Fréttir

Að lokinni sláturtíð 2009

Haustslátrun Norðlenska lauk á Húsavík 28. október og á Höfn  29. október. Alls var slátrað ríflega 108 þúsund fjár, tæplega 77 þúsund á Húsavík og rúmlega 31 þúsund á Höfn.  Dilkar voru örlítið þyngri haustið 2009 en í fyrra, á Húsavík munaði 30 gr. og 70 gr. á Höfn. Meðalþyngd má sjá hér að neðan. Fita jókst á Húsavík en kjötgerð lækkaði. Á Höfn var það aftur á móti öfugt, fita minnkaði eilítið og það sama er að segja um kjötgæði. 

Verkun í báðum sláturhúsunum var mjög góð, sérstaklega á Húsavík þar sem hún hefur aldrei verið betri. 

Gögn fyrir lömb árin 2007 – 2009, á Húsavík og Höfn má sjá í neðangreindum töflum:

Deild
Ár
Meðalþyngd Fitug
Kjötg
Húsavík
 2007
 15,21  6,18  7,87
   2008  16,08  6,34  8,31
   2009  16,11  6,48  8,16
         
Höfn
 2007  15,16  6,78  8,45
   2008  15,23  6,90  8,17
   2009  15,30  6,81  8,18


nordgraf
Við hófum slátrun örlítið seinna þetta haustið en undanfarin ár, bæði á Húsavík og Höfn. Á Húsavík gekk ekki nógu vel að fullnýta húsið, þrátt fyrir að við byrjuðum seinna en áður; það sem einkum vantaði fyrstu dagana var fé frá Austurlandi og þar af leiðandi var slátrað þremur dögum lengur en áætlað var í upphafi, til þess að klára, þó með hálfum afköstum síðustu dagana. 

Á Höfn gekk vel að komast af stað og góð nýting var á húsinu. Meðalslátrun var meiri en í fyrra og því náðist að klára degi fyrr en reiknað hafði verið með. Síðan stóð til að slátra 500 – 700 lömbum á Höfn í nóvember og desember og það verður gert á næstu dögum.

Starfsfólk í  sláturhúsum Norðlenska vann afbragðs vel að þessu sinni og er það samdóma álit þeirra sem að slátrun komu að húsin hafi ekki verið betur mönnuð áður. Þetta kom greinilega fram í góðum afköstum og verkun.

Ljóst er að við þurfum að skoða gaumgæfilega með bændum hvað hægt er að gera til að fá fé í hús strax í byrjun sláturtíðar og þar með að fyrirbyggja að húsin séu vannýtt í upphafi hennar, eins og í  haust. Einkum á þetta við um Húsavík.   

Það er, og á ætíð að vera, keppikefli bæði innleggjenda og sláturleyfishafa að nýta sláturhúsin sem best. Það stoðar lítið að ræða um hagræðingu í greininni ef ekki næst að nýta húsin nægilega vel og ná öðru fram sem þarf til að koma kjöti til neytenda.

Veðráttan var okkur hagfelld þetta haustið og setti lítið strik í reikninginn.

Norðlenska slátraði fé frá álíka mörgum bændum nú og í fyrra og magnið var nánast það sama. 

Af bændum sem lögðu inn meira en 100 lömb var meðalverð þess,  sem mest bar út býtum,  8.804 krónur fyrir lamb. Sá sem var með lægst meðalverð fékk  hinsvegar 5.006 kr. að meðaltali fyrir lamb.  Eins og við höfum séð áður er verulegur munur á þeim hæsta og lægsta og greinilegt að þarna eru mikil sóknarfæri hjá mörgum bændum.

Þrátt fyrir að sláturtíðin hafi farið rólega af stað í haust, eins og getið er um hér að framan, er þó óhætt að segja að þegar á heildina er litið hafi hún gengið vel. Verkun var einstaklega góð, sem umfram allt ber að þakka vönduðum og markvissum vinnubrögðum við slátrunina. Hjá okkur starfaði öflugur hópur fólks, bæði heimamenn og erlent starfsfólk, sem myndaði eina öfluga heild. Öllu þessu fólki þakka ég fyrir vel unnin störf og færi sömuleiðis innleggjendum þakkir fyrir góð samskipti. 

Reynir Eiríksson,
framleiðslustjóri Norðlenska


Svæði

Norðlenska ehf

Grímseyjargötu
600 Akureyri

s. 469-4500

kt: 500599-2789

upplysingar@nordlenska.is

Póstlistinn

Skráðu þig á póstlistann hjá okkur og fáðu fréttir sendar á netfangið þitt.

Vörumerki Norðlenska

GoðiKEAHúsavíkur kjötBautabúrið

Goði á facebook