Fréttir

Hugleiðing um mikilvægi íslensks landbúnaðar á viðsjárverðum tímum

Það þarf ekki að segja þjóðinni að við lifum á viðsjárverðum tímum. Að samfélaginu þrengir svo um munar. Sú vika sem nú er að líða hefur verið þjóðinni þung og erfið og væntanlega eru síður en svo öll kurl komin til grafar. Það hafa átt sér stað hamfarir sem fáir hefðu getað látið sér detta í hug að ættu mögulega eftir að dynja á þjóðinni. En staðreyndirnar blasa við okkur og verða ekki umflúnar.

Undanfarin ár og misseri hafa ákveðin öfl í samfélaginu haft hátt um nauðsyn þess að flytja inn sem mest af landbúnaðarvörum - bæði kjötvörum og mjólkurvörum.  Þar með væri tryggt að matvæli myndu lækka í verði til hagsbóta fyrir neytendur. Þessi sömu öfl hafa látið sem vind um eyru þjóta þau varnaðarorð að óheftur innflutningur matvæla myndi ekki leiða til neins annars en að rústa íslenskum landbúnaði og um leið störfum fjölda fólks sem hefur afkomu af úrvinnslu landbúnaðarafurða.

Eftir mikla baráttu sl. vor var matvælafrumvarp ríkisstjórnarinnar sett til hliðar, en einungis um stundarsakir. Yfir vofir að það verði keyrt í gegnum Alþingi með afdrifaríkum afleiðingum.

Þjóðin er sjálfri sér nóg um matvæli
Vonandi mun þjóðin aldrei þurfa að upplifa aftur aðrar eins efnahagslegar hamfarir og hún hefur þurft að horfa upp á síðustu daga. En þetta segir okkur hins vegar að allt getur gerst og það sem átti ekki að vera mögulegt í dag getur orðið staðreynd á morgun. Við þessar aðstæður þakkar þjóðin fyrir að vera sjálfri sér nóg um matvæli. Við þessar aðstæður áttar þjóðin sig á því hvers virði það er fyrir samfélagið að stundaður sé fjölþættur landbúnaður um allt land, sem framleiðir matvæli í hæsta gæðaflokki. Þegar á reynir er gott til þess að vita að þjóðarbúið þarf ekki að eyða dýrmætum gjaldeyri í kaup á mjólk og kjöti. Það er líka gott til þess að vita þegar að þrengir í efnahagslífinu að við höldum úti öflugum sjávarútvegi sem fæðir þjóðina, jafnframt því að afla ómælds gjaldeyris fyrir þjóðarbúið.

Það er slæmt að svo þungbært högg þurfi til að þjóðin vakni til vitundar um að þegar allt kemur til alls skipta þessir grunnatvinnuvegir þjóðarinnar okkur svo gríðarlega miklu máli.

Matvælaöryggi
Það er í höndum alþingismanna að ákvarða hver örlög matvælafrumvarpsins á Alþingi verða. Við því hefur verið varað og enn ríkri ástæða er nú til þess að undirstrika þau varnaðarorð. Ég vænti þess að þær aðstæður sem þjóðin býr við um þessar mundir hafi opnað mönnum nýja sýn á þessa hluti. Hugtakið „matvælaöryggi" hefur öðlast dýpri og mikilvægari merkingu en nokkru sinni fyrr.

Sigmundur E. Ófeigsson,
framkvæmdastjóri Norðlenska


Svæði

Norðlenska ehf

Grímseyjargötu
600 Akureyri

s. 469-4500

kt: 500599-2789

upplysingar@nordlenska.is

Póstlistinn

Skráðu þig á póstlistann hjá okkur og fáðu fréttir sendar á netfangið þitt.

Vörumerki Norðlenska

GoðiKEAHúsavíkur kjötBautabúrið

Goði á facebook