Fréttir

Berjakryddað læri og humar

Sigmundur E. Ófeigsson í eldhúsinu heima.
Sigmundur E. Ófeigsson í eldhúsinu heima.
Við erum með lambalæri á aðfangadagskvöld. Það er gömul hefð hjá okkur sem við breytum ekki út af enda er íslenska lambakjötið í uppáhaldi hjá fjölskyldunni eins og reyndar flestum landsmönnum. Í ár ætlum við að hafa berjakryddað læri,“ sagði Sigmundur E. Ófeigsson framkvæmdastjóri Norðlenska í viðtali við Morgunblaðið á föstudaginn.

„Ég hef gaman af eldamennsku og því hefur verkaskiptingin á heimilinu orðið sú að ég sé að mestu um matseldina. Fyrst elda ég lærið við háan hita í um 15 mínútur svo kjötið loki sér vel. Síðan er lærið látið malla í ofninum við tiltölulega lágan hita í einn og hálfan tíma. Nauðsynlegt er að hella soði yfir lærið af og til, þannig er komið í veg fyrir að það þorni,“ segir Sigmundur í Morgunblaðinu.

„Með þessu eru hafðar brúnaðar kartöflur, rauðkál og annað gott grænmeti,“ segir Sigmundur. „Svo má náttúrulega ekki gleyma laufabrauðinu, það er ómissandi. Sósan er svo punkturinn yfir i-ið. Þar fæ ég aðstoð konunnar sem nostrar við sósugerðina. Við hjálpumst að við að leggja á borð og á hátíðarstundum er vandað sérstaklega til verksins, spari-borðbúnaðurinn er tekinn fram og tauservíettur notaðar. Á eftir er svo heimatilbúinn ís. Seinna um kvöldið er pakkar hafa verið opnaðir erum við svo með heitt súkkulaði með rjóma. Við erum almennt ekki með forrétt á aðfangadegi, okkur þykir lambakjötið svo gott og teljum forrétt óþarfan, auk þess sem oft gætir óþolinmæði hjá drengnum sem vill hespa borðhaldið af og skoða í pakkana.“

Humar á gamlárskvöld

Sigmundur segir að hjá sér og sínum komi ekki annað til greina en vera með humar á borðum.

„Við höfum alla okkar búskapartíð grillað humar á gamlárskvöld, sama hvernig viðrar. Humarinn fáum við frá Hornafirði. Humarinn klippum við í tvennt og höfum helst í skelinni. Við búum til hvítlaukssmjör og penslum humarinn. Þetta er allt saman hægt að gera með góðum fyrirvara. Síðan tekur ekki nema fimm mínútur að grilla. Með þessu er svo jógúrtsósa og ristað brauð. Þetta er léttur og góður matur. Flestir fá sér ábót þegar Áramótaskaupið er afstaðið í sjónvarpinu og jafnvel fá sumir sér aftur á diskinn þegar búið er að skjóta upp nokkrum flugeldum.“

Sigmundur segist eðlilega fylgjast með veðurspánni nokkrum dögum fyrir gamlársdag. Auðvitað sé skemmtilegra að grilla í þokkalegu veðri.

„Það eru nú ekki margir í hverfinu sem grilla á þessum tíma, en þetta er hefð sem ég vil ekki rjúfa. Ég hef grillað í stórhríð, þá er bara að klæða sig vel.“

Í Morgunblaðinu á föstudaginn eru birtar uppskriftir sem Sigmundur gefur af jólamatnum.


Svæði

Norðlenska ehf

Grímseyjargötu
600 Akureyri

s. 469-4500

kt: 500599-2789

upplysingar@nordlenska.is

Póstlistinn

Skráðu þig á póstlistann hjá okkur og fáðu fréttir sendar á netfangið þitt.

Vörumerki Norðlenska

GoðiKEAHúsavíkur kjötBautabúrið

Goði á facebook