi sínum handa vinnufélögunum, en í tilefni þessara merkilegu tímamóta sló hópurinn upp magnaðri veislu í hádeginu sl miðvikudag. Þar var sannarlega um að ræða ígildi alvöru fermingarveislu, eins og Sigmundur orðaði það! Kunni starfsfólk vel að meta kræsingarnar og þakkaði fyrir sig með kröftugu lófataki.