Goðamót næstu 3 árin
Norðlenska og knattspyrnudeild Þórs hafa gert nýjan 3 ára samstarfssamning um Goðamót Þórs.
Skrifað var undir samninginn um liðna helgi á síðasta Goðamóti þessa vetrar. Goðamótaröðin hefur verið haldin frá árinu 2003 og eru þau orðin 41 talsins. Norðlenska hefur komið að mótunum frá upphafi og mun gera það næstu 3 árin. Mótin eru haldin fyrir yngri iðkendur í knattspyrnu karla og kvenna. Mikið líf og fjör er í Boganum á Akureyri þegar mótin eru haldin og má sjá gleðina skína af andlitum keppenda og ekki ólíklegt að stjörnur framtíðarinnar á knattspyrnusviðinu leynist í hópi þátttakenda.
„Við erum mjög ánægð með að hafa komið að uppbyggingu þessara móta frá upphafi. Við teljum það mikilvægt að styðja við barna og unglingastarf og höfum gert það í gegnum árin með myndarlegum hætti á okkar starfssvæðum. Goðamótin eru þó stærsti einstaki viðburðurinn þar sem við erum bakhjarlar og munum verða áfram næstu 3 árin hið minnsta. Ég hef frá upphafi fylgst með þessum mótum, verið þátttakandi sem foreldri, þjálfari og styrktaraðili og það er í einlægni sagt ótrúlega gaman að sjá hversu glaðir og ánægðir keppendur eru þegar haldið er heim á leið. Við erum stolt af því að geta stutt við starfsemi knattspyrnudeildar Þórs með þessum hætti.“ segir Ingvar Gíslason, Markaðsstjóri Norðlenska.
Myndir frá mótum vetrarins má sjá á heimasíðu Þórs.