Fréttir

Uppgræðsla með lífrænum áburði gefur mjög góða raun

Efri mynd: 2009 - Neðri mynd: 2010.
Efri mynd: 2009 - Neðri mynd: 2010.

Tilraun til uppgræðslu lands með lífrænum áburði úr sláturhúsi Norðlenska á Húsavík gengur afar vel. Fyrirtækið hefur, í samstarfi við Landgræðslu ríkisins, grætt upp bæði í landi Húsavíkur og á Hólasandi. Stefán Skaftason héraðsfulltrúi Landgræðslunnar á Norðausturlandi segir þessa leið ákjósanlega.

„Við höfum stundum orðað það þannig að við séum að skila til landsins hluta þess sem sauðféð fékk þar,“ segir Reynir B. Eiríksson framleiðslustjóri Norðlenska um þetta frumkvöðlastarf fyrirtækisins. 

Gor er safnað í tank við sláturhúsið og ekið hefur verið á hverjum degi frá Húsavík að Hólasandi með áburð, oft tvær ferðir á dag. Að sögn Reynis hefur verið dreift nærri 500 tonnum af þessum lífræna áburði frá fyrirtækinu að haustlagi síðastliðin tvö ár og álíka miklu í sláturtíðinni sem nú stendur sem hæst. Úrgangi sem annars hefði þurft að urða eða losna við með öðrum hætti. Kostnaður við það sparist. „Þetta hefur gríðarleg áhrif og þess vegna tökum við þátt í þessu með fyrirtækinu; við viljum frekar nota úrganginn sem áburð en hann sé urðaður eða fari út í sjó,“ segir Stefán Skaftason.

Hann gleðst yfir því hvernig til hefur tekist. „Þetta skilar gríðarlegum árangri, það sést vel ef farið er hér upp með Húsavíkurfjalli,“ segir Stefán. Að stórum hluta hefur lífrænn áburður verið notaður þar, en á svæðinu hefur verið mjög mikill uppblástur og jarðvegseyðing. Með þessum áburði og lúpínu erum við að gjörbreyta Húsavíkurlandi.“

Meðfylgjandi myndir eru teknar í landi Húsavíkur. Sú efri fyrir rúmu ári og sú neðri núna í sumar. Munurinn er greinilegur.

Tilraunir við uppgræðslu með nokkrum tegundum lífræns áburðar standa nú yfir á vegum Landgræðslunnar á Rangárvöllum, m.a. til þess að bera saman niðurstöðu þess og uppgræðslu með hefðbundnum áburði og um leið að velta fyrir sér fjárhagslegu hliðinni. Hvort og þá hve mikið megi spara með notkun lífræns áburðar.

„Hugsanlega komumst við af með minna af þessum áburði en tilbúnum,“ segir Stefán og bendir á að eftirvirkni af lífrænum áburði vari í mörg ár, lengur en þegar notaður er tilbúinn áburður og því sé þetta ákjósanleg leið. „Áburðarkornið skoppar á jörðinni en lífræni áburðurinn bindur jarðveginn betur. Þar sem uppblástur er mikill setjum við oft heyrúllur til að ná betri jarðvegsmyndun; þegar heyið rotnar skapast betri skilyrði með tímanum, en með lífrænum áburði myndi það gerast strax.“

Stefán segir að gera megi ráð fyrir að köfnunarefni í lífræna áburðinum sé um það bil fimmtungur þess sem er í tilbúnum áburði, en minnir á að í þeim lífræna séu steinefni og ýmis önnur lífræn efni sem brotni niður og skapi mikinn og góðan jarðvegsmassa til framtíðar.

Norðlenska slátrar um 77.000 fjár á þessu ári og samtals er um 500.000 fjár slátrað á landinu öllu. Einnig má nýta lífrænan úrgang sem safnast saman við slátrun svína og nautgripa, segir Reynir, þannig að tækifærin eru mikil. „Svo er allur úrgangurinn sem kemur frá heimilum og vinnustöðum, sem vinna mætti úr lífrænan massa með moltugerð,“ segir Stefán.  „Einstaklingar og sum sveitarfélög gera þetta en það þyrfti að gera í stórum stíl í stað þess að grafa úrganginn eða brenna.“

Stefán segir að ljóst sé að græða megi upp mjög stór svæði með lífrænum áburði. „Það er í raun algjör glæpur að henda þessu út í sjó. Augu sífellt fleiri eru að opnast fyrir því hve gríðarleg verðmæti eru í þessum lífræna áburði,“ segir Stefán. Reyndar sé mjög dýrt að bera á svæði eins og Hólasand vegna þess hve langt sé að fara frá Húsavík, en nýtingin sé þó skynsamleg. 

Ekki má nota lífræna áburðinn hvar sem er, vegna ótta heilbrigðisyfirvalda við riðusmit, heldur er hann borinn á innan afmarkaðra svæða sem lokuð verða búfé í að minnsta kosti 20 ár. „Þetta er alfriðað svæði, sem verður ekki opnað næstu 50 árin fyrir búfjárbeit þannig að okkur eru allir vegir færir þar,“ segir Stefán um Hólasand. Og verkefnin þar eru næg, bætir hann við: „Hólasandur er stórt svæði...“


Svæði

Norðlenska ehf

Grímseyjargötu
600 Akureyri

s. 469-4500

kt: 500599-2789

upplysingar@nordlenska.is

Póstlistinn

Skráðu þig á póstlistann hjá okkur og fáðu fréttir sendar á netfangið þitt.

Vörumerki Norðlenska

GoðiKEAHúsavíkur kjötBautabúrið

Goði á facebook