Fréttir

Góður gangur í slátruninni og mikill fallþungi

"Það er ekkert sem bendir til annars en að okkar áætlanir standist og við ljúkum hér haustslátrun föstudaginn 24. október. Þetta hefur gengið ljómandi vel og í dag erum við að slátra um 2100 fjár. Eftir daginn í dag verðum við búin að slátra um 67 þúsund fjár," segir Sigmundur Hreiðarsson, vinnslustjóri Norðlenska á Húsavík. Fallþungi dilka er áfram mikill á Húsavík og stefnir í að hann verði sá mesti til fjölda ára. Meðalvigt dilka á Húsavík til og með sl. mánudegi, 13. október, var 16,05 kg. Sl. þriðjudag var meðalþunginn 16,18 kg, á miðvikudag 15,4 kg og í gær, fimmtudag, 16,45 kg. Það virðist því nokkuð ljóst að meðalvigtin á Húsavík á þessu hausti verður ekki langt frá 16 kg, sem er langmesti fallþungi sem hefur sést til fjölda ára. Ef horft er til síðustu ára var fallþungi dilka Norðlenska á Húsavík árið 2004 14,76 kg, 15,12 kg árið 2005, 15,31 kg árið 2006 og 15,2 kg í fyrra.

Fallþungi dilka á Höfn er það sem af er mun minni en á Húsavík. Að lokinni slátrun sl. mánudag, þegar búið var að slátra um 16.700 dilkum á Höfn, var meðalþunginn 15,33 kg, en í síðustu haustsláturtíð var fallþunginn á Höfn 15,15 kg.

Fleiri met ætla að falla í þessari haustsláturtíð en varðandi fallþungann. Sigmundur Hreiðarsson segir að á Húsavík hafi í haust verið seld á bilinu 8-9.000 slátur og þurfi að fara nokkur ár aftur í tímann til þess að finna jafn mikla slátursölu. Þetta er rösklega 2.000 slátrum meiri sala en í fyrra. Og sömuleiðis hefur verið mikil sala á innmat, meiri en áður.

Sigmundur segir að í haust hafi verið mikil sala á fersku dilkakjöti hér innanlands og sömuleiðis sé töluvert um útflutning. Þannig hafi Norðlenska á Húsavík sent gám til Bretlands með úrbeinuðum slögum og til Noregs fór í þessari viku gámur með heilum skrokkum. Einnig mun Norðlenska á Höfn senda heila dilkaskrokka til Noregs. Þá mun Norðlenska senda gám í næstu viku með pökkuðu dilkakjöti til Færeyja, en þar er góður markaður fyrir íslenskt lambakjöt.


Svæði

Norðlenska ehf

Grímseyjargötu
600 Akureyri

s. 469-4500

kt: 500599-2789

upplysingar@nordlenska.is

Póstlistinn

Skráðu þig á póstlistann hjá okkur og fáðu fréttir sendar á netfangið þitt.

Vörumerki Norðlenska

GoðiKEAHúsavíkur kjötBautabúrið

Goði á facebook