Fréttir

Fjölþjóðlegt samfélag á Húsavík

Óhætt er að segja að sláturhús Norðlenska á Húsavík sé afar fjölþjóðlegt samfélag núna í sláturtíðinni. Þeir 83 starfsmenn sem starfa á Húsavík í sláturtíðinni eru frá fimmtán þjóðlöndum.

Af þessum 83 starfsmönnum koma 55 erlendis frá eða 66,3%. Íslendingarnir eru því 28 eða 33,7%. Helmingur Íslendinganna vinnur allt árið hjá Norðlenska.
Hér á árum áður var það viðtekin venja að manna stóran hluta starfa í sláturhúsunum með fólki úr sveitunum. Það er liðin tíð. Reyndar er alltaf eitthvað um að sveitafólk gefi kost á sér til starfa við slátrun og svo er einnig nú hjá Norðlenska á Húsavík, en vegna þess m.a. að fólki hefur fækkað svo mjög í sveitunum á síðustu árum og áratugum er ekki lengur unnt að manna sláturhúsin að stórum hluta á sveitafólki. Þess í stað er erlent verkafólk orðið áberandi í sláturhúsunum.

Að sögn Katrínar Dóru Þorsteinsdóttur, starfsmannastjóra Norðlenska, koma erlendir starfsmenn í sláturtíðinni á Húsavík frá óvenju mörgum þjóðlöndum eða fimmtán. Þjóðalistinn er sem hér segir:

Land                              Fjöldi

Ísland                             28
Svíþjóð                           25
Finnland                           4
Portúgal                           1
Bretland                           6
Nýja-Sjáland                   5
Þýskaland                        2
Spánn                               1
Holland                             1
Pólland                             2
Tékkland                          2
Slóvakía                           3
Ítalía                                1
Eistland                            1
Ungverjaland                   1

Katrín Dóra segir að bróðurpartur hins erlenda verkafólks sé á aldrinum 20-25 ára. Af 83 starfsmönnum eru 24 konur. Nokkrir starfsmannanna hafa áður unnið í sláturtíðinni hjá Norðlenska, eru að koma í annað og jafnvel þriðja skipti, og segir Katrín Dóra töluvert um það að vinir og kunningjar þessara starfsmanna sæki í að koma hingað upp og vinna í sláturtíðinni. "Við auglýstum eftir fólki á Evrópska efnahagssvæðinu og fengum um 200 umsóknir. Það reyndist því ekki vera vandamál að fá fólk til starfa," segir Katrín Dóra og bætir við að hluti starfsmannanna sé faglærður. Þannig koma þaulreyndir slátrarar bæði frá Bretlandi og Nýja-Sjálandi.
Þrátt fyrir þetta fjölþjóðlega samfélag á Húsavík gengur greiðlega að miðla upplýsingum á milli manna, enda geta flestir bjargað sér ágætlega á ensku.
Síðasti dagur slátrunar á Húsavík er áætlaður 26. október nk.

Slátrun á Höfn
Slátrun hefst á Höfn þriðjudaginn 18. september nk. Katrín Dóra Þorsteinsdóttir segir að um 50 starfi í sláturhúsinu þar í sláturtíðinni, þar af sjö fastráðnir ársstarfsmenn Norðlenska á Höfn. Rösklega helmingur starfsmanna í sláturtíðinni á Höfn kemur erlendis frá.
Síðasti dagur slátrunar á Höfn er áætlaður 31. október.

Margt til gamans gert
Afar vel er búið að erlendum starfsmönnum Norðlenska á Húsavík og Höfn. Á Húsavík búa þeir á Hótel Húsavík og á Höfn í húsi þar sem rekið er farfuglaheimili yfir sumarmánuðina. Katrín Dóra segir að í sláturtíðinni sé ýmislegt gert fyrir fólkið, efnt er til skoðunarferða og ýmislegt fleira gert. Um komandi helgi er t.d. ætlunin að efna til golfmóts fyrir starfsmennina á Húsavík.


Svæði

Norðlenska ehf

Grímseyjargötu
600 Akureyri

s. 469-4500

kt: 500599-2789

upplysingar@nordlenska.is

Póstlistinn

Skráðu þig á póstlistann hjá okkur og fáðu fréttir sendar á netfangið þitt.

Vörumerki Norðlenska

GoðiKEAHúsavíkur kjötBautabúrið

Goði á facebook