Fréttir

12-14 þúsund gestir á Matur-Inn 2009 um helgina

Sýningin MATUR-INN 2009 fór fram í fjórða sinn um helgina. Sýningin var haldin í Íþróttahöllinni á Akureyri og var fjölsótt. Aðgangur var ókeypis og mikilll straumur gesta báða sýningardagana. Áætlað er að 12-14 þúsund gestir hafi komið á sýninguna en hún var haldin af félaginu Mat úr Eyjafirði í góðu samstarfi við Matarkistuna Skagafjörð og Þingeyska matarbúrið. Þátttakendur í sýningunni voru á fimmta tug og þar var bæði hægt að bragða á norðlenskum matvælum en ekki síður nýttu sýningargestir sé hagstæð sýningartilboð hjá sýnendum.

„Við vitum dæmi þess að fyrirtæki hafi selt tífalt meira magn en á  síðustu sýningu fyrir tveimur árum og almennt voru sýnendur mjög ánægðir með viðtökur gesta,“ segir Ingvar Már Gíslason í sýningarstjórn. „Markmiðið með sýningunni var að vekja athygli á því hve matvælaframleiðsla er öflug á Norðurlandi og ekki aðeins framleiðsla heldur ekki síður veitingastarfsemi og margir aðrir þættir sem snerta matvælageirann á Norðurlandi. Við færðum sýninguna í mun stærra húsnæði en hún var áður í  þannig að mun rýmra var um gesti og sýnendur. Í heild tel ég að þau markmið sem við lögðum upp með hafi gengið eftir,“ segir Ingvar Már.  Fjölmargt áhugavert var á dagskrá sýningarinnar. Á laugardag var málþing um íslenskan mat, sömuleiðis matreiðslukeppni þjóðþekktra þar sem Sigrún Stefánsdóttir, bæjarfulltrúi á Akureyri sigraði. Í þeirri keppni glímdu fjórir keppendur við eldamennsku á saltfiski en fyrirfram vissu þau ekki  hvert hráefnið yrði. Aðrir keppendur voru Kristján Þór Júlíusson, alþingismaður, María Sigurðardóttir, leikhússtjóri og Svavar Alfreð Jónsson, sóknarprestur. Sömuleiðis kepptu fulltrúar matarfélaganna þriggja, þ.e. Matar úr Eyjafirði, Matarkistunnar Skagafjarðar og Þingeyska matarbúrsins í fiskisúpugerð. Í þeirri keppni sigruðu Sólveig Pétursdóttir og Jóna Matthíasdóttir fyrir Þingeyska matarbúrið. Þingeyingurinn Anton Freyr Birgisson reyndist gera besta borgarann á Norðurlandi í ár en í þeirri keppni voru 10 keppendur.  Loks sýndu kjötiðnaðarmenn vinnslu á tveimur lambsskrokkum og voru afurðirnar boðnar upp. Á uppboðinu voru einnig seldar matar- og gjafakörfur, allt til stuðnings Hetjunum - félagi langveikra barna á Norðurlandi. Alls söfnuðust 167 þúsund krónur fyrir félagið. Á sýningunni voru frumkvöðlaverðlaun Matar úr Eyjafirði veitt í þriðja sinn. Þau hlaut fyrirtækið Bruggsmiðjan á Árskógssandi fyrir kraftmikla uppbyggingu í framleiðslu, góðan markaðsárangur og að halda merki íslenskrar framleiðslu á lofti.  Sýningin MATUR-INN er haldin á tveggja ára fresti og er stefnt að næstu sýningu haustið 2011. 


Svæði

Norðlenska ehf

Grímseyjargötu
600 Akureyri

s. 469-4500

kt: 500599-2789

upplysingar@nordlenska.is

Póstlistinn

Skráðu þig á póstlistann hjá okkur og fáðu fréttir sendar á netfangið þitt.

Vörumerki Norðlenska

GoðiKEAHúsavíkur kjötBautabúrið

Goði á facebook