Fréttir

Áramótahugleiðing framkvæmdastjóra

Sigmundur E. Ófeigsson
Sigmundur E. Ófeigsson
Árið sem er að líða hefur verið afar viðburðarríkt hjá Norðlenska. Velta fyrirtækisins fór í fyrsta skipti yfir 4 milljarða króna, sem er rúmlega 10% veltuaukning milli ára og það er að okkar mati ákveðinn varnarsigur því markaðurinn er ekki auðveldur né heldur umhverfið neysluhvetjandi.

Mikil vinna fór í það á árinu hjá stjórn og stjórnendum að verja eign bænda í Norðlenska og jafnframt var farið í hagræðingar til að bæta reksturinn. Það gekk vel en þó er ljóst að halda þarf áfram á sömu braut því enn vantar upp á að afkoman sé viðunandi.

Eigið fé Norðlenska var upp urið eins og hjá mörgum öðrum fyrirtækjum landsins en mikill árangur náðist við endurskipulagningu fjárhags, m.a. með leiðréttingum á erlendum lánum, bæði hjá Landbanka og SP-Fjármögnun. Þetta, ásamt rekstrarbata, varð til þess að fyrirtækið var rekið með hagnaði og eigið fé þess verður aftur orðið jákvætt um áramót.

Sá árangur sem náðst hefur er í raun meiri en vænta mátti því rekstrarumhverfi fyrirtækja er erfitt. Þá eru ákvarðanir stjórnvalda ekki til þess fallnar að koma hjólum efnahagslífsins á snúning, í raun gera þær fyrirtækjum erfiðar fyrir en ella. Stjórnvöld virðast viljandi eða óviljandi leggja steina í götu lífvænlegra fyrirtækja og ekki horfa á heildarhagsmuni atvinnulífsins.

Að lokum þakka ég öflugum hópi starfsfólks, innleggjendum og viðskiptavinum ánægjuleg samskipti á árinu sem er að líða. Ég óska öllum starfsmönnum Norðlenska og fjölskyldum þeirra, sem og landsmönnum öllum, gleðilegs árs.

 

Sigmundur Einar Ófeigsson,

framkvæmdastjóri Norðlenska


Svæði

Norðlenska ehf

Grímseyjargötu
600 Akureyri

s. 469-4500

kt: 500599-2789

upplysingar@nordlenska.is

Póstlistinn

Skráðu þig á póstlistann hjá okkur og fáðu fréttir sendar á netfangið þitt.

Vörumerki Norðlenska

GoðiKEAHúsavíkur kjötBautabúrið

Goði á facebook