Samið við Þrif og ræstivörur
Samið hefur verið til tveggja ára við fyrirtækið Þrif og ræstivörur um þrif á vinnslustöð Norðlenska á Akureyri og skrifstofuhúsnæði, bæði á Akureyri og í Reykjavík. „Svona þjónusta skiptir okkur öllu máli. Það, að þrif séu í góðu lagi, er grundvöllur gæða,” segir Bára Eyfjörð Heimisdóttir, gæðastjóri Norðlenska.
Bára segir að um nokkuð stórt verkefni sé að ræða. „Við gerðum könnun á bæði verði og gæðum þjónustunnar og ákváðum að slá til og semja við annað fyrirtæki en áður. Við höfum mikla trú á Þrifum og ræstivörum,″ segir Bára. Vinnslusal Norðlenska á Akureyri þarf að þrífa sex daga vikunnar, því þar er unnið á sunnudögum auk virku daganna.
Góð undirstaða
„Þetta er umfangsmikið verkefni og eitt af okkar stærstu. Það hleypur á tugum milljóna á ári og eins og gefur að skilja er það mjög góð undirstaða fyrir okkur að fá svona stórt verkefni,” segir Sveinn Rúnar Pálsson, eigandi og framkvæmdastjóri Þrifa og ræstivara.
Ellefu ár eru síðan Sveinn Rúnar stofnaði Þrif og ræstivörur. „Fyrirtækið hefur verið dálítið falið, ef svo má segja, við höfum ekki látið mikið á okkur bera heldur látum verkin tala,” segir hann, en alls starfa á milli 65 og 70 manns hjá fyrirtækinu, og heilsársstörfin eru 20. Þrif og ræstivörur sinnir verkefnum víða á Norðurlandi, á Dalvík, Ólafsfirði, Húsavík og Mývatnssveit auk Akureyrar.
„Núna þjónustum við á milli 50 og 60 fyrirtæki alla daga. Við erum mikið á hótelunum í Mývatnssveit yfir sumarið og svo vinnum við líka mikið fyrir tryggingafélögin, höfum sérhæft okkur í þrifum eftir vatns- og brunatjón,” segir Sveinn Rúnar.