Fréttir

Haustslátrun hafin á Húsavík

Haustslátrun hófst í sláturhúsi Norðlenska á Húsavík í dag, miðvikudaginn 29. ágúst. Í dag var lógað um 1300 dilkum, sem að stærstum hluta komu af Austurlandi - á bilinu 900-1000. Einnig var lógað dilkum úr utanverðum Eyjafirði, Höfðahverfi, Fnjóskadal og víðar.

Á morgun, fimmtudag, er ráðgert að lóga um 1600 dilkum úr Mývatnssveit og af Austurlandi og á föstudaginn er stefnt að slátrun um 1300 dilka, sem koma víða að.

"Já, ég held að sé óhætt að segja að við hefjum þessa haustslátrun af miklum krafti. Við ráðgerum að slátra yfir fjögur þúsund dilkum þessa fyrstu þrjá daga sláturtíðarinnar. Þetta hefur farið ágætlega af stað í dag, en eins og eðlilegt er gengur þetta hægar fyrir sig fyrstu dagana á meðan verið er að kenna óvönu fólki réttu handtökin og stilla saman strengina, en fólk er yfirleitt fljótt að ná tökum á þessu," segir Sigmundur Hreiðarsson, vinnslustjóri Norðlenska á Húsavík.

Auk fastráðinna starfsmanna Norðlenska á Húsavík koma á bilinu 70-80 manns til vinnu hjá Norðlenska í sláturtíðinni. Sigmundur segir að af þeim séu 20-25 óvanir menn. Búið er að ráða í öll störf í sláturtíðinni og er óhætt að segja að sláturhús Norðlenska á Húsavík verði fjölþjóðlegur vinnustaður meðan á sláturtíð stendur. Auk heimamanna er von á fimm nýsjálenskum slátrurum og þá þeirra kemur starfsfólk frá Svíþjóð, Thailandi, Hollandi, Finnland og Póllandi, svo eitthvað sé nefnt.

"Við þurfum að útvega gistingu fyrir á bilinu 60-70 manns. Eins og í fyrra erum við í samstarfi við Hótel Húsavík og fáum þar gistingu fyrir þá starfsmenn sem hingað koma til þess að vinna í sláturtíðinni," segir Sigmundur

Strax um komandi helgi verður á boðstólum í verslunum kjöt af nýslátruðu frá Norðlenska og sömuleiðis innmatur.

Slátrun mun ljúka hjá Norðlenska á Húsavík þann 26. október nk. og gerir Sigmundur ráð fyrir að fjöldi sláturfjár verði ekki ósvipaður og í fyrra eða sem næst 80 þúsund - dilkar og fullorðið.


Svæði

Norðlenska ehf

Grímseyjargötu
600 Akureyri

s. 469-4500

kt: 500599-2789

upplysingar@nordlenska.is

Póstlistinn

Skráðu þig á póstlistann hjá okkur og fáðu fréttir sendar á netfangið þitt.

Vörumerki Norðlenska

GoðiKEAHúsavíkur kjötBautabúrið

Goði á facebook