Mjög vel heppnuð matarmenningarhátíð
Norðlenska tók þátt í Local Food Festival, norðlensku matarmenningarhátíðinni, en hápunktur hennar var sýning í íþróttahöllinni á Akureyri á laugardaginn. „Við leggjum mikinn metnað í þátttöku okkar á sýningunni. Bæði gafst gestum sýningarinnar möguleiki á að bragða á okkar góðu framleiðsluvörum og gátu einnig gert afar góð kaup á vörum okkar,“ segir Ingvar Gíslason, markaðsstjóri Norðlenska.
Tilgangur hátíðarinnar er að vekja athygli á Norðurlandi og þeirri miklu matvælaframleiðslu sem þar fer fram, fjölbreyttu úrvali veitingastaða, matarmenningu og annarri framleiðslu sem tengist matvælum.
Norðlenska hefur tekið þátt á hátíðinni undanfarin ár og óhætt er að segja að nú, sem fyrr, hafi gestir sýningarinnar kunnað vel að meta það sem boðið var upp á í bás fyrirtækisins. „Tvíreykta hangilærið seldist upp ásamt því að nýungar líkt og Eldstafirnir ruku út. Þá vorum við með lambalæri af nýslátruðu á boðstólnum og hið sívinsæla lamba prime í hvítlauk og rósmarín. Okkur finnst þó alltaf skemmtilegast við þessar sýningar að þarna gefst einstakt tækifæri til að hitta neytendur á vörum okkar, spjalla og fá góð ráð frá þeim og ræða þennan heim sem að matvælaframleiðsla er,“ segir Invar.
Áætlað er að um 15.000 gestir hafi sótt sýninguna í ár sem þótti hin glæsilegasta, ekki síst vegna mikils metnaðar sýnenda og allra sem að sýningunni komu. Þá var matreiðslu- og drykkjakeppni fjölbreyttari en áður og metþátttaka alls staðar.