Fréttir

Búsæld kaupir öll hlutabréf í Norðlenska

Skrifað hefur verið undir samning um að Búsæld ehf. - félag kjötframleiðenda í Eyjafirði, Þingeyjarsýslum og á Austur- og Suðausturlandi kaupi 45,45% hlut KEA svf. í kjötvinnslufyrirtækinu Norðlenska. Fyrir átti Búsæld rétt tæp 40% í félaginu. Búsæld kaupir hlut KEA í Norðlenska á genginu 1,705 og greiðir 426 milljónir króna fyrir hann. 

 

 

Þá hefur verið skrifað undir samninga um kaup Búsældar á samtals um 7,81% hlut Norðurþings og Akureyrarbæjar í Norðlenska á genginu 1,705. Einnig kaupir Búsæld  7,27% hlut Eignarhaldsfélagsins Samvinnutrygginga í félaginu á sama gengi. Skrifað var undir samninginn við Akureyrarbæ með fyrirvara um samþykki bæjarráðs. Eftir kaup Búsældar á hlut KEA, Akureyrarbæjar, Norðurþings og Eignarhaldsfélagsins Samvinnutrygginga í Norðlenska, sem samtals eru að upphæð um 568 milljónir króna, er Norðlenska í eigu Búsældar.

Kaup Búsældar á hlutabréfum KEA í Norðlenska eru samkvæmt hluthafasamkomulagi sem KEA og Búsæld gerðu árið 2004 og kvað á um að Búsæld hefði rétt á kaupum á öllum hlutabréfum KEA í Norðlenska fyrir árslok 2007. 

Landsbankinn, viðskiptabanki Búsældar, fjármagnar kaup félagsins á hlutabréfum í Norðlenska. Þá hefur verið gengið frá samningi við fasteignafélagið Miðpunkt á Akureyri, sem er í eigu Eiðs og Hreins Gunnlaugssona,  um kaup þess á öllum fasteignum Norðlenska við Grímseyjargötu á Akureyri og yfirtöku á lóðarleigusamningi. Aðkoma Miðpunkts að málinu með kaupum á fasteignunum á Akureyri skiptir sköpum fyrir Búsæld í kaupum á öllum hlutabréfum í Norðlenska og að framleiðendur eignist þannig félagið að fullu.

Eftir sem áður verður Norðlenska með starfsemi sína - stórgripasláturhús og kjötvinnslu - í núverandi húsakynnum, en mun eftir þessa sölu leigja þau samkvæmt bindandi tólf ára leigusamningi. Norðlenska mun áfram eiga og reka núverandi fasteignir félagsins á Húsavík, þar sem er sauðfjársláturhús og langstærsta sérhæfða vinnslustöð landsins fyrir kindakjöt.  

Í Búsæld eru nú um 530 kjötframleiðendur af Norðurlandi, Austurlandi og Suðausturlandi. Í gegnum félagið hafa tengsl kjötframleiðenda við Norðlenska verið sterk og munu styrkjast enn frekar nú þegar Búsæld á fyrirtækið.

Norðlenska er eitt af stærstu fyrirtækjum á Norðausturlandi. Velta félagsins í ár verður rúmlega þrír milljarðar króna. Hjá félaginu eru um 180 ársverk, þar af um 170 ársverk á Akureyri og Húsavík, 8 á Höfn í Hornafirði og 6 í Reykjavík.

Upphaflegt markmið með stofnun Búsældar var að félagið eignaðist Norðlenska. Búsæld fagnar því að því markmiði hafi verið náð. Félagið vill á þessum tímamótum þakka KEA, Akureyrarbæ, Norðurþingi og Eignarhaldsfélaginu Samvinnutryggingum fyrir samstarfið á undanförnum árum.

Fréttatilkynning frá Búsæld - miðvikudaginn 19. desember 2007


Svæði

Norðlenska ehf

Grímseyjargötu
600 Akureyri

s. 469-4500

kt: 500599-2789

upplysingar@nordlenska.is

Póstlistinn

Skráðu þig á póstlistann hjá okkur og fáðu fréttir sendar á netfangið þitt.

Vörumerki Norðlenska

GoðiKEAHúsavíkur kjötBautabúrið

Goði á facebook