Fréttir

Áramótakveðja frá Norðlenska

Þegar líður að áramótum er gott að líta yfir farinn veg, staldra við og meta árangurinn. Rekstur Norðlenska er viðunandi  árið 2011. Segja má að samhent lið eigenda, starfsmanna og stjórnamanna hafi náð góðum árangri í rekstri fyrirtækisins við erfið skilyrði. Það er því með nokkurri bjartsýni sem menn fara inn í nýtt rekstrarár, með von um að nú hafi botninum verið náð og hlutirnir séu farnir að snúast til betri vegar.

 

 

Margir óvissuþættir hafa bein áhrif á rekstur fyrirtækja og litast ákvarðanir af því. Stjórnendur Norðlenska hafa samt sem áður sett sér það markmið að standa við bakið á starfsfólki fyrirtækisins, og að halda ótrauðir áfram þeirri stefnu að leggja áherslu á gæði framleiðslunnar. Norðlenska lítur á samfélagslega ábyrgð sína sem hluta af rekstrarmarkmiðum, enda stórt og öflugt fyrirtæki með margt gott fólk í vinnu.

 

Ljóst er að þessi stefna stjórnar og stjórnenda hefur skilað fyrirtækinu fram á veginn, því veltumesta ár þess frá upphafi er að líða. Auk þess er afkoman viðunandi og fyrirtækið er komið í gegnum þann ólgusjó sem kreppan hafði í för með sér.

 

Segja má að um 200 fjölskyldur hafi lífsviðurværi sitt af vinnu hjá Norðlenska, a.m.k. að hluta til. Um það bil 700 bændur, sem að stærstum hluta eru eigendur félagsins, leggja afurðir sínar inn hjá Norðlenska og fá í mörgum tilfellum stóran hluta árstekna sinna með þeim hætti. Að auki kaupir Norðlenska mikla þjónustu af verktökum og þjónustuaðilum svo hægt er að fullyrða að ríflega 1000 fjölskyldur hafi lífsviðurværi sitt að öllu leyti eða hluta vegna starfsemi Norðlenska.

 

Það er ljóst að starfsfólk okkar hefur unnið afbragðs vöru úr því gæða hráefni sem Norðlenska kaupir af bændum. Íslendingar kunna mjög vel að meta vörur fyrirtækisins því salan hefur stöðugt aukist sem hefur í för með sér aukin umsvif, batnandi afkomu og sterkara félag.

 

Norðlenska er eina afurðastöðin sem er alfarið í eigu bænda. Eigendur eru 536 bændur, eignarhald er verulega dreift þannig að hver og einn á ekki stóran hlut. Bændur hugsa um að rækta félag sem þeir eiga sjálfir og geta þannig haft áhrif á vinnslu afurða og fylgt eftir til verslana og neytenda.

 

Að lokum við ég þakka samhentu liði, eigendum félagsins, þ.e. bændum, öllum starfsmönnum  sem og stjórn, fyrir gott samstarf og góðan árangur. Einnig vil ég þakka viðskiptavinum okkar og neytendum fyrir að velja okkar vörur og veita okkur aðhald. Ég óska öllum góðs og farsæls komandi árs.

 

Sigmundur Einar Ófeigsson, framkvæmdastjóri Norðlenska.


Svæði

Norðlenska ehf

Grímseyjargötu
600 Akureyri

s. 469-4500

kt: 500599-2789

upplysingar@nordlenska.is

Póstlistinn

Skráðu þig á póstlistann hjá okkur og fáðu fréttir sendar á netfangið þitt.

Vörumerki Norðlenska

GoðiKEAHúsavíkur kjötBautabúrið

Goði á facebook