Fréttir

Fullvinna garnir til útflutnings

Reynir Eiríksson.
Reynir Eiríksson.
Tveir sláturleyfishafar á Norðurlandi hafa stofnað fyrirtækið Iceland Byproducts um fullvinnslu á görnum til útflutnings og verkun á vömbum. Norðlenska hafði forgöngu um stofnunina en eigendur eru einnig SAH Afurðir á Blönduósi. Fjallalamb á Kópaskeri og Sláturfélag Vopnfirðinga munu að auki leggja inn afurðir hjá IB. Vinnslan verður á Húsavík og sjö munu starfa við hana í haust.

 

Iceland Byproducts er stofnað í samvinnu við írska fyrirtækið Irish Casings og munu tveir starfsmenn frá Írlandi verða hér á landi í haust og hafa yfirumsjón með vinnslunni. Garnir hafa verið hálfverkaðar hérlendis og það verður gert áfram í einhverjum mæli í haust, en Reynir B. Eiríksson framleiðslustjóri Norðlenska vonast til þess að fleiri sláturleyfishafar leggi inn garnir til hins nýja fyrirtækis í framtíðinni.

 

„Markmið þessara fjögurra sláturleyfishafa er að nýta betur aukaafurðir sem  falla til við sauðfjárslátrun. Þá má ekki gleyma því að þetta verður líka til þess að minnka úrgang. Við ýtum starfseminni úr vör í haust, reynum að finna rétta taktinn og sníða af agnúa, ef einhverjir verða. Í framtíðinni stefnum við svo að því að færa út kvíarnar og þá koma vonandi fleiri sláturleyfishafar að þessu,“ segir Reynir.

 

Garnirnar verða seldar til Egyptalands þar sem þær verða flokkaðar og síðan notaðar utan um pylsur af ýmsu tagi. Reynir gerir ráð fyrir að í haust verði unnar 240 til 250 þúsund garnir á Húsavík.

 

Hjá Iceland Byproducts verða einnig verkaðar vambir til útflutnings. Þær verða seldar til Gana og notaðar í súpur og annað slíkt. Norðlenska hefur undanfarið selt bein á svipaðar slóðir.


Svæði

Norðlenska ehf

Grímseyjargötu
600 Akureyri

s. 469-4500

kt: 500599-2789

upplysingar@nordlenska.is

Póstlistinn

Skráðu þig á póstlistann hjá okkur og fáðu fréttir sendar á netfangið þitt.

Vörumerki Norðlenska

GoðiKEAHúsavíkur kjötBautabúrið

Goði á facebook