Fréttabréf ágúst 2014
Verð til bænda fyrir dilkakjöt liggur fyrir
Norðlenska hefur birt verðskrá fyrirtækisins fyrir dilkakjöt í komandi haustslátrun. Helstu breytingar frá verðskrá haustsins 2013 eru þær að meðalverð fyrir lambakjöt hækkar um 3% en verðskrá fyrir fullorðið fé er eins og fyrir ári. Álagsgreiðslur eftir tímabilum eru þær sömu og í fyrra, en þó með þeirri undantekningu að greitt er 12% álag í viku 36.
Verðskrána má sjá á heimasíðu félagsins, www.nordlenska.is.
„Áhersla á sölu lambakjöts skilaði ágætis árangri“
Segja má að síðastliðið ár hafi einkennst af mjög mikilli og harðri samkeppni milli kjötframleiðenda. „Framleiðsla á lambakjöti var um 10 þúsund tonn á síðastliðnu ári og hefur ekki verið meiri í mjög langan tíma. Eftir mjög gott haust og jól hægðist heldur á sölunni, við brugðumst við því með því að leggja töluverða áherslu á lambakjötið í okkar sölustarfsemi og það hefur skilað ágætis árangri,“ segir Ingvar Már Gíslason markaðsstjóri Norðlenska. „Við horfum björt fram á veginn og höfum trú á því að íslenskir neytendur vilji gæðavöru og leggjum því mikla áherslu á að verða við óskum neytenda. Norðlenska hefur frá upphafi einbeitt sér að framleiðslu og sölu fyrir innanlandsmarkað og starfsfólkið leggur metnað í að framleiða gæðavörur. Breytingar og þróun á kjötmarkaði hafa verið miklar undanfarin ár og í því felast helstu tækifærin, frekari vöruþróun með áherslu á gæði og þægindi fyrir neytendur.“
Það sama gildir um grísakjötið, að sögn Ingvars. „Framboð hefur verið heldur meira en eftirspurnin og því má oft sjá mjög gott verð í verslunum. Vörur Norðlenska hafa margar hverjar verið að ná góðum árangri og vil ég þar sérstaklega nefna áleggsvörur eins og Goða skinku, pepperoni og spægipylsu. Við höfum lagt áherslu á þann vöruflokk og heldur verið að bæta í vöruvalið okkar með t.d. silkiskorna álegginu sem við settum á markað ásamt því að vera að þróa vörur sem henta fyrir mötuneytismarkaðinn.“
Ekki hefur farið framhjá neinum að skortur hefur verið á íslensku nautakjöti. „Sá skortur hefur komið við okkar starfsemi líkt og annarra. Það er algengur misskilningur að nautakjöt sé flutt inn til að fæða erlenda ferðamenn. Nautakjöt er fyrst og fremst flutt inn til að fylla í holurnar þegar ekki er framleitt nóg til að mæta eftirspurn neytenda. Við þurfum síðan að keppa við verðlagninguna á innflutta kjötinu og ekki síður gæðin sem oft en þó alls ekki alltaf eru misjöfn.
Bændur geta verið mjög stoltir af fyrirtækinu sínu og vörum þess. Við megum þó aldrei gleyma því að Norðlenska starfar á samkeppnismarkaði sem er gríðarlega hvetjandi fyrir okkur. Kröfur neytenda eru síbreytilegar og við verðum alltaf að hafa það í huga að við erum að framleiða og þjónusta þá fyrst og fremst,“ segir Ingvar Már Gíslason markaðsstjóri Norðlenska.
Sláturfjárloforð og forslátrun
Við leggjum mikla áherslu á að bændur skili sláturfjárloforðum sem fyrst svo skipulag slátrunar verði sem best.
Flutningur á sláturfé
Norðlenska sér um flutning sláturfjár í sláturhús, nema um annað sé samið. Reynir B. Ingvason sér um flutninga sláturfjár til Húsavíkur úr Eyjafirði og Þingeyjarsýslum. Sigurður Jónsson flytur sláturfé af Austurlandi til Húsavíkur og Flytjandi annast flutninga sláturfjár á starfssvæði Norðlenska á Höfn. Óski bændur eftir að flytja sjálfir fé sitt í sláturhús er Norðlenska reiðubúið til samninga þar um. Þeir sem óska eftir að flytja sjálfir skulu hafa samband við Reyni B. Eiríksson framleiðslustjóra og ganga frá samkomulagi um það. Sími Reynis er 840-8848.
Mjög mikilvægt er að bændur skili útfylltu eyðublaði um afhendingu sauðfjár á fjárbíla um leið og féð er sótt til þeirra. Sjá meðfylgjandi eyðublöð. Einnig má sækja þessi eyðublöð á vef Norðlenska.
Niðurröðun sláturfjár
Niðurröðun sláturfjár verður í höndum sömu manna og undanfarin ár. Um niðurröðun sláturfjár úr Eyjafirði og Þingeyjarsýslum sjá Halldór Sigurðsson á Sandhólum, réttarstjóri Norðlenska á Húsavík sími 840-8895, og Sigmundur Hreiðarsson, vinnslustjóri Norðlenska á Húsavík. Sími hans er 460-8888/840-8888.
Niðurröðun sláturfjár af Austurlandi annast Aðalsteinn Jónsson í Klausturseli. Símar hjá honum eru 471-1694, 471-1085 og 895-1085. Á starfssvæði Norðlenska á Höfn sér Magnhildur Pétursdóttir, sláturhússtjóri, um niðurröðun í síma síma 840-8870. Mikilvægt er að bændur gefi upp fjártölu og hvenær þeir vilja láta lóga.
Slátursala
Slátursala hefst á Húsavík fimmtudaginn 25. september og henni lýkur föstudaginn 10. október.Opnunartími slátursölu á Húsavík er kl. 10:00 - 12:00 og 13:00 - 17:00 Á Höfn hefst slátursala 25. september og lýkur 10. október. Innleggjendur fá slátur með 50% afslætti. Opnumartími slátursölu á Höfn er kl. 10.00 – 12.00 og 13.00 – 16.00
Heimtökukjöt
Í haustsláturtíðinni verður heimtaka kjöts með svipuðum hætti og undanfarin ár. Bændur skulu taka allt ferskt heimtökukjöt innan tveggja daga frá slátrun á Húsavík og Höfn. Á Akureyri og Egilsstöðum er ferskt kjöt afhent þremur dögum eftir slátrun og frosið kjöt fjórum dögum eftir slátrun. Frosið kjöt á Húsavík er afhent þremur dögum eftir slátrun. Bændur geta fengið heimtökukjöt annað hvort ferskt eða frosið í heilum skrokkum eða frosið sjöpartasagað eða fínsagað. Á Húsavík er kjötið afhent ferskt í sláturhúsi en frosið (sagað og ósagað) í húsnæði Norðlenska við Suðurgarð, á hafnarsvæði. Síminn þar er 840-8882.
Á Höfn er kjötið afhent í sláturhúsinu. Á Akureyri gefst bændum kostur á að ná í heimtökukjöt í afgreiðslu Flytjanda við Oddeyrarskála virka daga kl. 10-16. Hafið samband við Árna í síma 842-7831. Á Egilsstöðum er kjötið afhent í afgreiðslu Flytjanda að Lyngási 10 virka daga kl. 10-16. Hafið samband við Hjört í síma 825-7068. Þess er óskað að bændur nálgist heimtökukjöt sitt í afgreiðslur Flytjanda á Akureyri og Egilsstöðum eins fljótt og mögulegt er.
Teknar verða kr. 2.850 + vsk. fyrir slátrun pr. dilk og kr 3.120 + vsk. fyrir slátrun á fullorðnu. Ekki er greitt fyrir sjöpartasögun, en kr. 505 pr. dilk + vsk. fyrir fínsögun. Þeir bændur sem eru með viðskiptasamninga við Norðlenska frá 20% afslátt á heimtöku og fínsögun. Þar sem útflutningsskylda hefur verið felld niður er ekki lengur til s.k. heimtökuréttur. En Norðlenska hefur ákveðið að ofangreint gildi fyrir kjöt innan heimtökuréttar eins og hann var, eða 240 kg pr. lögbýli. Þeir sem taka meira heim en sem nemur heimtökurétti hafi samband við framleiðslustjóra, Reyni Eiríksson, í síma 840-8848.
Ástæða er til að undirstrika að óskir um heimtöku berist sláturhúsi á sérstöku eyðublaði eigi síðar en við komu fjárins í réttina. Þar skal tilgreina hvernig kjötið skal afhent, ferskt eða frosið, og þá hvernig sagað. Hafi eyðublaðið glatast skal bent á að unnt er að nálgast það á heimasíðu Norðlenska.
Símaskrá Norðlenska
HÚSAVÍK AKUREYRI HÖFN
Sauðfjárrétt 460 - 8895 Skrifstofa 460 – 8850 Skrifstofa 460 – 8870
Réttarstjóri 840 - 8895 Slátursala 840 – 8877
Stöðvarstjóri 460 - 8888 Heimtaka 840 - 8870
Heimtökusögun 840 - 8882
Frysting 840 - 8896
Slátursala 460 - 8897
BÍLSTJÓRAR
Eyjafjörður – Þingeyjarsýslur Austurland
Reynir B. Ingvason 893 – 1018 Sigurður Jónsson 893 – 4480
Jónas Jónasson 862 – 3211 Hilmar 899 – 4367
Benedikt Arnbjörnsson 862 – 7703 Björn 848 – 5141
Árni Þorbergsson 893 – 9596 Höfn (Magnhildur veitir uppl. um síma) 840-8870