Fréttir

Gott ár að baki hjá Norðlenska en nokkur óvissa á nýju ári

Árið 2006 hefur á margan hátt verið Norðlenska hagfellt og hefur framleiðsla og sala sem og afkoma fyrirtækisins verið umfram væntingar. Sigmundur E. Ófeigsson, framkvæmdastjóri Norðlenska, telur að horfur fyrir árið 2007 séu nokkuð góðar, en hins vegar fylgi því nokkur óvissa hvað stjórnvöld hyggist fyrir varðandi innflutning landbúnaðarafurða. Fyrr en stjórnvöld hafi upplýst hver stefna þeirra sé í þeim efnum sé erfitt að meta horfurnar á næstu mánuðum og misserum.

Árið 2006 hefur á margan hátt verið Norðlenska hagfellt og hefur framleiðsla og sala sem og afkoma fyrirtækisins verið umfram væntingar. Sigmundur E. Ófeigsson, framkvæmdastjóri Norðlenska, telur að horfur fyrir árið 2007 séu nokkuð góðar, en hins vegar fylgi því nokkur óvissa hvað stjórnvöld hyggist fyrir varðandi innflutning landbúnaðarafurða. Fyrr en stjórnvöld hafi upplýst hver stefna þeirra sé í þeim efnum sé erfitt að meta horfurnar á næstu mánuðum og misserum.

Sáttur við árið
“Ég er mjög sáttur við þetta ár hjá Norðlenska,” segir Sigmundur E. Ófeigsson. “Ef horft er á rekstur fyrirtækisins hefur orðið mikil og góð breyting. Allar kennitölur í rekstrinum gefa til kynna að nú sé fyrirtækið orðið mjög heilbrigt, ef svo má að orði komast. Fyrir fjórum árum síðan var fyrirtæknið nánast gjaldþrota og í okkar áætlanagerð þá var gert ráð fyrir að reksturinn yrði við núllið árið 2005 og í ár myndi reksturinn skila örlitlum hagnaði. Þetta hefur gengið eftir og gott betur. Raunar má segja að við séum um einu ári á undan okkar bjartsýnustu áætlunum. Ég er mjög ánægður með það.”

- Hver er helsta skýringin á þessu?

“Ég held að almennt megi segja að vel hafi tekist til með framtíðarsýn fyrirtækisins og uppbyggingu þess. Og við höfum verið þeirrar gæfu aðnjótandi að vera með afburða gott starfsfólk, sem skiptir gríðarlega miklu máli. Við erum að vinna að hagsmunum framleiðenda, sem felast í því að afurðastöð eins og Norðlenska, sem er bæði sláturhús og kjötvinnsla, sé rekin á hagkvæman hátt og með hagnaði, í sátt við bæði framleiðendur og neytendur. Við þurfum að hafa það að leiðarljósi og leita eftir því jafnvægi að neytendur fái vörur á sangjörnu verði og framleiðendur fái einnig greitt sanngjarnt verð fyrir sínar afurðir. Á þennan hátt gætum við hagsuma eigenda Norðlenska best.”

Mjög gott samstarf við Búsæld
- Nú eiga um 530 framleiðendur hlut í Norðlenska í gegnum Búsæld. Hvernig hefur að þínu mati samstarfið við Búsæld gengið?

“Mjög vel. Vonum framar. Á sínum tíma sögðu margir að við værum að ráðast í hið ómögulega, þ.e. að sameina allar búgreinar inn í eitt framleiðendafélag. Það hefur hins vegar komið á daginn að allir framleiðendur, hvort sem það eru svínabændur, nautgripabændur eða sauðfjárbændur, hafa það sameiginlega markmið að koma afurðum sínum á diska neytenda. Og að því er betra að vinna í sameiningu heldur en í “stríði” hver við annan. Í viðskiptasamningum við bændur var kveðið á um að framleiðendur myndu skuldbinda sig til þess að koma með gripi til slátrunar hjá Norðlenska, en á móti gerði Norðlenska bindandi samning um að slátra gripum frá framleiðendum, jafnvel þótt offramboð yrði á markaðnum. Samningurinn kvað því á um gagnkvæmar skyldur bænda og fyrirtækisins og ég tel að reynslan hafi sýnt að hann hefur verið báðum aðilum hagstæður. Framleiðendur sem eiga aðild að Búsæld eru umtalsvert fleiri en við reiknuðum með í upphafi. Okkar starfssvæði stækkaði verulega þegar bændur í kringum Höfn í Hornafirði leituðu eftir aðkomu okkar að sláturhúsinu þar. Sláturhúsið á Höfn var komið í eigu banka. Norðlenska kom að samningum framleiðenda við bankann um að framleiðendafélagið Búi eignaðist sláturhúsið og trygging fyrir því eignarhaldi var leigusamningur við Norðlenska. Aðilar að Búa, sem einnig eru aðilar að Búsæld, eru því ábyrgir fyrir því að koma með gripi til slátrunar í sláturhúsinu á Höfn og þannig er húsinu skapaður rekstrargrundvöllur. Þetta samstarf hefur gengið mjög vel og ég veit ekki betur en að gagnkvæm ánægja sé með það.”

Búast má við aukinni útflutningsskyldu á komandi ári
- Nú var mikill óróleiki í verðlagi kjötvara til neytenda á árinu 2005, en svo virðist sem ró hafi færst yfir markaðinn á þessu ári. Sérðu fyrir þér áframhaldandi stöðugleika á kjötmarkaðnum?

“Á tímabili var vissulega mikil offramleiðsla á kjöti. Hér var framleitt kjöt eins og fyrir 600 þúsund manna þjóð, en ekki 300 þúsund manna þjóðfélag. Afleiðingin var mikil verðlækkun á kjötvörum sem leiddi til erfiðleika í greininni og við það fækkaði bæði bændum, sláturhúsum sem og kjötvinnslum. Þannig fækkaði svínabændum t.d. úr 36 í 10-15. Lækkun á verði nautakjöts gerði það að verkum að bændur hættu að setja á nautkálfa og við höfum verið að súpa seyðið af því, síðustu tvö árin hefur verið töluverður innflutningur á nautakjöti vegna þess að hérlendir nautakjötsframleiðendur hafa hreinlega ekki annað eftirspurn. Núna er hins vegar töluvert af nautum í uppvexti og það er smám saman að komast á jafnvægi á nautakjötsmarkaðnum. Í svínakjötinu er mjög nálægt því að vera jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar. Núna fyrir jólin heyrðist að það vantaði tugi tonna af svínakjöti til þess að mæta eftirspurninni, en það tel ég að hafi verið úr lausu lofti gripið. Í lambakjötinu er framleiðslan ívið meiri en fyrir innanlandsmarkaðinn og því telja menn að megi gera ráð fyrir að útflutningsskyldan verði hækkuð aftur. Hún fór niður í 10% á þessu ári, en mín tilfinning er sú að hún verði hækkuð eitthvað á næsta ári, sem þýðir að bændum verði gert að flytja hærra hlutfall af sinni framleiðslu á erlenda markaði.”

Um 10% meiri sala en gert var ráð fyrir
- Hvernig hefur sala á afurðum Norðlenska gengið á þessu ári?

“Gríðarlega vel, við erum með mun meiri veltu í ár en á árinu 2005. Salan er um 10% meiri en við höfðum áætlað. Við hefðum getað selt töluvert meira af hamborgarhrygg fyrir jólin. En þegar horft er til alls ársins hefur verið aðeins minni sala á svínakjöti í ár en árið 2005, sem helgast af því að framboð af svínakjöti hefur ekki verið nægilega mikið. Við höfum selt töluvert meira af nautakjöti en árið 2005 og þar höfum við heldur verið að auka við okkur. Það er ljóst að við getum selt meira af nautakjöti, sem m.a. tengist hinum fjölmörgu erlendu starfsmönnum sem eru hér á landi. Við erum að tala um ellefu þúsund starfsmenn, sem er um fjögur prósent þeirra sem hér eru á vinnumarkaði.

Ástæðan fyrir verulega aukinni sölu á þessu ári er fyrst og fremst sú að neytendum líkar mjög vel við okkar vörur. Við höfum alltaf sett gæðin í öndvegi ásamt því að tryggja okkar viðskiptavinum matvælaöryggi. Þetta kunna neytendur greinilega vel að meta. Við leggjum áherslu á að fylgjast vel með framleiðslunni alla leið frá bóndanum og á disk neytenda. Þannig höfum við verið með markvissa fræðslu fyrir bændur um meðhöndlun á skepnunum þannig að útkoman verði sem allra best. Það kostar auðvitað eilítið meiri fjármuni að leggja svo ríka áherslu á gæðamálin, en við teljum að það sé lykilatriði og sé til árangurs fallið þegar til lengri tíma er litið.”

Blikur á lofti
- Hvernig sérðu kjötmarkaðinn þróast á árinu 2007?

“Ég hef þá trú að kjötmarkaðurinn verði í þokkalegu jafnvægi á næsta ári. Hins vegar hefur ríkisstjórnin boðað lækkun tolla á innfluttar landbúnaðarvörur og mun sú breyting taka gildi í mars næstkomandi. Ekki er enn ljóst hvaða áhrif þær breytingar kunna að hafa en ljóst er að matvælaverð og þar með verð á landbúnaðarvörum mun lækka. Þetta skapar ákveðna óvissu fyrir okkur sem störfum í þessari atvinnugrein. Að öðru leyti sé ég fyrir mér að það verði nokkuð gott jafnvægi á næsta ári milli framboðs og eftirspurnar á kjöti.”

- Hvernig er innlend framleiðsla búin undir mögulega aukinn innflutning erlendra kjötvara?

“Það er alveg ljóst að t.d. íslenskt lambakjöt mun ekki geta keppt í verðum við kjötgreinar þar sem dýr eru alin til slátrunar. Kjöthlutfall íslenskra dilkaskrokka er mun lægra en í gripum sem eru aldir til slátrunar og því verður verðið hærra á íslenska lambakjötinu. Svínarækt er dýrari hér á landi en erlendis vegna þess að við flytjum allt fóðrið til landsins. Það þarf um fimm kíló af fóðri til þess að framleiða eitt kíló af svínakjöti. Það verður því eðli málsins samkvæmt alltaf erfitt fyrir innlendar kjötgreinar að keppa við innflutt kjöt. En við höfum hreinleikann umfram aðrar þjóðir og það vegur stöðugt þyngra. Mér skilst að lönd sem hafa verið að opna sín landamæri hvað þetta varðar séu smám saman að missa landbúnaðinn til landa þar sem er mun ódýrara að framleiða landbúnaðarvörur. Þetta á til dæmis við um Dani, sem hafa á síðustu misserum og árum verið að horfa á eftir sínum landbúnaði hverfa úr landi, fyrst og fremst til Póllands, þar sem vegna lægra launastigs er mun ódýrara að framleiða vörurnar en í Danmörku. Ef stjórnvöld hér fara einhverja svipaða leið – opna landamæri og fella niður tolla - gætum við verið að horfa upp á eitthvað svipað gerast hér á landi. Hættan er sú að þá myndi flæða hingað kjöt frá Evrópu og þar með yrði grundvellinum að stórum hluta kippt undan landbúnaði og þar með fyrirtækjum eins og Norðlenska.”

- Geturðu séð fyrir þér frekari hagræðingu í kjötvinnslu á Íslandi, sem svar við mögulega auknum innflutningi kjötvara?

“Það hefur orðið gríðarleg samþjöppun í slátrun og úrvinnslu á kjöti á Íslandi og ég tel að fyrir dyrum standi frekari samruni á þessu sviði. Ég held að þegar upp verði staðið verði mjög fáir en stórir aðilar á markaðnum, rétt eins og hefur gerst í smásölunni. Í dag eru það fyrst og fremst þrjár stórar matvörublokkir – þ.e. Hagar, Kaupás og Samkaup sem stjórna smásölumarkaðnum. Þessar þrjár stóru blokkir eru væntanlega með yfir 90% af matvörumarkaðnum í landinu.”

Aukin áhersla á hálftilbúna og tilbúna rétti

- Hvaða nýjungar eru á döfinni hjá Norðlenska?

“Við munum í auknum mæli leggja áherslu á hálftilbúna og tilbúna rétti. Þetta er sú þróun sem hefur átt sér stað erlendis og hún er þegar hafin hér á landi og mun halda áfram. Ég tel að í auknum mæli muni fólk sækja í að geta keypt hálftilbúna eða tilbúna rétti í næstu búð. Að sama skapi mun verða samdráttur í sölu á frosnu kjöti. Í Bretlandi hefur frosið kjöt nánast horfið úr verslunum og ég tel að það sama verði uppi á teningnum hér á landi.”

- Kallar slík framleiðsla á miklar breytingar hjá Norðlenska?

“Nei, í rauninni ekki. Við erum vel í stakk búin til þess að takast á við slíka framleiðslu, hvort sem er á Akureyri eða Húsavík.”

- Það hefur verið í deiglunni að byggja hús á Akureyri þar sem m.a. verði skrifstofur og aðstaða fyrir starfsmenn. Hvað líður ákvörðun um þá byggingu?

“Við bíðum með ákvarðanir um slíkar fjárfestingar á meðan óvissa er uppi um innflutning á kjötvörum. Ef stjórnvaldsákvarðanir í þessum efnum þrengja verulega að kjötmarkaðnum hér á landi, þá tel ég að við munum í auknum mæli sjá samruna fyrirtækja í slátrun og kjötvinnslu. Kjötvinnslufyrirtækin bíða því átekta fram í mars, þegar stjórnvöld hafa boðað að þau gefi eitthvað frekar út um innflutningsmálin.”

- Þannig að það er ákveðin óvissa í þessum geira í byrjun árs 2007?

“Já, það er ekki hægt að neita því og stjórnvöld hafa skapað þá óvissu.”


Svæði

Norðlenska ehf

Grímseyjargötu
600 Akureyri

s. 469-4500

kt: 500599-2789

upplysingar@nordlenska.is

Póstlistinn

Skráðu þig á póstlistann hjá okkur og fáðu fréttir sendar á netfangið þitt.

Vörumerki Norðlenska

GoðiKEAHúsavíkur kjötBautabúrið

Goði á facebook