Fréttir

Aðalfundur Norðlenska: Góður daglegur rekstur en mikið gengistap og óhóflegur fjármagnskostnaður

Daglegur rekstur Norðlenska var í góðu jafnvægi á árinu 2008 og mjög í takti við áætlanir. En gengisfall krónunnar og gríðarlega hátt vaxtastig í þjóðfélaginu kom illa við Norðlenska eins og öll önnur fyrirtæki í landinu og gerði það að verkum að félagið var gert upp með 402 milljóna halla á árinu 2008. Þetta kom fram á aðalfundi Norðlenska 20. febrúar sl.

Á aðalfundinum var gerð grein fyrir rekstri félagsins á liðnu ári. Þar kom fram að veltan var um 3,7 milljarðar króna og hafði aukist um tæp 16% frá árinu 2007. Sala framleiðsluvara fyrirtækisins var mjög góð á árinu og hefur raunar aldrei verið meiri.

Hagnaður fyrir afskriftir, vexti og skatta (EBITDA) var 254 milljónir á liðnu ári, samanborið við 279 milljónir árið 2007, en gríðarleg hækkun fjármagnsgjalda á síðari hluta árs 2008 gerði það að verkum að niðurstöðutalan var halli upp á 402 milljónir króna.

Það segir sína sögu að fjármagnsliðir hækkuðu úr 111 milljónum króna árið 2007 í 590 milljónir árið 2008. Þar hefur gengisfall krónunnar gagnvart erlendum myntum afgerandi áhrif sem og himinháir vextir. Einnig hafa ýmsir rekstrarþættir hækkað upp úr öllu valdi á árinu - t.d. flutningskostnaður.

Rekstur Norðlenska var í mjög góðu jafnvægi fyrstu tvo ársfjórðunga og þá var fyrirtækið í hagnaðarrekstri, en algjör umskipti urðu í efnahagshruninu á síðustu mánuðum ársins.

Erlend lán eru bróðurpartur langtímalána Norðlenska, en skammtímalánin eru innlend. Gengistap á erlendum lánum var um 433 milljónir á árinu. Þessar utanaðkomandi erfiðu aðstæður í samfélaginu hafa gert það að verkum að eiginfjárstaða félagsins hefur breyst úr því að vera 18,5% á árinu 2007 í 0,1% í árslok 2008.

Sigmundur E. Ófeigsson, framkvæmdastjóri Norðlenska, sagði á aðalfundi félagsins sl. föstudag að ef gengi krónunnar myndi styrkjast töluvert á þessu ári megi vænta þess að eigið fé félagsins muni styrkjast aftur til muna. Gangi það eftir megi vænta þess að verulegur hagnaður verði af rekstri félagsins og langtímalán lækki þá umtalsvert.

Sigmundur sagði á aðalfundinum að vaxtaokrinu í samfélaginu yrði að linna, það væri lífsspursmál fyrir fyrirtæki eins og Norðlenska og raunar fyrir allt atvinnulíf í landinu. Atvinnulífið þyldi einfaldlega ekki svo fjandsamlegar rekstraraðstæður í marga mánuði í viðbót. Vaxtalækkun yrði því að koma til strax.

"Norðlenska hefur staðið við allar skuldbindingar og er að greiða af öllum lánum, sem sýnir styrk félagsins. Félagið er með afar hátt tæknistig og það býr við góð samskipti við bændur og er með afar hæft starfsfólk. Þessir þættir skapa félaginu tækifæri umfram aðra þó svo að tímabundið ástand fjármálamarkaða skekki allan rekstur," sagði Sigmundur á aðalfundinum.

Auður Finnbogadóttir, stjórnarformaður, segir ljóst að háir skammtímavextir eigi sinn þátt í að skerða hagnað félagsins og því skipti miklu máli að Seðlabankinn, stjórnvöld og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn nái sem fyrst saman um skjóta lækkun vaxta. "Framtíð fyrirtækisins veltur meðal annars á því að gengi krónunnar veikist ekki aftur frá því sem nú er og jafnvægi náist. Það sem af er þessu ári gefur væntingar um að það muni takast þar sem evran hefur til að mynda styrkst um19%. Fjármálakreppur eiga sér víst upphaf og endi og ég ætla að leyfa mér að vonast til þess að við sjáum hilla undir lok fyrri hálfleiks síðsumars á Íslandi," sagði Auður.

Sigmundur E. Ófeigsson segir að á þessu ári sé mikil óvissa á kjötmarkaði vegna afnáms útflutningsskyldu. Einnig sé töluverð óvissa um áhrif matvælafrumvarpsins, verði það að lögum á yfirstandandi þingi.

Hjá Norðlenska voru 196 ársverk á árinu 2008. Um 700 framleiðendur leggja inn afurðir hjá félaginu. Norðlenska keypti kjöt af framleiðendum fyrir um 1400 milljónir króna á síðasta ári og til viðbótar keypti félagið kjöt fyrir um 400 milljónir. Í það heila keypti Norðlenska því afurðir fyrir tæpa tvo milljarða króna á árinu.

Stjórn Norðlenska var endurkjörin á aðalfundinum og skipti hún með sér verkum að honum loknum. Í stjórn eru Auður Finnbogadóttir, formaður, Ingvi Stefánsson, varaformaður, Geir Árdal, ritari, Aðalsteinn Jónsson, meðstjórnandi og Heiðrún Jónsdóttir, meðstjórnandi.


Svæði

Norðlenska ehf

Grímseyjargötu
600 Akureyri

s. 469-4500

kt: 500599-2789

upplysingar@nordlenska.is

Póstlistinn

Skráðu þig á póstlistann hjá okkur og fáðu fréttir sendar á netfangið þitt.

Vörumerki Norðlenska

GoðiKEAHúsavíkur kjötBautabúrið

Goði á facebook