Fréttir

Ákall um vaxtalækkun!

Rekstraraðstæður íslensks atvinnulífs eru og hafa á undanförnum mánuðum verið með öllu óviðunandi.  Stjórnendur fyrirtækja í landinu hafa ítrekað sagt að atvinnulífinu sé að blæða út.  Það er engin skreytni.  Atvinnulífinu er að blæða út og það gerist hratt þessa dagana. Það þolir ekkert íslenskt fyrirtæki til lengdar vaxtastig eins og atvinnulífið hefur mátt búa við undanfarna mánuði. 

Við erum komin út á ystu nöf í þessum efnum og hvert fyrirtækið á fætur öðru er að fara fram af brúninni. Þetta er dauðans alvara.  Það verður að lækka vextina strax og það umtalsvert.  Annars er mikil hætta á enn meira hruni en hér er þegar orðið.

Þann 19.mars sl.  lækkaði Seðlabankinn stýrivextina um eitt prósentustig.  Það voru mikil vonbrigði.  Atvinnulífið og allur almenningur í landinu hafði vænst mun meiri lækkunar vaxta, enda sýna allar hagmælingar að verðbólgan hefur lækkað mjög skarpt að undanförnu og raunar mun hraðar en sérfræðingar höfðu búist við. 

Í næstu viku, 8. apríl, hefur verið gefið út að Seðlabankinn endurmeti stöðuna næst og það er ósk og krafa fyrirtækja og heimila að þá verði vextir lækkaðir verulega.  Annað er ekki í stöðunni, að mínu mati.

Þeir himinháu stýrivextir Seðlabankans leika allt atvinnulíf í landinu afar grátt. Þar eru framleiðslufyrirtækin í landinu ekki undanskilin.  Afurðastöðvar hafa orðið og verða harkalega fyrir barðinu á háu vaxtastigi því þær verða að taka afurðalán að hausti til þess að fjármagna sauðfjárbirgðir.  Ekki þarf að hafa mörg orð um hvað það kostar fyrirtækin þegar vaxtastigið er um tuttugu af hundraði.  Það reikningsdæmi gengur einfaldlega ekki upp.

Framleiðslufyrirtæki eins og afurðastöðvarnar gegna lykilhlutverki í endurreisn atvinnulífsins. Skapa bæði bændum og fjölda fólks við úrvinnsluna atvinnu. Það er sárgrætilegt hversu illa þessi fyrirtæki eru leikin af vaxtaokrinu.

Undanfarin ár, í öllu góðærinu, hafa framleiðslufyrirtækin í landinu ekki átt upp á pallborðið í bankakerfinu, sem meira og minna veðjaði á útrásina, með öllum þeim skelfilegu afleiðingum sem nú blasa við.  Nú virðast ráðamenn og almenningur í landinu vera smám saman að átta sig á því að grunnatvinnuvegirnir verði að draga vagninn í endurreisninni. Sem er jákvætt og gott mál. En það verður ekki gert að óbreyttu vaxtastigi. Það er grundvallaratriði að lækka vextina mjög duglega. Það þolir enga bið.

Sigmundur E. Ófeigsson,
framkvæmdastjóri Norðlenska


Svæði

Norðlenska ehf

Grímseyjargötu
600 Akureyri

s. 469-4500

kt: 500599-2789

upplysingar@nordlenska.is

Póstlistinn

Skráðu þig á póstlistann hjá okkur og fáðu fréttir sendar á netfangið þitt.

Vörumerki Norðlenska

GoðiKEAHúsavíkur kjötBautabúrið

Goði á facebook