Fréttir

„Hér er aldrei nein lognmolla“

Halldór Sigurðsson réttarstjóri Norðlenska á Húsavík.
Halldór Sigurðsson réttarstjóri Norðlenska á Húsavík.

Halldór Sigurðsson bóndi á Syðri Sandhólum á Tjörnesi er réttarstjóri Norðlenska á Húsavík og hefur verið lengi. „Ég sé um öll samskipti við bændur varðandi slátrun og þess háttar, og redda hinu og þessu - ég er svona altmulig mand,“ segir Halldór sem hefur komið að störfum við sláturhúsið á Húsavík í tæp 40 ár en gegnt embætti réttarstjóra hátt á annan áratug.

Að þessu sinni er gert ráð fyrir að slátrað verði um 76 þúsund fjár á Húsavík þannig að í nógu er að snúast og eins gott að skipulagið sé í lagi.

„Við röðum því niður saman, ég og sláturhússtjórinn, hvenær er lógað frá hvaða bæ. Ég er með tvo bíla hér og fyrir austan, ég sé um að skipuleggja hvenær þeir fara á bæina, hringi í bændur og læt vita hvenær bílarnir koma, og stjórna svo umferðinni hérna í réttinni. Passa að allir fái sitt pláss á réttum tíma og ber ábyrgð á því,“ segir Halldór.

Við sláturhús Norðlenska á Húsavík er þriggja ára gömul rétt sem leysti af hólmi hina gömlu og Halldór segir marga öfunda sig af nýju réttinni. Skipulagið er að mestu hið sama nema hvað síðasta spölinn fara lömbin um þrískipt, hringlaga snúningshólf þannig að auðveldara er að koma þeim rétta leið án troðnings.

„Gamla réttin var úr tré en sú nýja úr stáli og járni og hér eru fíber mottur sem auðveldar fénu að ganga um. Réttin er mjög skemmtilega hönnuð og auðvelt fyrir okkur að láta allt ganga vel. Allir dilkarnir er tvískiptir þannig að réttin nýtist mjög vel; hver bær hefur sinn dilk og síðari hluta sláturtíðar þegar bændur koma gjarnan með færri lömb í hvert skipti nýtist réttin mjög vel fyrst hægt er að skipta öllum dilkum í tvennt. Þá er hægt að geyma fá lömb í hverjum dilk þannig að plássið nýtist mjög vel.“

Bændur koma lang flestir í sláturhúsið til að fylgjast með þegar lógað er fé frá þeirra bæ „og þá þarf sko að ræða málin, hér eru þau krufin til mergar og leyst! Hér er kjötmatið rætt, vöðvahlutfallið og allt sem betur má fara eða vel er gert. Hér er það sem bændur tjá sig - og hér er aldrei nein lognmolla,“ segir Halldór.

Það er alltaf fjörugt í Bændahöllinni, eins og við köllum kaffistofuna okkar. Hingað koma margir skemmtilegir menn og margar skemmtilegar sögur eru sagðar, gamlar og nýjar, sem krydda tilveruna.“


Svæði

Norðlenska ehf

Grímseyjargötu
600 Akureyri

s. 469-4500

kt: 500599-2789

upplysingar@nordlenska.is

Póstlistinn

Skráðu þig á póstlistann hjá okkur og fáðu fréttir sendar á netfangið þitt.

Vörumerki Norðlenska

GoðiKEAHúsavíkur kjötBautabúrið

Goði á facebook