Fréttir

Afkoman á síðasta ári umfram væntingar

“Ég tel að fyrirtækið sé komið í góða stöðu og ég fullyrði að það vildu margir eiga Norðlenska í dag. Staða fyrirtækisins er allt önnur og betri en árið 2001 þegar rekstur þess var endurreistur,” sagði Sigmundur E. Ófeigsson, á vel sóttum fundi Norðlenska og Búsældar með bændum í Ljósvetningabúð sl. miðvikudagskvöld.

“Ég tel að fyrirtækið sé komið í góða stöðu og ég fullyrði að það vildu margir eiga Norðlenska í dag. Staða fyrirtækisins er allt önnur og betri en árið 2001 þegar rekstur þess var endurreistur,” sagði Sigmundur E. Ófeigsson, á vel sóttum fundi Norðlenska og Búsældar með bændum í Ljósvetningabúð sl. miðvikudagskvöld.

Annað stærsta fyrirtækið á Akureyri
Fram kom hjá Sigmundi að rekstur Norðlenska hafi verið í góðu jafnvægi á síðasta rekstrarári og afkoman verið betri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Áætlaður EBITDA - hagnaður fyrir fjármagnsliði, skatta, afskrift fastafjármuna og viðskiptavildar – er rúmar 270 milljónir króna á síðasta ári. Sigmundur sagði að áætlun fyrir rekstur fyrirtækisins síðustu ár hafi í stórum dráttum gengið eftir, en afkomubatinn hafi þó verið skjótari en gert hafi verið ráð fyrir. Á næstu árum telur Sigmundur að góðar horfur séu í rekstri Norðlenska, að því gefnu að ytri skilyrði fari ekki verulega til verri vegar.
Vaxtaberandi skuldir Norðlenska eru nú rúmar 800 milljónir króna og hafa lækkað um hartnær helming frá árinu 2001.
Velta Norðlenska á liðnu ári var rétt um þrír milljarðar króna og er nú svo komið að fyrirtækið er það annað stærsta í veltu á Akureyri á eftir Samherja. Veltufé frá rekstri á síðasta ári var um 190 milljónir króna.
Sigmundur sagði að Norðlenska hafi á liðnu rekstrarári “tekið á með bændum”, eins og hann orðaði það, með því að taka á sig að stærstum hluta flutning sláturgripa, svo og hafi fyrirtækið greitt til samningsbundinna innleggjenda uppbót á innlegg.
Á síðustu mánuðum sagði Sigmundur að hafi verið töluverð óvissa um hvað ríkisstjórnin hyggðist fyrir varðandi innflutning landbúnaðarvara, en nú sé þeirri óvissu að mestu létt. “Ég tel að menn þurfi ekki að hafa stórar áhyggjur af þessum þætti því neytendur velji innlenda framleiðslu. Miklu fremur hafa menn áhyggjur af afnámi útflutningsskyldunnar,” sagði Sigmundur.

Útflutningsmál
Útflutningar Norðlenska á lambakjöti til Bandaríkjanna stóð ekki undir væntingum á síðasta ári og tapaði fyrirtækið á honum. Það sagði Sigmundur að væri óviðunandi staða og hann sagði að sínu mati ekki hægt að leggja það á eitt fyrirtæki, í þessu tilviki Norðlenska, að standa í þessum útflutningi og bera fjárhagslegan skaða af honum. “Það var ýmislegt sem hjálpaðist að við að gera okkur erfitt með þennan útflutning í fyrra. Í fyrsta lagi gengi dollars, í öðru lagi voru verðhækkanir á kjötinu minni en við vonuðumst eftir og í þriðja lagi komu þarna til tæknilegar hindranir. Við áttum fund með Bændasamtökunum þar sem við óskuðum eftir því að draga okkur út úr þessum útflutningi, en að okkur var lagt að ljúka verkefninu. En að mínu mati þarf að skoða þetta mál mjög ítarlega, ef framhald á að verða á þessum útflutningi. Hins vegar hefur útflutningur á aðra markaði gengið nokkuð vel. Þannig gekk útflutningur til Færeyja vel og það sama má segja um Bretland, en þangað seljum við úrbeinuð slög. Við töpuðum peningum á útflutningi á rúmum 62 tonnum til Bandaríkjanna sl. haust, en útflutningur á þessu kjötmagni til Færeyja hefði, sýnist mér, getað skilað okkur nokkrum hagnaði,” sagði Sigmundur.

Umtalsverð útflutningsþörf á þessu ári?
Á árinu 2006 nam framleiðslan í dilkakjöti í landinu um 7.765 tonnum. Innanlandssalan nam um 6.300 tonnum. Að teknu tilliti til rýrnunar var útflutningsþörfin um 1.300 tonn, en útflutningsskyldan var um 630 tonn.
Gert er ráð fyrir að framleiðslan á yfirstandandi ári nemi um 7.700 tonnum og salan innanlands er áætluð um 6.200 tonn. Í ljósi birgðastöðu um síðustu áramót gæti útflutningsþörfin því numið allt að 2.000 tonnum, að mati Ara Teitssonar, framkvæmdastjóra Búsældar, en hann fór yfir þessi mál á fundinum í Ljósvetningabúð sl. miðvikudagskvöld.

Áhugi á að Búsæld eignist meirihluta í Norðlenska
Samkvæmt hluthafasamkomulagi Hildings, dótturfélags KEA, og Búsældar er gert ráð fyrir að Búsæld eignist öll hlutabréf í Norðlenska, svo fljótt sem efni og aðstæður leyfa. Eigi síðar en 1. júní nk. munu Búsæld og Hildingur taka upp viðræður um að Búsæld kaupi eftirstöðvar af hlut Hildings í Norðlenska hver sem hann kann þá að verða. Til grundvallar verði lagt mat óháðs endurskoðanda á verðmæti félagsins miðað við nýjustu mögulegar upplýsingar um rekstur og framtíðarhorfur Norðlenska.
Á fundinum í Ljósvetningabúð var ítarlega rætt um mögulega breytingu á eignarhaldi á Norðlenska í ljósi framangreinds hluthafasamkomulags Hildings og Búsældar. Kom fram í máli þeirra bænda og félaga í Búsæld, sem til máls tóku, vilji til þess að Búsæld eignist meirihluta hlutafjár í Norðlenska og verði þannig ráðandi afl í félaginu. Nú er Hildingur stærsti hluthafi í Norðlenska með um 45% hlutafjár, en Búsæld kemur þar næst með tæplega 40% hlutafjár.

Sex umræðu- og kynningarfundir í þessari viku
Norðlenska og Búsæld boða til sex umræðu- og kynningarfunda með bændum í þessari viku. Í dag kl. 13 verður fundur á Hótel Kirkjubæjarklaustri, kl. 16.30 verður fundur í Barnaskólanum að Hofi í Öræfum og í kvöld kl. 20.30 er boðað til fundar í Mánagarði í Hornafirði. Á morgun, þriðjudaginn 20. febrúar, er boðað til fundar í Hótel Bláfelli á Breiðdalsvík og kl. 14 í Gistihúsinu á Egilsstöðum og síðasti fundurinn verður síðan á miðvikudagskvöldið, 21. febrúar, kl. 20.30 í Hótel Sveinbjarnargerði á Svalbarðsströnd.


Svæði

Norðlenska ehf

Grímseyjargötu
600 Akureyri

s. 469-4500

kt: 500599-2789

upplysingar@nordlenska.is

Póstlistinn

Skráðu þig á póstlistann hjá okkur og fáðu fréttir sendar á netfangið þitt.

Vörumerki Norðlenska

GoðiKEAHúsavíkur kjötBautabúrið

Goði á facebook