Fréttir

Aðalfundur Norðlenska matborðsins ehf. haldinn í gær

Á síðustu mánuðum hefur orðið verulegur rekstrarbati hjá kjötvinnslufyrirtækinu Norðlenska matborðinu ehf. og rekstrarhorfur fyrir þetta ár eru nokkuð góðar. Síðasta ár var fyrirtækinu hins vegar afar erfitt, rekstrartapið varð 194 milljónir króna sem myndaðist fyrst og fremst á fyrri helmingi ársins. Þrátt fyrir nokkurt rekstrartap á síðari hluta ársins var fjármunamyndun á því tímabili upp á röskar 25 milljónir króna og hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) 93 milljónir króna, en á fyrrihluta ársins var EBITDA neikvæð um tæpar 16 milljónir.Fréttatilkynning

Reksturinn að komast í jafnvægi eftir erfitt ár 2003

 

Á síðustu mánuðum hefur orðið verulegur rekstrarbati hjá kjötvinnslufyrirtækinu Norðlenska matborðinu ehf. og rekstrarhorfur fyrir þetta ár eru nokkuð góðar. Síðasta ár var fyrirtækinu hins vegar afar erfitt, rekstrartapið varð 194 milljónir króna sem myndaðist fyrst og fremst á fyrri helmingi ársins. Þrátt fyrir nokkurt rekstrartap á síðari hluta ársins var fjármunamyndun á því tímabili upp á röskar 25 milljónir króna og hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) 93 milljónir króna, en á fyrrihluta ársins var EBITDA neikvæð um tæpar 16 milljónir

 

 

Rekstrartekjur Norðlenska voru á sl. ári 2.176,8 milljónir króna, en rekstrargjöldin 2.099,8 milljónir. Vergur hagnaður (EBITDA) var 77 milljónir og afskriftir námu 130,9 milljónum króna. Tap fyrir fjármagnsliði var 53,9 milljónir, fjármagnsgjöld voru 103,8 milljónir og óreglulegir liðir námu 35,9 milljónum. Tap ársins varð því 193,6 milljónir króna. Veltufé til rekstrar var neikvætt um 29,6 milljónir króna.

 

Erfiðar ytri aðstæður á síðasta ári

Í skýrslu Sigmundar E. Ófeigssonar, framkvæmdastjóra Norðlenska, á aðalfundi fyrirtækisins í gær, kom m.a. fram að ytri aðstæður hafi verið Norðlenska afar erfiðar á liðnu ári, ekki síst hafi gjaldþrot kjötvinnslufyrirtækja og sláturhúsa komið illa við rekstur fyrirtækisins. Með gjaldþroti Ali-samstæðunnar og Móa segir Sigmundur að tapist margir milljarðar króna út úr greininni.  Þá nefndi hann að undirboð framleiðenda á markaði hafi keyrt úr hófi fram á síðasta ári. ¿Svínakjöt lækkaði niður úr öllu valdi og voru sláturhús farin að kaupa svínakjöt á innan við 100 krónur fyrir kílóið á síðasta ári samanborið við 265 krónur á miðju ári 2001. Útsöluverð fór einnig niður og var svo komið að svínakjöt var meira og minna selt á útsölum fyrir ¿spottprís¿. Sem dæmi fór hamborgarhryggurinn niður fyrir 600 krónur á kílóið og kjúklingur niður undir 100 krónur á kílóið,¿ sagði Sigmundur m.a. í skýrslu sinni til aðalfundarins.

 

Nýjar vinnslulínur skila ótvíræðum árangri

Á aðalfundinum kom fram að nýjar vinnslulínur í vinnslustöðvum fyrirtækisins á Húsavík og Akureyri séu farnar að skila ótvíræðum árangri. Nýting hráefnisins sé allt önnur og betri en áður og vinna við úrbeiningu markvissari og um leið léttari. Úrbeiningarlína fyrir lambakjöt, sem Marel þróaði í samstarfi við Norðlenska, var sett upp á Húsavík síðarhluta árs 2002 og skilaði hún fljótlega verulega mikilli hagræðingu. Það sama hefur orðið uppi á teningnum á Akureyri þar sem úrbeiningarlína fyrir stórgripi ¿ svín og nautgripi ¿ var sett upp um mitt ár 2003.   Þessi þróunarvinna Marels og Norðlenska hefur því skilað umtalsverðri rekstrarhagræðingu og gert Norðlenska betur í stakk búið að mæta síauknum kröfum markaðarins um gæði, ferskleika og ekki síst rekjanleika afurða.

Hjá Norðlenska voru unnin 185 ársverk á síðasta ári.

 

Framleiðendafélag bænda hefur keypt 36,75% hlut í Norðlenska

Á síðari hluta síðasta árs keypti Kaupfélag Eyfirðinga öll hlutabréf í Norðlenska ehf. af Kaldbaki hf. fyrir 250 milljónir króna. Síðar keyptu Akureyrarbær, Húsavíkurbær og Eignarhaldsfélagið Samvinnutryggingar hlut í félaginu fyrir samtals 83 milljónir króna.

Hlutafé í Norðlenska var aukið í 400 milljónir króna og jafnframt seldi KEA hluta af sínum bréfum í Norðlenska til Búsældar ehf., félags kjötframleiðenda í Eyjafirði, Þingeyjarsýslum og á Austurlandi fyrir 147 milljónir króna. Eftir þessi viðskipti er hlutur Búsældar 36,75% af heildarhlutafé í Norðlenska, KEA á 42,5% hlut í félaginu (170 milljónir króna), Samvinnutryggingar eiga 10% hlut (40 milljónir króna), Akureyrarbær 7,5% hlut (30 milljónir króna) og Húsavíkurbær 3,75% hlut (13 milljónir króna).

 

Búsæld ehf. með kynningarfundi á Norður- og Austurlandi

Búsæld ehf. var stofnuð í desember 2003 með það að markmiði að eignast ráðandi hlut í Norðlenska. Sem fyrr segir standa að Búsæld kjötframleiðendur í Eyjafirði, Þingeyjarsýslum og á Austurlandi. Gert er ráð fyrir að þeir leggi til hliðar hluta af andvirði innleggs síns hjá Norðlenska og eignist þannig hver um sig hlut í Búsæld.

Í dag, föstudag, er fyrsti kynningarfundurinn af þremur sem Búsæld, KEA og Norðlenska boða til um kaup Búsældar á hlut í Norðlenska og framtíðaráform félagsins. Þann 1. maí kl. 13.30 verður kynningarfundur í Hlíðarbæ og á Narfastöððum í Reykjadal mánudaginn 3. maí kl. 13.30.

 

Gert ráð fyrir jafnvægi í rekstrinum á þessu ári

Sigmundur E. Ófeigsson segir að í ár sé gert ráð fyrir hallalausum rekstri á Norðlenska. Verulegur rekstrarbati hafi orðið á síðari hluta síðasta árs og hann hafi haldið áfram það sem af er þessu ári. ¿Þrátt fyrir að ekki hafi myndast hagnaður í rekstrinum á fyrstu mánuðum ársins, hefur þó orðið fjármunamyndun og það eru mikil og jákvæð umskipti,¿ segir Sigmundur. ¿Það er erfitt að ráða í stöðuna á kjötmarkaðnum, en við gerum ekki ráð fyrir að hann verði kominn í þokkalegt jafnvægi fyrr en á síðari hluta ársins.¿

 

Stefnt að því að auka útflutning til Bandaríkjanna á þessu ári

Sala afurða Norðlenska hefur gengið vel. Skortur hefur þó verið á nautakjöti og því ekki reynst unnt að svara eftirspurn. Jafnvægi er hins vegar að komast á framboð og spurn eftir svínakjöti.

Heildarumsýsla Norðlenska með lambakjöt var fast að 2000 tonn á síðasta ári, sem er um fjórðungur allrar lambakjötsframleiðslu í landinu. Þar af koma um 1400 tonn úr slátrun Norðlenska og auk þess hefur félagið selt samtals um 550 tonn af lambakjöti frá Búa svf. á Höfn í Hornafirði og Kaupfélagi Króksfjarðarness.

Norðlenska flutti út um 560 tonn af lambakjöti í fyrra, þar af nam útflutningur til Bandaríkjanna, sem hefur verið að gefa hæsta skilaverðið í útflutningi félagsins, um 80 tonnum. Stefnt er að því að auka útflutning til Bandaríkjanna á þessu ári upp í um 120 tonn.

 

Þrír fulltrúar Búsældar ehf. í stjórn Norðlenska

Á aðalfundi Norðlenska í gær var aðalmönnum í stjórn félagsins fjölgað úr þremur í fimm og jafnframt var varamönnum fjölgað úr einum í tvo. Í aðalstjórn eru: Andri Teitsson, framkvæmdastjóri KEA, sem er stjórnarformaður Norðlenska, Benedikt Sigurðarson, formaður stjórnar KEA, Haukur Halldórsson, varamaður í stjórn KEA, Ingvi Stefánsson, bóndi í Teigi í Eyjafjarðarsveit og Aðalsteinn Jónsson, bóndi í Klausturseli. Varamenn í stjórn eru Björn Friðþjófsson, varaformaður stjórnar KEA og  Geir Árdal, bóndi í Dæli í Fnjóskadal.  Ingvi, Aðalsteinn og Geir eru fulltrúar Búsældar í stjórn Norðlenska. 

 


Fréttatilkynning frá Norðlenska matborðinu ehf.

Föstudaginn 30. apríl 2004

Svæði

Norðlenska ehf

Grímseyjargötu
600 Akureyri

s. 469-4500

kt: 500599-2789

upplysingar@nordlenska.is

Póstlistinn

Skráðu þig á póstlistann hjá okkur og fáðu fréttir sendar á netfangið þitt.

Vörumerki Norðlenska

GoðiKEAHúsavíkur kjötBautabúrið

Goði á facebook