Fréttir

5.800 kílómetrar af mjög góðum görnum!

Paul Daly og Reynir Eiríksson framleiðslustjóri Norðlenska.
Paul Daly og Reynir Eiríksson framleiðslustjóri Norðlenska.

„Garnirnar sem við fáum hér eru mjög góðar; þær jafnast á við það sem við höfum unnið á Írlandi og í Bretlandi. Og það er mun betra að verka þær hér á staðnum en að frysta og flytja annað til þess að fullvinna,“ segir Írinn Paul Daly sem stýrt hefur fullvinnslu garna til útflutnings á Húsavík í haust.

Norðlenska og SAH Afurðir á Blönduósi stofnuðu félagið Iceland Byproducts fyrr á árinu í því skyni að fullvinna garnir til útflutnings og það tók til starfa á Húsavík í haust. Það er fyrirtækið Irish Casings sem kaupir garnirnir af IB og Írinn Paul Daly hefur stjórnað starfseminni. Írska fyrirtækið leggur til vélbúnað og starfsmenn.

„Ég hef starfað í þessum bransa í 30 ár,“ segir Paul Daly. Hann er einn stjórnenda Irish Casings sem er mjög stórt fyrirtæki á þessu sviði. Það kaupir, verkar og selur garnir í mörgum löndum, einkum úr nautgripum, fé og svínum.

Reynir B. Eiríksson framleiðslustjóri Norðlenska segir markmið með starfseminni að nýta betur en hingað til aukaafurðir sem falla til við sauðfjárslátrun, bæði til að skapa aukin verðmæti og ekki síður að minnka úrgang sem þarf að urða.

IB fær garnir frá fimm sláturhúsum, Norðlenska á Húsavík og á Höfn, SAH Afurðum á Blönduósi, Fjallalambi á Kópaskeri og Sláturfélagi Vopnfirðinga. Gert er ráð fyrir að verkaðar verði um 240.000 garnir í þessari sláturtíð, hver þeirra er um 24 metrar á lengd þannig að alls er um að ræða um það bil 5.800 kílómetra af görnum! Vegalengdin samsvarar fjórum ferðum í kringum landið á hringveginum!

Garnirnar eru fyrst grófhreinsaðar í sláturhúsinu; mesti skíturinn kreistur úr þeim, en síðan eru þær fluttar í húsnæði sem tekið var á leigu á hafnarsvæðinu þar sem verkinu lýkur, görnunum er pakkað og þær sendar úr landi.

Í seinni tíð hefur aukist að notaðar séu gervigarnir við matargerð en Irish Casings selur aðeins náttúrlegar garnir; hráefnið kaupir fyrirtækið m.a. á Írlandi, Bretlandi, Danmörku, Þýskalandi og Rúmeníu, auk Íslands, og selur út um allan heim.

Fullverkaðar garnir eru aðallega notaðar utan um pylsur. Þær eru af öllum stærðum og gerðum eins og menn vita; lambagarnir eins og þær sem sem Irish Casings verkar selur fyrirtækið til dæmis í miklu magni á Írlandi og í Frakklandi en Daly segir stærri garnir annars staðar frá notaðar í miklu magni í stórar pylsur, til dæmis í Þýskalandi þar sem slíkar afurðir eru vinsæll matur sem kunnugt er.

Starfsmennirnir sem verka garnirnar á Húsavík eru frá Írlandi og Daly segir það borga sig. „Vertíðin hér er stutt og það tekur því ekki að þjálfa íslenska starfsmenn í verkefnið. Ég kem með vana menn, vinnan er mjög viðkvæm og það væri ekkert vit í því að setja fjóra óvana menn í þetta.“

Paul Daly segist mjög ánægður með lífið á Húsavík. „Hér er gott að vera og engin vandamál. Húsavík er fallegur staður og samstarfið við Íslendinga sérlega gott.“

Á vegum IB á Húsavík eru nú einnig verkaðar vambir sem seldar eru til Gana. Þar eru þær fullverkaðar og notaðar í súpur og önnur matvæli.


Svæði

Norðlenska ehf

Grímseyjargötu
600 Akureyri

s. 469-4500

kt: 500599-2789

upplysingar@nordlenska.is

Póstlistinn

Skráðu þig á póstlistann hjá okkur og fáðu fréttir sendar á netfangið þitt.

Vörumerki Norðlenska

GoðiKEAHúsavíkur kjötBautabúrið

Goði á facebook