Uppfærsla á verðskrá sauðfjár haustið 2017
Þegar ákvörðun var tekin um verðskrá fyrir sauðfjárinnlegg haustið 2017 lá fyrir að ef betur færi varðandi afurðasölu en óttast var myndi verðskrá verða endurskoðuð í ljósi þess. Einnig hefur legið fyrir að vegna þeirrar óvissu sem fylgir miklu birgðahaldi á sauðfjárafurðum er það vilji fyrirtækisins að uppfæra verðskrá einungis fyrir þann hluta innleggs sem hefur verið seldur á hverjum tíma.
Sala Norðlenska á lambakjöti bæði innanlands og utan í lok árs 2017 er um fjórðungur af innleggi síðustu sláturtíðar og gefur afkoman tilefni til leiðréttingar á verðskrá um 3% af innleggi dilkakjöts haustið 2017.
Næsta endurskoðun verðskrár er fyrirhuguð í maí vegna sölu á fyrsta ársfjóðungi 2018.
Leiðréttingin kemur til greiðslu 15. febrúar.