Fréttir

Allar unnar Goða-kjötvörur án mjólkuróþolsvaldandi efna

Unnar Goða-kjötvörur Norðlenska, að lifrarpylsu undanskilinni, eru nú án allra mjólkuróþolsvaldandi efna. Markvisst hefur verið unnið að því allt síðasta ár að breyta uppskriftum í þessa átt og nú er svo komið að Norðlenska er einungis með á markaðnum Goða-kjötvörur án mjólkuróþolsvaldandi efna.

Sigurgeir Höskuldsson, vöruþróunarstjóri Norðlenska, segir að sá hópur neytenda fari stækkandi sem hefur óþol gegn ýmsum efnum í matvælum. „Við vinnum náið með okkar viðskiptavinum og leitumst við að svara óskum þeirra um aukin vörugæði.  Meðal annars höfum við fengið óskir frá skólamötuneytum um að þróa vörur okkar í þá átt að taka út mjólkuróþolsefni. Við höfum undanfarið ár farið mjög markvisst í þessa vinnu og niðurstaðan liggur nú fyrir.  Við höfum jafnframt lagt áherslu á að þessar breytingar á uppskriftum kæmu ekki niður á gæðum varanna og það tel ég að hafi tekist mjög vel og raunar tel ég að gæðin séu meiri en áður. Viðbrögð markaðarins hafa verið mjög jákvæð og þegar upp er staðið erum við hjá Norðlenska bæði ánægð og stolt af því að hafa stigið þetta skref," segir Sigurgeir.

Það kallast fæðuofnæmi þegar líkaminn hefur myndað mótefni gegn ákveðnum efnasamböndum í fæðunni, s.s. gegn mjólkurpróteinum. Viðbrögð líkamans verða þá oft þemba, ógleði eða niðurgangur, einkum hjá börnum.

Skólamatur ehf. í Reykjanesbæ, sem er stór viðskiptavinur Norðlenska, sérhæfir sig í framleiðslu máltíða fyrir grunn- og leikskóla. Síðastliðinn vetur framleiddi Skólamatur um 4.200 matarskammta á dag fyrir um tuttugu skóla á Suðurnesjum og höfuðborgarsvæðinu.
Fanný Axelsdóttir, framkvæmdastjóri, segir að það skref sem Norðlenska hafi nú tekið með því að taka öll mjólkuróþolsvaldandi efni úr unnum kjötvörum fyrirtækisins sé gríðarlega jákvætt. „Við höfum átt afar gott og náið samstarf við Norðlenska um þetta mál. Við höfum merkt að mjólkuróþol hjá börnum hefur aukist mjög mikið á undanförnum árum og því er það okkur mikið gleðiefni að framleiðslufyrirtæki eins og Norðlenska hafi tekið af skarið með að taka þessi óþolsefni úr vörum sínum og það tel ég að sé öðrum til eftirbreytni. Ég vil líka halda því tvímælalaust fram að gæði vara Norðlenska séu einfaldlega meiri eftir þessa breytingu en áður," segir Fanný Axelsdóttir.


Svæði

Norðlenska ehf

Grímseyjargötu
600 Akureyri

s. 469-4500

kt: 500599-2789

upplysingar@nordlenska.is

Póstlistinn

Skráðu þig á póstlistann hjá okkur og fáðu fréttir sendar á netfangið þitt.

Vörumerki Norðlenska

GoðiKEAHúsavíkur kjötBautabúrið

Goði á facebook