Fréttir

Góður gangur í haustslátruninni á Húsavík og Höfn - meiri kjötgæði

Haustslátrun Norðlenska á Húsavík og Höfn er í fullum gangi og gengur almennt vel.  Besti dagur sláturtíðarinnar á Húsavík var í gær þegar var lógað rösklega 2000 dilkum á Húsavík og aðeins reyndust vera 1,1% gallar, sem er mjög gott. Almennt virðast kjötgæði vera að aukast - holdfyllingin er meiri og minni fita.

"Þetta hefur gengið ágætlega. Í gær var besti dagur sláturtíðarinnar þegar við slátruðum yfir 2000 dilkum með aðeins 1,1% göllum, sem er afburða gott. Metið í fyrra var 0,7%," segir Sigmundur Hreiðarsson, vinnslustjóri á Húsavík. Nú þegar er búið að slátra um 35 þúsund fjár, þar af um 800 fullorðnu. Um helgi er gert ráð fyrir að búið verði að slátra um 41 þúsund fjár og þar með verður fyrri umferð lokið.
Í dag er verið að slátra dilkum víða að - úr Skagafirði, af Melrakkasléttu, úr Aðaldal og af Austurlandi.

Markviss ræktun skilar betri kjötgæðum
"Þegar búið var að slátra 30 þúsund dilkum var fallþunginn 15,44 kg, sem er þrjú hundruð grömmum meiri fallþungi en í haustslátruninni í fyrra, en það má reikna með að fallþunginn lækki þegar líður á og verði mjög álíka og í fyrra," segir Sigmundur. Hann sagðist ekki hafa skoðað það vísindalega hvaðan þyngstu dilkarnir kæmu, en taldi þó að samkvæmt venju væru dilkarnir hvað þyngstir úr Svarfaðardal og Borgarfirði eystri. "Það sem er ánægjulegt er að kjötgæðin eru meiri en áður, holdfyllingin meiri og minni fita. Það er enginn vafi á því að markviss ræktun bænda er að skila þessu," segir Sigmundur.
Tíðarfarið hefur almennt verið hagstætt og því hefur gengið vel að flytja sláturféð til Húsavíkur.

Mikil sala á fersku lambakjöti
Sigmundur segir að mikil sala hafi verið á fersku kjöti í sláturtíðinni. "Við höfum einbeitt okkur að innanlandsmarkaði í sláturtíðinni, þar sem ekki er um að ræða útflutning á Bandaríkjamarkað núna. Það er óhætt að segja að það hafi verið mjög mikil sala," segir Sigmundur og bætir við að slátursalan sé líka komin í fullan gang. Auk slátursölunnar á Húsavík er selt slátur frá Norðlenska í Hrísalundi á Akureyri, í Samkaupum á Dalvík og Samkaupum á Egilsstöðum. "Við erum líka sjálfir að framleiða mikið magn af tilbúnu slátri. Það lætur nærri að það séu 4-6 tonn á viku núna í sláturtíðinni. Þetta selst alltaf mjög vel á þessum tíma, fólki finnst tilheyra að fá sér nýtt slátur í sláturtíðinni," segir Sigmundur.

Haustferð fyrir erlenda starfsmenn
Tæplega sextíu af erlendum starfsmönnum Norðlenska brugðu sér í haustferð sem Norðlenska bauð upp á fyrir þá sl. laugardag. Meðal annars var farið í Laxárvirkjun, að Goðafossi, í Kröflu og Baðlónið í Mývatnssveit. "Það var mikil ánægja með þessa ferð og ég held að allir hafi skemmt sér hið besta. Fólk lenti í öllum útgáfum af veðri - sól, rigningu og snjókomu," sagði Sigmundur.

Svipaður fallþungi á Höfn
"Þetta hefur gengið þolanlega þegar veðrið hefur verið skaplegt. Hvassviðrið hefur svolítið verið að gera okkur lífið leitt, hér var mjög hvasst sl. sunnudag og mánudag og því erfitt að flytja sláturféð í þessum stóru bílum hingað. Þegar norðanáttin er svona sterk verður ansi vindasamt hér. Nú er reyndar verið að spá nokkuð hvössu suðaustan veðri, en ég er ekki eins smeykur við það og norðanáttina," segir Einar karlsson, sláturhússtjóri á Höfn.
Það sem af er sláturtíðinni hefur sláturhús Norðlenska á Höfn tekið við dilkum víða að, en hlutfallslega þó mest af austursvæðinu, t.d. Berufirði og Álftafirði. "Við tökum fyrstu dilkana úr Vestursýslunni í dag.  Þetta er á bilinu 250-270 kílómetra leið," segir Einar, en í ár koma lömb í haustslátrun hjá Norðlenska á Höfn ennþá vestar eða alla leið úr Mýrdal.
Miðað er við að slátra um 1000 fjár á dag á Höfn - um 5000 fjár í viku. Einar segir að svo virðist sem fallþungi sé ekki ósvipaður í ár og síðastliðið haust. "Það er ekki alveg að marka þetta þessa fyrstu daga sláturtíðarinnar. Bændur koma gjarnan með þyngri lömbin til að byrja með. Ég gæti trúað því að fallþunginn það sem af er sé ekki langt frá sextán kílóum, en hann á örugglega eftir að lækka og það kæmi mér ekki á óvart þótt hann yrði ekki langt frá fimmtán kíóum þegar upp verður staðið í lok sláturtíðar."
Slátursala á Höfn er hafin, en Einar segir hana fara rólega af stað. Hin almenna regla er sú að fólk taki ekki slátur að marki fyrr en komið er fram í október.


Svæði

Norðlenska ehf

Grímseyjargötu
600 Akureyri

s. 469-4500

kt: 500599-2789

upplysingar@nordlenska.is

Póstlistinn

Skráðu þig á póstlistann hjá okkur og fáðu fréttir sendar á netfangið þitt.

Vörumerki Norðlenska

GoðiKEAHúsavíkur kjötBautabúrið

Goði á facebook