Fréttir

Að lokinni sláturtíð 2008

Haustslátrun Norðlenska lauk á Húsavík 24. október og Höfn 31. október sl. Í það heila var slátrað ríflega 108 þúsund fjár, þar af rösklega 77 þúsund á Húsavík og um 31 þúsund á Höfn. 

Dilkar voru umtalsvert þyngri á Húsavík í haust en í fyrra og að sama skapi voru kjötgæði dilka sem var slátrað þar meiri en haustið 2007 og þeir voru eilítið feitari.  Meiri meðalþungi í haust en árið 2007, sem nemur að jafnaði tæplega 0,9 kg pr. dilk, gerir það að verkum að þrátt fyrir fækkun sláturfjár á Húsavík í haust samanborið við 2007 skilaði nýafstaðin sláturtíð meira kjötmagni en í fyrra. Á Höfn var munurinn milli ára í meðalþunga dilka, kjötgæðum og fitu mun minni en á Húsavík.  

Verkun í báðum sláturhúsunum var mjög góð, sérstaklega þó á Húsavík þar sem hún hefur aldrei verið betri.

Samanburð milli 2007 og 2008 á Húsavík og Höfn má sjá í neðangreindum töflum:

                               Húsavík

                                2007      2008
Meðalþyngd              15,21       16,09
Fitug                          6,18         6,34
Kjötg                         7,87         8,31

 

                                  Höfn

                                2007      2008
Meðalþyngd              15,15       15,22
Fitug                          6,78         6,90
Kjötg                         8,46         8,17


Sláturtíðin fór rólega af stað, sem helgaðist af því að fyrstu daga hennar gekk erfiðlega að fá dilka til slátrunar, bæði á Húsavík og Höfn. Af þessum sökum vorum við með vannýtt en fullmönnuð sláturhús í nokkra daga, sem kostaði fyrirtækið umtalsverða fjármuni. Síðustu daga sláturtíðarinnar mátti síðan ekki tæpara standa að unnt væri að verða við öllum óskum um slátrun áður en erlendir starfsmenn okkar í sláturhúsunum fóru af landi brott.

Í þessu sambandi er ástæða til að nefna að m.a. vegna ráðningar erlendra starfsmanna í  sláturtíðinni verður Norðlenska að ákveða haustslátrun með löngum fyrirvara - bæði hvenær hún hefst og hvenær henni lýkur. Erlendir starfsmenn okkar í sláturtíð þurfa að fá upplýsingar um það með góðum fyrirvara hvenær þeir koma til landsins og einnig hvenær þeir halda af landi brott. Þessum dagsetningum er ekki hægt að hnika.

Ljóst er að við þurfum að skoða gaumgæfilega með bændum hvað hægt er að gera til að fá fé í sláturhús fyrstu daga sláturtíðar og þar með að fyrirbyggja að við stöndum aftur frammi fyrir vannýttum sláturhúsum í upphafi sláturtíðar, eins og í  haust.  
Veðráttan þegar líður á október er oft og tíðum rysjótt. Í haust sluppum við fyrir horn með slátrun á Húsavík, hvað veðráttu snertir, en þó ekki meira en svo því síðustu daga sláturtíðarinnar lét veturinn til sín taka.  Við hefðum raunar verið betur settir að ljúka slátrun fyrr í október.

Það er og á ætíð að vera keppikefli bæði innleggjenda og sláturleyfishafa að nýta sláturhúsin sem best. Það stoðar lítið að ræða um hagræðingu í greininni ef ekki næst að nýta sláturhúsin á meðan á sláturtíð stendur.

Nokkur fækkun varð í haust á fé til slátrunar í báðum sláturhúsum Norðlenska. 
Á Húsavík má fyrst og fremst rekja fækkun sláturfjár til þess að nokkrir bændur, sem höfðu lagt inn fé til slátrunar hjá Norðlenska, hættu fjárbúskap haustið 2007.   
Á Höfn fækkaði sláturfé milli ára vegna þess að tveir bændur, sem áður slátruðu fé sínu á Höfn,  kusu að fara annað með féð þetta haustið.  
Það er slæmt að missa bændur úr viðskiptum, en grunnur að rekstri sláturhúss á Höfn er að nægilega margt fé komi þar til slátrunar. Fækkun sláturfjár á Höfn veldur því að Sláturfélagið Búi, eigandi sláturhússins á Höfn, verður af umtalsverðum tekjum þar sem leiga Norðlenska á sláturhúsinu er háð fjölda sláturfjár.    

Eins og áður segir var fallþungi dilka umtalsvert meiri í haust en í fyrra, þó einkum á Húsavík.  Þyngsti dilkurinn þetta árið reyndist vera 28,10 kg.

Sá innleggjandi sem var með hæsta meðalverðið fyrir sitt innlegg fékk greiddar kr. 9.199 pr. dilk að meðaltali, að meðtöldum greiðslum frá Markaðsráði.  Sá sem hins vegar var með lægsta meðalverð fyrir sínar afurðir fékk greiddar  kr. 4.456 pr. dilk.  Munurinn á hæsta og lægsta afurðaverði er því um 4.700 kr. pr. dilk.  Af þessu sést að ekki þarf að hafa um það mörg orð að ávinningur bænda af því að fá hærra meðalverð fyrir afurðir sínar er umtalsverður.

Þrátt fyrir að sláturtíðin hafi farið rólega af stað í haust, eins og getið er um hér að framan, er þó óhætt að segja að þegar á heildina er litið hafi hún gengið vel. Verkun var einstaklega góð, sem umfram allt ber að þakka vönduðum og markvissum vinnubrögðum við slátrunina. Hjá okkur starfaði hópur fólks, bæði heimamenn og erlent starfsfólk, sem myndaði eina öfluga heild. Öllu þessu fólki þakka ég fyrir vel unnin störf og færi sömuleiðis innleggjendum þakkir fyrir góð samskipti. 

Reynir Eiríksson,
framleiðslustjóri Norðlenska


Svæði

Norðlenska ehf

Grímseyjargötu
600 Akureyri

s. 469-4500

kt: 500599-2789

upplysingar@nordlenska.is

Póstlistinn

Skráðu þig á póstlistann hjá okkur og fáðu fréttir sendar á netfangið þitt.

Vörumerki Norðlenska

GoðiKEAHúsavíkur kjötBautabúrið

Goði á facebook