Fréttir

Elmar Sveinsson Kjötmeistari Íslands 2012

Elmar Sveinsson, til vinstri, og Guðráður G. Sigurðsson sem afhenti verðlaunin.
Elmar Sveinsson, til vinstri, og Guðráður G. Sigurðsson sem afhenti verðlaunin.

Elmar Sveinsson kjötiðnaðarmaður hjá Norðlenska er Kjötmeistari Íslands 2012. Hann hlaut gullverðlaun fyrir 8 af 10 innsendum vörum og 2 silfur í Fagkeppni Meistarafélags kjötiðnaðarmanna, en úrslit voru kunngjörð við hátíðlega athöfn á laugardaginn. Þá hlaut Stefán Einar Jónsson lambaorðuna og Arnleif Steinunn Höskuldsdóttir sigraði í nemakeppni í kjötiðnaði.

Elmar er auðvitað í sjöunda himni með árangurinn. „Þegar ég mætti á staðinn á föstudaginn var búið að dæma fjórar af mínum vörum, og ég hafði fengið gull fyrir þær allar!  Ég verð því að játa að ég var nokkuð bjartsýnn eftir daginn,“ segir hann, en verðlaunaafhending fór fram á laugardagskvöldið á Hótel Nordica, og þá var tilkynnt að Elmar hefði hreppt nafnbótina Kjötmeistari Íslands.

Elmar hefur starfað hjá Norðlenska í 12 ár og lauk námi í kjötiðn árið 2005. „Ég hef auðvitað fengið leiðsögn hjá mörgum, hvað sé gott að gera og hvernig hlutirnir virka í keppninni, en svo er þetta mest undir manni sjálfum komið,“ segir Elmar. „Þetta er í þriðja sinn sem ég tek þátt. Fyrsta árið var aðalatriðið að vera með, í annað skipti gekk mér vel og nú ég var búinn að átta mig vel á því hvað virkar best í svona keppni.“

Hann sendi inn vörur til keppni í öllum þeim flokkum sem Norðlenska bauð upp á. Elmar hlaut gullverðlaun fyrir eftirtaldar vörur: nautasnakk, Pedersen salami, EL Hrossó, EL Toro, Hátíðarhangikjöt, úrbeinað hangilæri, lambasviðasultu og grísasnakk. Silfur fékk hann svo fyrir danska lifrarkæfu og vínarpylsur.

Eitt af því sem Elmar fékk gull fyrir hafði hann aldrei gert áður, nautasnakkið sem hann kallar svo, en það vakti mikla lukku og aldrei að vita nema það verði sett í framleiðslu. Flest það sem hann fékk verðlaun fyrir er framleitt jafnt og þétt hjá Norðlenska. Vörurnar EL Toro og EL Hrossó hafa t.d. verið vinsælar, þurrkaðir vöðvar, naut og hross eins og nafnið ber með sér.

Eggert Sigmundsson vinnslustjóri Norðlenska á Akureyri var stoltur eins og Elmar. „Það er auðvitað frábært að fá alls 12 gull og fimm silfur. Ég er mjög stoltur fyrir þeirra hönd að ná þessum ofsalega fína árangri,“ segir hann en Stefán Einar Jónsson fékk 4 gull og 3 silfur, og lambaorðuna, eins og áður kom fram. Gull fékk Stefán Einar fyrir Bratwurst pylsur, Gamla góða kindakæfu, pepperoni og þurrverkaðan lambavöðva, en silfur fyrir grafið nautafille, Chorizo og Napoliskinku.

Þá sigraði Arnleif Steinunn Höskuldsdóttir í nemakeppni í kjötiðnaði þar sem keppendur fengu það  verkefni að úrbeina lambaskrokk og stilla afurðunum upp í kjötborð. Höskuldur Freyr Hermannsson tók einnig þátt í nemakeppninni og stóð sig mjög vel.


Svæði

Norðlenska ehf

Grímseyjargötu
600 Akureyri

s. 469-4500

kt: 500599-2789

upplysingar@nordlenska.is

Póstlistinn

Skráðu þig á póstlistann hjá okkur og fáðu fréttir sendar á netfangið þitt.

Vörumerki Norðlenska

GoðiKEAHúsavíkur kjötBautabúrið

Goði á facebook