Fréttir

Haustslátrunin komin vel á veg

Haustslátrun er nú komin vel á veg hjá Norðlenska, í það minnsta í sláturhúsi félagsins á Húsavík, en slátrun hófst sem kunnugt er mun síðar á Höfn. Á Húsavík virðist fallþungi dilka ætla að verða ívið meiri en í fyrra og kjötgæði meiri.

Eftir daginn í dag var búið að slátra um 51 þúsund fjár í sláturhúsi Norðlenska á Húsavík og óhætt er að segja að slátrunin hafi almennt gengið mjög vel. "Já, ég get ekki annað sagt en að þetta hafi gengið vel. Meðalvigtin er hærri en á sama tíma í fyrra og kjötgæðin eru meiri - minni fita og meira kjöt. Þannig viljum við hafa það. Sú vika sem nú er að líða hefur verið mjög góð hjá okkur, verkunargallar hafa aðeins verið á bilinu 1,2-1,9%, sem er virkilega gott," segir Sigmundur Hreiðarsson, vinnslustjóri Norðlenska á Húsavík.

Í vikunni afgreiddi Norðlenska á Húsavík fullan gám af lambakjöti til Færeyja. "Þetta var annar gámurinn sem fer til Færeyja í þessari sláturtíð og ég reikna með þeim þriðja undir lok sláturtíðar. Við erum m.a. að selja til Færeyja hryggi, læri, innmat og svið," segir Sigmundur og bætir við að til Bretlands flytji Norðlenska einnig úrbeinuð slög.

"Þetta gengur almennt vel, en það hefðu þó mátt koma fleiri dilkar til slátrunar síðustu daga. En ég veit að það stendur til bóta eftir helgina. Það má segja að við höfum síðustu daga verið að fá dilka af öllu okkar starfssvæði, en í næstu viku tökum við töluvert af dilkum í vestursýslunni, á svæðinu í kringum Kirkjubækjarklaustur," segir Einar Karlsson, sláturhússtjóri á Höfn.
Slátursala er í sláturhúsinu á Höfn. "Við vorum að ræða um það að okkur finnst eilítið minni sala á slátrum en t.d. í fyrra. Það hefur sýnt sig í gegnum tíðina að slátursalan er mismikil milli ára. Minni sala það sem af er sláturtíð í ár segir ekkert til um að slátursala sé almennt að dragast saman. Ef að líkum lætur getur hún orðið mun meiri á næsta ári," segir Einar.


Svæði

Norðlenska ehf

Grímseyjargötu
600 Akureyri

s. 469-4500

kt: 500599-2789

upplysingar@nordlenska.is

Póstlistinn

Skráðu þig á póstlistann hjá okkur og fáðu fréttir sendar á netfangið þitt.

Vörumerki Norðlenska

GoðiKEAHúsavíkur kjötBautabúrið

Goði á facebook