Fréttir

Haustslátrun lokið á Húsavík - met féll í fallþunga

Haustslátrun sauðfjár lauk hjá Norðlenska á Húsavík sl. föstudag. Sigmundur Hreiðarsson, vinnslustjóri, segir að í það heila hafi sláturtíðin gengið mjög vel - samhentur hópur starfsmanna hafi unnið gott starf, kjötgæði verið mikil og fallþunginn slegið met.

"Já, þetta gekk mjög vel. Í það heila slátruðum við rösklega 77 þúsund fjár, sem var í takti við okkar áætlanir.  Við vorum með mjög gott fólk hjá okkur og slátrunin gekk afar vel. Kjötgæðin hafa aldrei verið meiri og verkunin aldrei verið betri. Og ég held að sé nokkuð ljóst að hér var sett nýtt met í fallþunga. Eftir slátrun sl. miðvikudag var meðal fallþungi dilka hjá okkur 16,09 kg. Síðustu tvo dagana var fallþunginn tæplega 15,9 kg og í ljósi þess að fáum dilkum var slátrað þessa tvo daga hefur heildartalan lítið breyst. Ég tel að tveir þættir séu ráðandi um þennan mikla fallþunga, annars vegar gott tíðarfar og hins vegar framfarir í ræktun," segir Sigmundur.

Um 30 erlendir starfsmenn sem störfuðu í sláturtíðinni á Húsavík héldu heim á leið strax sl. föstudag. Á laugardaginn fóru síðan 16 erlendir starfsmenn frá Húsavík í flug frá Akureyri. Slæmt veður og færð setti strik í reikninginn, enda var Víkurskarð lokað. Björgunarsveitarmenn frá Súlum á Akureyri brugðust vel við og komu til móts við rútuna sem flutti starfsmennina frá Húsavík og ferjuðu þá á nokkrum bílum til Akureyrar um Dalsmynni. Allt gekk þetta vel og starfsmennirnir náðu fluginu frá Akureyri á tilsettum tíma. Sigmundur vill koma á framfæri sérstökum þökkum til þeirra Súlna-manna fyrir hjálpina.

Þó svo að um hægist eftir sláturtíðina er í mörg horn að líta hjá Norðlenska á Húsavík. Ekki er eftir neinu að bíða með að hefja vinnslu fyrir jólin og raunar er hún nú þegar hafin. "Og í þessari viku fara frá okkur gámar til annars vegar Danmerkur og hins vegar Færeyja. Til Danmerkur fara rifbein úr slögum, sem eru m.a. notuð þar í loðdýrafóður og til Færeyja sendum við ýmiskonar kjötvörur," segir Sigmundur.

Haustslátrun lýkur á Höfn nk. fimmtudag, 30. október. Síðastliðinn laugardag var þar slátrað um 500 fjár og þá var í það heila búið að slátra um 25 þúsund fjár. Sem fyrr hefur erfitt tíðarfar gert mönnum lífið leitt í sláturtíðinni á Höfn. "Þetta hefur blessast, en vissulega er ekki auðvelt að flytja féð þegar vindurinn fer upp í 20 metra á sekúndu dag eftir dag. Þessir stóru flutningabílar taka mikið á sig og því geta þessir flutningar verið varhugaverðir," segir Einar.


Svæði

Norðlenska ehf

Grímseyjargötu
600 Akureyri

s. 469-4500

kt: 500599-2789

upplysingar@nordlenska.is

Póstlistinn

Skráðu þig á póstlistann hjá okkur og fáðu fréttir sendar á netfangið þitt.

Vörumerki Norðlenska

GoðiKEAHúsavíkur kjötBautabúrið

Goði á facebook