Fréttir

EBITDA hagnaður Norðlenska 228 milljónir króna á árinu 2005

- mikill viðsnúningur í rekstri milli ára – gert ráð fyrir áframhaldandi afkomubata og auknum vexti.

Rekstrarhagnaður Norðlenska matborðsins ehf. fyrir afskriftir, vexti og skatta (EBITDA) á árinu 2005 nam röskum 228 milljónum króna, sem er tæplega 87 milljóna króna afkomubati frá árinu 2004. Þetta kom fram á aðalfundi Norðlenska á Akureyri þann 4. maí síðastliðinn.

 

Rekstrarhagnaður Norðlenska matborðsins ehf. fyrir afskriftir, vexti og skatta (EBITDA) á árinu 2005 nam röskum 228 milljónum króna, sem er tæplega 87 milljóna króna afkomubati frá árinu 2004. Þetta kom fram á aðalfundi Norðlenska á Akureyri þann 4. maí síðastliðinn.

Rekstrarhagnaður ársins 2005 nam 14,5 milljónum króna að teknu tilliti til afskrifta og fjármagnsgjalda en tap var upp á 52 milljónir króna árið 2004, sem er því um 70 milljóna króna rekstrarbati milli ára

Síðustu fimm ár hefur afkoma Norðlenska jafnt og þétt verið að batna og gert er ráð fyrir að á yfirstandandi ári haldi rekstrarbatinn áfram og efnahagur fyrirtækisins styrkist enn frekar.

Heildarvelta Norðlenska á síðasta ári var um 2.600 milljónir króna, samanborið við 2.400 milljónir króna árið 2004. Veltufé frá rekstri nam 127 milljónum króna og jókst um 37 milljónir frá fyrra ári. Eigið fé fyrirtækisins í árslok var 349 milljónir króna og eiginfjárhlutfall 16,3%.

Heildarhlutafé í Norðlenska er 550 milljónir króna. Hluthafar í félaginu eru: KEA með 250 milljóna króna hlutafé (45,45%), Búsæld – framleiðendafélag, en að því eiga aðild um 530 innleggjendur á starfssvæði Norðlenska, 217 milljónir (39,4%), Samvinnutryggingar 40 milljónir (7,27%), Akureyrarbær 30 milljónir (5,45%) og Húsavíkurbær 13 milljónir (2,36%).

Norðlenska er stærsti sláturleyfishafi landsins og er með mesta umsetningu sláturleyfishafa í dilkakjöti og næstmesta í bæði svína- og nautakjöti. Heildarmagn kjöts úr slátrun Norðlenska árið 2005 var 3.850 tonn. Fyrirtækið vinnur úr öllu því kjöti sem til fellur við slátrun og selur sem fullunna vöru. Á Húsavík, Akureyri og Höfn í Hornafirði rekur fyrirtækið sláturhús. Norðlenska rekur tvær af fullkomnustu kjötvinnslum landsins á Húsavík og Akureyri.

Norðlenska hefur nú tekið sláturhúsið í Búðardal á leigu til næstu tíu ára og verður þar sauðfjárslátrun í haust á vegum Norðlenska. Síðastliðið haust var tæplega 16 þúsund dilkum slátrað í Búðardal, en Norðlenska stefnir að því að auka slátrunina þar verulega.

Sigmundur E. Ófeigsson, framkvæmdastjóri Norðlenska, segir rekstur félagsins á liðnu ári í samræmi við áætlanir og viðsnúningur í rekstri félagsins síðustu fimm ár sé gríðarlegur. “Vöxtur félagsins undanfarin misseri er meiri en við gerðum ráð fyrir. Nú er svo komið að Norðlenska er stærsti sláturleyfishafi landsins í hefðbundnum kjötgreinum. Við munum hefja slátrun í Búðardal í haust, sem þýðir enn frekari umsetningu. Við höfum fengið mjög góð viðbrögð bænda í Dalabyggð og því erum við bjartsýnir á að þeir muni taka þátt í því með okkur að auka slátrun verulega í Búðardal frá því sem verið hefur.” 

Sigmundur segir að í áætlunum fyrir árið 2006 sé gert ráð fyrir heldur betri rekstrarniðurstöðu en á liðnu ári. Hins vegar séu blikur á lofti í efnahagsmálum sem kunni að draga úr kaupmætti neytenda á þessu ári.

Á þessu ári mun Norðlenska ráðast í byggingu nýs starfsmanna- og skrifstofuhúss á Akureyri. Í kjölfarið verður unnt að bæta rými kjötvinnslu fyrirtækisins á Akureyri.

Hjá Norðlenska störfuðu að jafnaði um 180 starfsmenn á árinu 2005.

“Fyrirtækið hefur gengið í gegnum miklar breytingar á umliðnum árum og það hefur reynt verulega á starfsfólk. Það hefur komið vel í ljós hversu frábæru starfsfólki fyrirtækið býr yfir, það hefur lagt sig fram og sýnt hversu annt því er um hag fyrirtækisins. Fyrir það ber að þakka. Það er líka full ástæða til þess að þakka bændum alveg sérstaklega fyrir hversu þétt þeir hafa staðið með fyrirtækinu og komið með gripi í auknum mæli til slátrunar hjá okkur. Öðruvísi væri Norðlenska ekki komið í þá stöðu að vera stærsti sláturleyfishafi landsins. Þá er þess að geta að vörur okkar undir merkjum Goða eru mjög vinsælar hjá neytendum, enda eru þær á boðstólum í öllum helstu matvöruverslunum landsins,” segir Sigmundur. 

Á aðalfundi Norðlenska í síðustu viku voru eftirtaldir kjörnir aðalmenn í stjórn félagsins: Halldór Jóhannsson, framkvæmdastjóri KEA Akureyri, Björn Friðþjófsson, varaformaður stjórnar KEA Dalvík, Benedikt Sigurðarson, stjórnarmaður KEA Akureyri, Aðalsteinn Jónsson, bóndi Klausturseli og Ingvi Stefánsson, bóndi Teigi. Varamenn voru kjörnir: Ágúst Þorbjörnsson, rekstrarráðgjafi Reykjavík, og Geir Árdal, bóndi Dæli.


Svæði

Norðlenska ehf

Grímseyjargötu
600 Akureyri

s. 469-4500

kt: 500599-2789

upplysingar@nordlenska.is

Póstlistinn

Skráðu þig á póstlistann hjá okkur og fáðu fréttir sendar á netfangið þitt.

Vörumerki Norðlenska

GoðiKEAHúsavíkur kjötBautabúrið

Goði á facebook