Fréttir

Frábærlega heppnuð Goðamót

Sigurvegarar eru jafnan myndaðir í bak og fyrir, ekki síður en á HM.
Sigurvegarar eru jafnan myndaðir í bak og fyrir, ekki síður en á HM.
Fjórða og síðasta Goðamót Þórs í knattspyrnu á þessu ári – og það 25. frá upphafi – var haldið í Boganum helgina fyrir páska. Sigurjón Magnússon mótsstjóri segir vel hafa tekist til sem endranær og þakkar Norðlenska sérstaklega fyrir frábært samstarf allar götur frá því mótin voru sett á laggirnar árið 2003.

„Strax og Boginn var í byggingu fórum við Þórsarar að huga að því og undirbúa að koma á laggirnar móti að vetri, bæði til þess að gefa okkar krökkum tækifæri til að keppa í heimahögum sem væri þar með ódýrara en ella fyrir foreldrana, og líka í því skyni að sjálfsögðu að afla tekna fyrir félagið. Allt frá upphafi vorum við ákveðnir í því að ef um hagnað yrði að ræða rynni hann að stórum hluta í barna- og unglingastarf knattspyrnudeildar og það hefur staðist,“ segir Sigurjón.

„Í upphafi leituðum við að styrktaraðilum og þá sérstaklega „aðalstyrktaraðila“ fyrir mótið, sem var í raun ekki auðvelt, eins og margir halda kannski. En Gunni Nella, þáverandi sölustjóri á Norðurlandi, sá eitthvað við hugmyndina, fyrirtækið sló til í nafni Goða og mér skilst að forráðamenn Norðlenska sjái ekki eftir því! Goðamótin eru sennilega besta auglýsingin þeirra í dag.“

Fyrsta Goðamótið fór fram 2003 og það ár voru þau raunar tvö, eitt fyrir 5. flokk karla og annað fyrir 6. flokk karla.  Árið eftir bættist við mót fyrir 4. og 5. flokk kvenna og fyrir tveimur árum fjölguðum við mótunum í fjögur;  stelpnamótin urðu tvö, annað fyrir 4. flokk og hitt fyrir 5. flokk.

„Okkur þóttu það merk tímamót þegar 25. Goðamótið fór fram, síðasta mót ársins. Ég verð að viðurkenna að við, sem höfum staðið að mótahaldinu frá upphafi, vorum nokkuð stolt þegar þeim áfanga var náð,“ segir Sigurjón Magnússon. „Af því tilefni vil ég sem mótstjóri og Þórsari ítreka að Norðlenska hefur allt frá upphafi staðið þétt við bakið á okkur Þórsurum í þessu mótahaldi og verið okkur ómetanlegt í öllu. Við skulum ekki gleyma því að það eru ekki öll fyrirtæki í bænum sem líta á það sem samfélagslega skyldu sína að styðja við bakið á frjálsum félagasamtökum eins og Þór. Það gerir hins vegar Norðlenska svo eftir er tekið. Takk kærlega fyrir það! “

Á þessu ári tóku rúmlega 1.700 krakkar þátt í Goðamóti og auk þeirra komu á mótin rúmlega 300 hundruð þjálfarar og fararstjórar.  „Sem sagt, rúmlega 2000 þátttakendur. Geri aðrir betur,“ segir Sigurjón. Hann segir ennfremur: „Miðað við þann fjölda foreldra sem við vitum um að kemur með krökkunum á mótin áætlum við að tekur fyrirtækja í bænum af þessu ferðafólki geti numið tugum milljóna króna á ári. Þá erum við að tala um gistingu, mat og aðra þjónustu.

Á hverju Goðamóti starfa rúmlega 100 sjálfboðaliðar og vinna samtals um 1100 klukkustundir.  „Þar er ómetanleg vinna foreldra, sem standa margar vaktir í matsal og við ýmis önnur störf. Þá er unglingaráð knattspyrnudeildar að leggja á sig mikla vinnu sem og drengir í meistaraflokki og 2. flokki sem sjá um nánast alla dómgæslu. Það er ekki svo lítið verk.“ 


Svæði

Norðlenska ehf

Grímseyjargötu
600 Akureyri

s. 469-4500

kt: 500599-2789

upplysingar@nordlenska.is

Póstlistinn

Skráðu þig á póstlistann hjá okkur og fáðu fréttir sendar á netfangið þitt.

Vörumerki Norðlenska

GoðiKEAHúsavíkur kjötBautabúrið

Goði á facebook