Fréttir

Haustslátrun hafin á Hornafirði

Haustslátrun hófst í sláturhúsi Norðlenska á Höfn í Hornafirði í morgun, þriðjudaginn 18. september, og verður 400 dilkum úr Álftafirði slátrað á þessum fyrsta degi sláturtíðarinnar.

Að sögn Einars Karlssonar, sláturhússtjóra, er gert ráð fyrir að slátra ríflega 30 þúsund fjár í haust á Höfn, sem er svipuð tala og í fyrra. Þar af er þegar búið að slátra um 2000 dilkum í sumarslátrun.

Haustslátrun hefst nokkru síðar á Höfn í ár samanborið við síðastliðið haust, en gert er ráð fyrir að lokadagur sláturtíðarinnar verði 31. október.

Um 50 manns starfa á Höfn við haustslátrunina og eru starfsmenn frá fimm þjóðlöndum auk Íslands, þ.e. Svíþjóð, Finnlandi, Slóveníu, Nýja Sjálandi og Bretlandi. Um helmingur starfsmannanna kemur erlendis frá. Einar Karlsson segir að margir hinna erlendu starfsmanna séu ekki vanir slátrun, en hann segir að reynslan sé sú að fólk sé mjög fljótt að tileinka sér réttu handbrögðin.

"Það horfði satt best að segja ekki vel með að fá dilka til slátrunar þessa fyrstu daga, en það má segja að hretið sem gerði hér um síðustu helgi, hafi hjálpað mjög til. Féð rann hreinlega heim," segir Einar. Hann segir að þar sem slátrun sé bara rétt hafin sé of snemmt að segja til um vænleika dilkanna, "en mér hefur heyrst á mönnum að lömbin séu frekar smá í haust. Þetta á allt eftir að koma í ljós," segir Einar.

Slátursala hefst í sláturhúsi Norðlenska strax í þessari viku.


Svæði

Norðlenska ehf

Grímseyjargötu
600 Akureyri

s. 469-4500

kt: 500599-2789

upplysingar@nordlenska.is

Póstlistinn

Skráðu þig á póstlistann hjá okkur og fáðu fréttir sendar á netfangið þitt.

Vörumerki Norðlenska

GoðiKEAHúsavíkur kjötBautabúrið

Goði á facebook