Fréttir

Kjötbollu- og saltkjötsvertíð

Eins og lög gera ráð fyrir setja landsmenn ofan í sig gríðarlegt magn af bollum á bolludaginn. En annars konar bolludagshefð hefur smám saman verið að skapast á undanförnum árum, nefnilega að borða kjötbollur á bolludaginn.

 

Eggert H. Sigmundsson, vinnslustjóri Norðlenska á Akureyri, segir að sala á kjötfarsi sé alltaf miklu meiri á bolludaginn en aðra mánudaga - líklega þre- eða jafnvel fjórföld sala venjulegs mánudags. Eggert segir að þessi hefð sé ekki bara bundin við Akureyri - hún hafi einnig fest rætur í höfuðborgarsvæðinu. "Við vorum vel undirbúin fyrir þessa auknu sölu í dag með aukinni framleiðslu af okkar þremur farstegundum; saltfarsi, kjötfarsi og sælkerafarsi," segir Eggert.

Og auðvitað hefur verið framleitt mikið af saltkjöti á undanförnum dögum til þess að mæta stærsta saltkjötsneysludegi ársins, sprengideginum á morgun. "Það fóru heilu bílfarmarnir af saltkjöti frá okkur í síðustu viku," sagði Sigmundur Hreiðarsson, vinnslustjóri Norðlenska á Húsavík. "Ég hygg að saltkjöt í pakkningum hafi verið að seljast alla síðustu viku og um helgina, en saltkjölt selst langmest í dag úr kjötborðunum," sagði Sigmundur og bætti við að svo virtist sem þessi rótgróna og skemmtilega hefð að borða saltkjöt á sprengidaginn lifi góðu lífi. "Sem betur fer vill fólk halda í góðar hefðir," segir Sigmundur og lét þess getið að strax fyrir jól hafi Norðlenska byrjað að undirbúa sprengidaginn, "en við byrjuðum síðan að salta á milli jóla og nýárs."

Í bók sinni Sögu daganna segir Árni Björnsson að sprengidagur tengist kjötkveðjuhátíð í katólskum sið, þ.e. að gera vel við sig í mat áður en fastan hefst. Nöfnin sprengikvöld eða sprengir eru einnig þekkt í þessu sambandi. Í bók sinni segir Árni m.a.: "Nafnið sprengikvöld bendir eindregið til þess, að þá hafi menn reynt að ryðja í sig eins miklu og þeir gátu torgað af keti floti og öðru lostæti, sem forboðið var á föstunni. Mun þá margur hafa hesthúsað meira en hann hafði gott af eða étið sig í spreng. Eru af því ýmsar skrítar sögur. Sagan segir einnig, að leifarnar væru settar í poka og hengdar upp í baðstofumæni yfir rúmi hvers og eins.  Þarna angaði freistingin fyrir augunum alla föstuna, en ekki mátti á snerta fyrr en aðfaranótt páskadags. Sumir segja, að öllum leifum hafi verið safnað í einn belg, sem var hengdur upp í baðstofuna."


Svæði

Norðlenska ehf

Grímseyjargötu
600 Akureyri

s. 469-4500

kt: 500599-2789

upplysingar@nordlenska.is

Póstlistinn

Skráðu þig á póstlistann hjá okkur og fáðu fréttir sendar á netfangið þitt.

Vörumerki Norðlenska

GoðiKEAHúsavíkur kjötBautabúrið

Goði á facebook