Fréttir

Búið að slátra rösklega 30 þús. dilkum á Húsavík

Sláturtíð er í fullum gangi hjá Norðlenska á Húsavík og er þegar búið að slátra rösklega 30 þúsund dilkum. Kjötgæði eru mikil - meiri en áður - og verkunargallar í lágmarki. Sláturtíðin er þessa dagana að komast í fullan gang á Höfn eftir rólega byrjun.

"Við byrjuðum að slátra af krafti hér 1. september og síðan höfum við verið í ágætis afköstum. Ég reikna með að fyrripart næstu viku höfum við lokið við fyrri umferð dilkaslátrunarinnar hjá okkur. Þetta hefur almennt gengið prýðilega. Veðrið hefur verið hagstætt það sem af er og flutningar á fénu því gengið vel. Verkunin hefur einnig verið til mikillar fyrirmyndar. Verkunargallar hafa verið með minnsta móti, einn daginn voru þeir ekki nema 0,46%, sem er afburða gott. Við getum því ekki verið annað en vel sátt með sláturtíðina það sem af er. Við erum með afburða gott fólk í lykilstöðum í slátruninni og því gengur þetta vel og örugglega fyrir sig. Við höfum verið að slátra á bilinu 1950-2000 dilkum á dag," segir Sigmundur Hreiðarsson, vinnslustjóri á Húsavík, og nefnir að núna í sláturtíðinni geti fyrirtækið bætt við sig fólki til starfa í kjötvinnslunni.

Sumarið hefur verið hagstætt og það skilar sér í þungum dilkum. Sigmundur segir að þann 17. september sl., þegar búið var að slátra 23 þúsund dilkum, hafi meðalvigtin verið 15,89 kg, sem er mjög gott. Og suma dagana hefur meðalvigtin verið vel yfir þessu. Þannig var 16,57 kg meðalvigt dilka sem var lógað 17. september.

Slátursala hófst í Húsavík í dag og hún mun hefjast síðari hluta vikunnar í Hrísalundi á Akureyri. Sigmundur segir að á undanförnum árum hafi verið samdráttur í slátursölu, en ekki sé gott að vita hvað gerist núna. Oft fari saman að slátursala aukist þegar þrengist að í þjóðfélaginu. Slátur er ódýr og hollur matur, Sigmundur segir að eitt slátur kosti 883 krónur í slátursölunni á Húsavík.
Sigmundur lætur þess getið að ljómandi góð sala hafi verið á fersku lambakjöti í sláturtíðinni, en Norðlenska selur m.a. í verslunum Nóatúns, Krónunnar og Samkaupa.

Sláturtíðin á Höfn hefur ekki farið eins vel af stað og vonir stóðu til, að sögn Einars Karlssonar, sláturhússtjóra. "Það hefur því miður lítið gengið að fá dilka til slátrunar frá því að við byrjuðum að slátra í síðustu viku, en þetta stendur til bóta. Ég reikna með að á morgun, miðvikudag, náum við eðlilegum afköstum í slátruninni," segir Einar. "Það sem hefur fyrst og fremst gert okkur erfitt fyrir er mikið vatnsveður hér að undanförnu, það hefur satt best að segja verið þrautleiðinlegt veður hér í marga daga. Bændur hafa því átt í erfiðleikum með að ná dilkunum saman til slátrunar. Einnig kemur til að grösin eru hér ennþá mjög græn, enda óvenjulega hlýtt í veðri. Allt hefur þetta orðið til þess að erfiðlega hefur gengið að fá dilka til slátrunar. En mér sýnist að við séum að horfa fram á betri tíma í því," segir Einar.


Svæði

Norðlenska ehf

Grímseyjargötu
600 Akureyri

s. 469-4500

kt: 500599-2789

upplysingar@nordlenska.is

Póstlistinn

Skráðu þig á póstlistann hjá okkur og fáðu fréttir sendar á netfangið þitt.

Vörumerki Norðlenska

GoðiKEAHúsavíkur kjötBautabúrið

Goði á facebook