Fréttir

Hangikjötsvertíðin mikla er hafin!

Hangikjötslæri í reykofni Norðlenska á Húsavík.
Hangikjötslæri í reykofni Norðlenska á Húsavík.
Nú er hangikjötsvertíðin komin í fullan gang hjá Norðlenska og veitir ekki af því salan er gríðarleg í desember - einkum þó síðustu tíu dagana fyrir jól.

Hangikjötssöltun og -reyking er mikil kúnst og því þarf heldur betur að vanda til verka. Hangikjötsmeistari Norðlenska á Húsavík er eins og undanfarin ár Jóhann Gestsson og leggur hann mikla alúð við verkun hangikjötsins. Pækilsöltuninin er að vonum mikil nákvæmnisvinna og ekki síður reykingin. Hjá Norðlenska er einungis reykt við tað, sem gefur hið eina og sanna hangikjötsbragð.

"Þessar síðustu vikur fyrir jól eru mikill annatími hjá okkur. Við þurfum að vera vel undirbúin fyrir þann mikla sölumánuð sem desember er og því má segja að allt sé sett á fullt í að undirbúa jólavertíðina strax þegar sláturtíð lýkur og raunar er þessi vinna komin í fullan gang strax í október," segir Sigmundur Hreiðarsson, vinnslustjóri Norðlenska á Húsavík.

Unnið er á vöktum í hangikjötsvinnslunni og veitir ekki af til þess að anna eftirspurninni, en Norðlenska er stærsti framleiðandi hangikjöts í landinu. Söluhæsta vörumerkið er hið víðsfræga KEA-hangikjöt en einnig framleiðir Norðlenska Fjallahangikjöt, Húsavíkurhangikjöt og Sambandshangikjöt. Hver tegund á sínar leyndu formúlur við söltun og reykingu og kaupendurnir eru tryggir.

"Í það heila gerum við ráð fyrir svipaðri sölu á hangikjöti og í fyrra. Hins vegar framleiðum við meira af svokölluðu sauðahangikjöti á beini, enda seldist það upp í fyrra og þá er greinilega aukin spurn eftir tvíreyktum hangikjötslærum," segir Sigmundur.


Svæði

Norðlenska ehf

Grímseyjargötu
600 Akureyri

s. 469-4500

kt: 500599-2789

upplysingar@nordlenska.is

Póstlistinn

Skráðu þig á póstlistann hjá okkur og fáðu fréttir sendar á netfangið þitt.

Vörumerki Norðlenska

GoðiKEAHúsavíkur kjötBautabúrið

Goði á facebook