Verðlagning á sauðfjárinnleggi hjá Norðlenska haustið 2016
Norðlenska hefur ákveðið að lækka verðskrá sauðfjárinnleggs fyrir sláturtíðina 2016 um 10% fyrir dilka og 38% fyrir fullorðið fé. Ástæðurnar eru þrjár: Heildsöluverð hefur ekki hækkað í samræmi við launahækkanir sem hefur komið niður á afkomu Norðlenska; slæmar horfur á útflutningsmörkuðum; styrking á gengi krónunnar á sama tíma og vaxtastig hefur haldist mjög hátt. Þetta hefur leitt til þess að afkoma Norðlenska af sölu lambakjöts hefur rýrnað á síðastliðnum árum og við þessari stöðu verður að bregðast.
Afkoma Norðlenska af slátrun og vinnslu sauðfjárafurða hefur verið óviðunandi og verulegt tap myndaðist vegna þessa á rekstarárinu 2015. Heildsöluverð á kjöti hefur ekki hækkað í samræmi við aukinn launakostnað vegna sláturunar og vinnslu.
Horfur á útflutningsmörkuðum fyrir kjöt og aukaafurðir eru neikvæðar um þessar mundir og verðlækkanir yfirvofandi víða. Auk þess rýrir styrking krónunnar verðmætið í krónum talið. Á sama tíma hefur vaxtastig í landinu haldist mjög hátt sem gerir allan birgðakostnað íþyngjandi. Þá er eftirspurn eftir aukaafurðum lítil og verð mjög lág, til að mynda er enn mikið af gærum frá árunum 2014 og 2015 óseldar og verð á görnum, vömbum og öðrum útfluttum sláturvörum hefur lækkað mikið.
Meðal innkaupsverð Norðlenska á dilkum, svokallað bændaverð, hefur hækkað um rúm 42% frá 2010 til 2015. Meðal innkaupsverð á fullorðnu fé hefur á sama tíma hækkað um tæp 44%. Grundvöllur þessara hækkana undanfarinna ára voru ágætar aðstæður á útflutningsmörkuðum. Nú hafa þær aðstæður breyst og verðskrárbreytingar taka mið af því.
Verðskrá sauðfjárafurða má finna hér á heimasíðunni undir bændur