Fréttir

Fjármögnun afurðalána fyrir sláturtíð er tryggð

Norðlenska hefur nú tryggt sér afurðalán til að greiða bændum fyrir sauðfjárinnlegg í haust. Óskað er eftir því að bændur skili sem allra fyrst sláturfjárloforðum til Norðlenska þannig að unnt sé að vinna tímanlega að niðurröðun í haustslátrun.

 

Sigmundur E. Ófeigsson, framkvæmdastjóri Norðlenska, segir afar ánægjulegt að geta tilkynnt svo snemma að búið sé að ganga frá fjármögnun afurðalána fyrir sláturtíðina í haust.  "Við lögðum erindi fyrir lánanefnd Landsbankans og fengum jákvæða afgreiðslu, sem er mjög ánægjulegt.  Kjörin sem Landsbankinn býður okkur eru vel viðunandi, en hin endanlega niðurstaða með lánakjörin ræðst af stýrivaxtaákvörðunum Seðlabankans.  Ef stýrivextirnir lækka á næstunni, sem  er algjörlega nauðsynlegt, batna lánakjörin," segir Sigmundur.

Sigmundur segir að innleggjendur, sem eru með samninga við Norðlenska, muni , eins og samningarnir kveði á um, fá greitt samkeppnishæft verð.

"Við hvetjum bændur til þess að skila til okkar sem allra fyrst sláturfjárloforðum. Þetta er afar mikilvægt fyrir okkur til þess að við getum fyrr en síðar farið að raða niður slátrun á daga í haust. Síðastliðið haust lentum við í þeirri stöðu að hafa vannýtt sláturhús, bæði á Húsavík og Höfn, fyrstu dagana, en við viljum ekki lenda í þeirri stöðu aftur og þess vegna er svo mikilvægt að við fáum góða hugmynd um það tímanlega hvert umfang slátrunarinnar verður. Við erum ekki að biðja um nákvæma tölu, en að hún gefi eins raunhæfa mynd af umfanginu og kostur er."

Sigmundur lætur þess getið að fljótlega muni Norðlenska birta álag á sumarslátrun.

Bændur í nágrenni Hafnar eru beðnir að koma sláturloforðum til Einars Karlssonar, sláturhússtjóra á Höfn. Hann er með símann 840 8870 - einar@nordlenska.is.  Sigmundur Hreiðarsson, vinnslustjóri á Húsavík, tekur við sláturfjárloforðum af Austurlandi, úr Þingeyjarsýslum og Eyjafirði. Sigmundur er með símann 840 8888 - netfang simmih@nordlenska.is.  Einnig er unnt að koma sláturfjárloforðum til Svölu Stefánsdóttur á Akureyri - síminn hjá henni er 460 8855 - netfangið er svalas@nordlenska.is


Svæði

Norðlenska ehf

Grímseyjargötu
600 Akureyri

s. 469-4500

kt: 500599-2789

upplysingar@nordlenska.is

Póstlistinn

Skráðu þig á póstlistann hjá okkur og fáðu fréttir sendar á netfangið þitt.

Vörumerki Norðlenska

GoðiKEAHúsavíkur kjötBautabúrið

Goði á facebook