Sauðfjárslátrun hafin á Húsavík
Sauðfjárslátrun hófst hjá Norðlenska á Húsavík á miðvikudag þegar um 1000 dilkum var slátrað. Reikna má með því að um miðja næstu viku verði sláturhúsið á Húsavík komið í full afköst en þá verður slátrað um 2000-2200 dilkum á hverjum degi. Nýtt lambakjöt og innmatur er nú þegar fáanlegt í Nóatún og Krónunni.
Áætlað er að slátra um 80.000 dilkum á þessari sláturtíð sem líkur 25.október. Líkt og fyrri ár kemur starfsfólkið víða að en 90 manns eru ráðnir til starfa á meðan sláturtíð stendur og kemur starfsfólkið frá 17 löndum í Evrópu, flestir frá Norðurlöndunum. "Algengt er að sama fólkið mæti ár eftir ár og fyrir það erum við þakklát því það skiptir rosalega miklu máli að vandað sé til verka í sauðfjárslátrun og þar skiptir gott starfsfólk miklu máli", sagði Sigmundur Hreiðarsson vinnslustjóri á Húsavík í stuttu spjalli.