Fréttir

Brýnt að stjórnvöld móti framtíðarsýn

Sigmundur Ófeigsson
Sigmundur Ófeigsson

Sigmundur Ófeigsson, framkvæmdastjóri Norðlenska, segir bændur leggja sitt af mörkum til endurreisnar Íslands. Verð á landbúnaðarafurðum, sérstaklega kjöti, hafi lítið hækkað en takmörk séu fyrir því hve langt sé hægt að ganga. Hann segir brýnt að stjórnvöld móti framtíðarsýn – en alls ekki með inngöngu í Evrópusambandið.

- - - - - -

Íslendingar hafa nú kvatt eitt einkennilegasta ár sögunnar. Við höfum horft upp á efnahagslífið hrynja, sparnaður og eignir margra eru að engu orðnar, skuldir flestra Íslendinga hafa tvöfaldast og stór hluti þjóðarinnar er í kröppum dansi. 

Því miður virðist sem örfáir, djarfir fjárfestar hafi, á ótrúlega skömmum tíma, sólundað langtíma sparnaði Íslendinga á meðan stjórnvöld sváfu á verðinum og stóðu á engan hátt undir þeirri ábyrgð að gæta hagsmuna almennings. 

Vandi okkar er að vísu ekki bara heimatilbúinn, það er kreppa og harðindi á alheimsvísu en engu að síður tefldu menn allt of djarft hér á landi og sóuðu ekki bara eigin fjármunum heldur tóku yfir flest stærri fyrirtæki landsins og sparnað landsmanna til langs tíma. Allt var tekið, engu eirt. 

Nú, í endurreisninni, er lítið um efndir stjórnamálamanna enn sem komið er. „Skjaldborg um heimilin“ eru innantóm orð. Gegnsæið, sem mikið var talað um að yrði mikilvægt, virðist orðið að einum stórum feluleik. Stefnumörkun stjórnvalda við endurreisnina er greinilega enn ekki til og aðgerðir þeirra virðast krampakenndar og lítt til þess fallnar að hjálpa almenningi eða grunnatvinnulífi Íslands. 

Landbúnaður og úrvinnslugreinar hafa ekki verið undanskildar þessum hremmingum. Á uppgangs- og einkavæðingaárunum var landbúnaður og matvælaiðnaður ekki hátt metinn og oft heyrðist það sjónarmið að við Íslendingar ættum bara að flytja inn okkar matvæli. Á þessum tíma var innlend framleiðsla að keppa við innflutt matvæli, stórlega niðurgreidd með rangt skráðri krónu. Lítill skilningur var á nauðsyn þess að þjóðin framleiddi eigin matvæli að einhverju leyti. Allir áttu að vinna við tölvu, í töflureiknum og við það að höndla með hlutabréf. Ekki var nokkur skilningur á því að það þyrfti yfirleitt að framleiða nokkuð. 

Bændur hafa búið við mikla tekjuskerðingu; öll aðföng hafa hækkað í verði og annar tilkostnaður við framleiðslu aukist en þrátt fyrir það hefur óveruleg hækkun orðið á verði landbúnaðarafurða. Sérstaklega hefur verð á kjöti til neytenda lítið hækkað. Því er ljóst að bændur standa með Íslendingum, vilja leggja sitt af mörkum til endurreisnarinnar, en takmörk eru fyrir því hve langt er hægt að ganga, því um leið minnkar kaupmáttur fólks og íbúum landsins fækkar. Það er því að verða brýnt að stjórnvöld móti framtíðarsýn – alls ekki með inngöngu í Evrópusambandið að mínu mati – og komi í gang einhverri framkvæmdaáætlun svo atvinnugreinar geti skilgreint sitt ytra umhverfi og hagað stefnumótun og uppbyggingu í samræmi við þá framtíðarsýn. 

Með áramótakveðju, 

Sigmundur Ófeigsson, framkvæmdastjóri Norðlenska


Svæði

Norðlenska ehf

Grímseyjargötu
600 Akureyri

s. 469-4500

kt: 500599-2789

upplysingar@nordlenska.is

Póstlistinn

Skráðu þig á póstlistann hjá okkur og fáðu fréttir sendar á netfangið þitt.

Vörumerki Norðlenska

GoðiKEAHúsavíkur kjötBautabúrið

Goði á facebook