Fréttir

Bygging jarðgerðarstöðvar fyrir Eyjafjarðarsvæðið í augsýn

Síðastliðinn fimmtudag var stofnað hlutafélagið Molta ehf. til undirbúnings byggingar jarðgerðarstöðvar á Eyjafjarðarsvæðinu. Öll sveitarfélög á svæðinu standa að verkefninu, sem og allir stærstu matvælaframleiðendur á svæðinu og fleiri aðilar. Með verkefninu er stigið stórt skref í þá átt að hætta urðun sorps á Glerárdal ofan Akureyrar og koma sorpmálum Eyjafjarðarsvæðisins í heild í nýjan framtíðarfarveg.

Verkefnið á rætur að rekja til starfs matvælaframleiðenda innan Vaxtarsamnings Eyjafjarðar og í framhaldi af því tók Norðlenska frumkvæði í forathugunum á möguleikum á byggingu jarðgerðarstöðvar. Hugmyndir þar um voru síðan kynntar sveitarfélögum og fyrirtækjum undir lok síðasta árs og síðan þá hefur vinnuhópur farið yfir ýmsa þætti sem að málinu snúa, m.a. kostnaðarútreikninga. Sú vinna leiddi af sér ákvörðun um stofnun undirbúningsfélagsins Moltu sl. fimmtudag sem væntanlega verður breytt í rekstrarfélag jarðgerðarstöðvarinnar þegar lengra líður á verkefnið.

Raunhæft þykir að miða við að nýja jarðgerðarstöðin geti tekið til starfa vorið 2008, jafnvel fyrr, og er reiknað með að strax í byrjun verði unnið úr 10.000 tonnum af lífrænum úrgangi á ári. Lífrænn úrgangur svarar til um 60% af þeim úrgangi sem nú fer í urðun af svæðinu þannig að segja má að á síðari árum hafi ekki verið stigin öllu stærri skref í umhverfismálum svæðisins. Kostnaður við verkefnið í heild, þ.e. vélbúnað og hús, er áætlaður um 350 milljónir króna.

Á Eyjafjarðarsvæðinu falla til um 21000 tonn af lífrænum úrgangi árlega og koma 15000 tonn frá fyrirtækjum og um 6000 frá heimilum. Til lífræns úrgangs telst lífrænt sorp frá matvælaframleiðendum, kolefnisríkt sorp s.s. pappír, pappi, garðaúrgangur, timburúrgangur og “þéttbýlishrossatað”.

Hlutafé undirbúningsfélagsins Moltu ehf. nú í byrjun er 5,5 milljónir króna. Akureyrarbær og Sorpeyðing Eyjafjarðar lögðu fram eina milljón hvor aðili en Sorpeyðingin kemur að verkefninu fyrir hönd allra sveitarfélaganna á svæðinu. Þessu til viðbótar lögðu sjö fyrirtæki fram hlutafé, 500 þúsund hvert. Þau eru Norðlenska, Samherji, Brim, Kjarnafæði, B.Jensen, Gámaþjónustan ehf. og Sagaplast ehf.. Formaður fyrstu stjórnar Moltu ehf. er Hermann Jón Tómasson, formaður bæjarráðs Akureyrar og stjórnar Sorpeyðingar Eyjafjarðar en auk hans sitja Sigmundur Ófeigsson frá Norðlenska og Elías Ólafsson frá Gámaþjónustunni í stjórn.
Næstu verkefni félagsins verða að velja jarðgerðarstöðinni stað á svæðinu og semja við framleiðendur búnaðar. Hvað staðsetningu varðar er um að ræða iðnaðarlóð en öll meðferð úrgangsins fer fram innan dyra. Æskilegt er að stöðin verði þannig staðsett að stutt verði á svæði þar sem hægt er að nýta moltuna til uppgræðslu á landi.

Sigmundur Ófeigsson, framkvæmdastjóri Norðlenska, hefur unnið að verkefninu um margra mánaða skeið og tekur í sama streng fyrir hönd matvælaframleiðenda á svæðinu. “Í mínum huga er skýrt að brennsla á lífrænum úrgangi með tilheyrandi brennslu á olíu er ekki nútímalausn. Við eigum að skila náttúrunni aftur því sem frá henni var tekið. Við viljum líka bregðast við með lausn í þessum málum áður við verðum neyddir til að gera eitthvað með tilheyrandi enn meiri kostnaði,” segir Sigmundur og fagnar samstöðunni milli sveitarfélaganna og fyrirtækja um verkefnið.
“Samstaðan gefur verkefninu stóra gildið, að mínu mati. Við þurfum að fá alla með til að tryggja pappír, pappa og timburúrgang inn í jarðgerðina því það þarf eðlilega blöndu af þessu öllu. Náist það takmark okkar fljótt að fá 90% af öllum lífrænum úrgangi til Moltu verður lítið mál að kljást við þann úrgang sem eftir stendur. Þar með yrði búið að leysa sorpeyðingarmál Eyjafjarðarsvæðisins til fullnustu. Út frá þessu má glögglega sjá hversu stórt það skref er sem við erum að stíga með stofnun Moltu,” segir Sigmundur Ófeigsson, framkvæmdastjóri Norðlenska og stjórnarmaður í Moltu ehf.

Hermann Jón Tómasson, stjórnarformaður Moltu, segist gera sér vonir um að stöðin komist í gagnið fyrir vorið 2008 ef samningar um búnað og lóð ganga vel. “Við erum sannarlega að stíga hér jákvætt skref fyrir svæðið í þá átt að leysa úrgangsvandann,” segir hann.

Guðmundur Sigvaldason, sveitarstjóri Hörgárbyggðar og fyrrum starfsmaður Sorpeyðingar Eyjafjarðar, segir þessa ákvörðun marka þáttaskil í löngu ferli. “Stofnun jarðgerðarstöðvarinnar er sérstakt gleðiefni fyrir Eyfirðinga og svæðið í heild. Við erum að tala um farveg fyrir allt að 60% af úrgangi svæðisins og loksins er verið að færa þessi málefni á nýtt plan. Við vitum að kostnaður fyrir bæði fyrirtæki og sveitarfélög vegna sorpeyðingar mun aukast á komandi árum en tvímælalaust erum við að draga töluvert úr þeim fyrirsjáanlega viðbótarkostnaði með þessari aðgerð. Mér finnst líka mjög jákvætt að sjá öll sveitarfélögin, sem og alla stærstu matvælaframleiðendurna taka höndum saman í verkefninu. Það er sérstakt gleðiefni og við getum gert okkur góðar vonir um að nú séu að hefjast nýir tímar í þessum málaflokki á svæðinu,” segir Guðmundur.


Svæði

Norðlenska ehf

Grímseyjargötu
600 Akureyri

s. 469-4500

kt: 500599-2789

upplysingar@nordlenska.is

Póstlistinn

Skráðu þig á póstlistann hjá okkur og fáðu fréttir sendar á netfangið þitt.

Vörumerki Norðlenska

GoðiKEAHúsavíkur kjötBautabúrið

Goði á facebook