Fréttir

Hagnaður Norðlenska 506 milljónir króna árið 2007

Hagnaður Norðlenska matborðsins ehf. á árinu 2007 nam 505,8 milljónum króna samanborið við 18,7 milljóna króna hagnað árið 2006. Í árslok 2007 námu eignir félagsins 2.183 milljónum króna, bókfært eigið fé var 405 milljónir og hafði hækkað um 37 milljónir milli ára og eiginfjárhlutfall var 19%.  Ársvelta Norðlenska á árinu 2007 var 3.181 milljónir króna. Norðlenska var stærsti sláturleyfishafi landsins árið 2007, heildarslátrun félagsins á árinu nam 3.732 tonnum.  

 

Stjórn Norðlenska staðfesti ársreikning félagsins á fundi í gær. Þar kom fram að afkoma Norðlenska á liðnu ári væri umfram áætlanir. Stjórn félagsins vill koma á framfæri sérstöku þakklæti til framleiðenda og starfsfólks fyrir vel unnin störf og hlut þess í bættri afkomu félagsins.

Hagnaður Norðlenska fyrir afskriftir, vexti og skatta (EBITDA) var 735,0 milljónir króna árið 2007 samanborið við 268,7 milljónir króna árið 2006. Að teknu tilliti til afskrifta og fjármagnsgjalda  var hagnaður af rekstri félagsins 505,8 milljónir króna. Þar af var hagnaður af sölu fasteigna  455,8 milljónir.

Veltufé frá rekstri var 274,7 milljónir árið 2007 samanborið við 271,1 milljón króna árið 2006.

Vörusala á innanlandsmarkaði nam 3.116 milljónum og jókst um 224 milljónir króna milli ára. Hins vegar dróst útflutningur saman milli ára sem nemur 32 milljónum króna.

Launagreiðslur Norðlenska á árinu 2007 - laun og launatengd gjöld - námu 701 milljón króna og jukust um 47 milljónir milli ára.  

Hjá Norðlenska voru 189 ársstörf - á Akureyri, Húsavík, Höfn og í Reykjavík. Á Akureyri er stórgipaslátrun og vinnsla úr þeim afurðum. Á síðasta ári var slátrað um 14.500 svínum á Akureyri og um 3.600 nautgripum. Á Húsavík er dilkaslátrun og vinnsla úr dilkakjöti. Á sl. hausti var slátrað 81.500 dilkum á Húsavík. Á Höfn er dilka- og stórgripaslátrun. Á liðnu hausti var þar slátrað 33.300 dilkum. Í Reykjavík er rekið öflugt sölustarf.

Á árinu 2007 urðu miklar breytingar á eignarhaldi Norðlenska. Búsæld, framleiðslufélag bænda, eignaðist félagið að fullu með kaupum á eignarhlutum KEA, Eignarhaldsfélagsins Samvinnutrygginga, Akureyrarbæjar og Norðurþings. Heildarfjárfesting Búsældar vegna þessara kaupa nam 568 milljónum króna. Jafnframt var fasteign Norðlenska á Akureyri seld til fasteignafélagsins Miðpunkts.

Stefnt er að því að aðalfundur Norðlenska fyrir árið 2007 verði 18. mars nk..

Í stjórn félagsins eru Jón Benediktsson, bóndi á Auðnum, formaður, Ingvi Stefánsson, bóndi í Teigi, varaformaður, Aðalsteinn Jónsson, bóndi í Klausturseli, Geir Árdal, bóndi í Dæli, og Auður Finnbogadóttir, viðskiptafræðingur í Garðabæ.

„Árið 2007 var hagfellt í rekstri Norðlenska og er rekstrarniðurstaðan betri en áætlanir okkar gerðu ráð fyrir. Afar góð samvinna varð milli okkar starfsfólks og innleggjenda, sem flestir eru í Búsæld. Við höfðum góðan aðgang að hráefni og sala okkar afurða gekk mjög vel. Þá áttum við gott samstarf við okkar stærstu viðskiptavini.  Í það heila gekk því bæði framleiðsla og sala afurða vel á síðasta ári. Við jukum söluna verulega á innanlandsmarkaði, einkum varð mikil söluaukning á síðari hluta ársins," segir Sigmundur E. Ófeigsson, framkvæmdastjóri Norðlenska.

Um árið 2008 segir Sigmundur að áætlanir Norðlenska geri ráð fyrir hóflegum vexti. „Kjötmarkaðurinn hefur verið að vaxa um á bilinu 6-7% á ári. Við áætlum að ná vexti umfram það. Svínakjötsmarkaðurinn er núna nokkurn veginn í jafnvægi, en hins vegar verður ennþá fyrirsjáanlega skortur á nautakjöti. Mjólkurframleiðslan er enn að aukast, sem þýðir að færri nautgripir koma til slátrunar. Hvað lambakjötið varðar eru að mínu mati blikur á lofti, ekki síst vegna þess að útflutningsskylda lambakjöts mun detta út eftir þetta ár. Þetta skapar óneitanlega töluverða óvissu þegar haft er í huga að til þessa hafa árlega verið flutt út um 1200 tonn af lambakjöti, sem eru umfram innanlandsneyslu."


Svæði

Norðlenska ehf

Grímseyjargötu
600 Akureyri

s. 469-4500

kt: 500599-2789

upplysingar@nordlenska.is

Póstlistinn

Skráðu þig á póstlistann hjá okkur og fáðu fréttir sendar á netfangið þitt.

Vörumerki Norðlenska

GoðiKEAHúsavíkur kjötBautabúrið

Goði á facebook