Fréttir

Hvernig var árið 2008 - hvernig verður árið 2009?

„Rekstur Norðlenska fyrir fjármagnsliði hefur gengið vel á árinu og verið í takti við áætlanir. Þessum árangri má helst þakka því að fyrirtækið hefur á að skipa afburða starfsfólki sem hefur unnið óeigingjarnt starf við uppbyggingu Norðlenska. Þá hefur samstarf við framleiðendur og viðskiptavini verið með miklum ágætum og fyrir það vil ég þakka sérstaklega," segir Sigmundur E. Ófeigsson, framkvæmdastjóri Norðlenska.

„Ytri aðstæður fóru hægt og bítandi versnandi allt þetta ár. Í rauninni tók þegar á árinu 2007 að halla undan fæti. Þá fóru fjármagnsliðir hækkandi og sú þróun hefur haldið áfram allt þetta ár. 
Því miður hefur það verið svo undanfarin fimm til sex ár, í öllu góðærinu, að bankar og fjármálafyrirtæki hafa ekki borið nokkra virðingu fyrir framleiðslufyrirtækjum í landinu. En steininn tók þó úr í þessum efnum á síðasta ári. Þetta lýsti sér í því að það var æ erfiðara að fá rekstrarfjármagn og það var að sama skapi óheyrilega dýrt. Það verður að segjast eins og er að bankakerfið hafði litla trú á framleiðslufyrirtækjum og fannst afkoma þeirra léleg. Á sama tíma og bankarnir voru að tala um milljarða hagnað, nenntu fáir að hlusta á milljóna eða milljóna tuga hagnað. Það er alveg ljóst að útrásin saug til sín nánast allt fjármagn úr íslenska bankakerfinu og því var lítið sem ekkert til af peningum til þess að styðja við venjulega framleiðslustarfsemi hér heima."  

Augu fólks hafa opnast
Sigmundur segir að bankahrunið í október sl. og afleiðingar þess hafi opnað augu margra fyrir mikilvægi innlendrar framleiðslu. Svo alvarlega kollsteypu hafi þurft til þess að ýmsir sem höfðu í alltof langan tíma  haft augun lokuð, hafi opnað þau aftur og séð hversu mikilvægt væri að hafa trausta og öfluga úrvinnslu landbúnaðarafurða í landinu. „Samanlagður fjöldi innleggjenda og starfsmanna sem þiggja árslaun sín hjá Norðlenska er sjö til átta hudruð. Og við þetta bætist síðan mikill fjöldi óbeinna starfa vegna aðkeyptrar þjónustu. Þegar allt er talið má ætla að starfsemi Norðlenska framfleyti beint á bilinu 3-4 þúsund manns. Ég er ekki viss um að fólk hafi almennt áttað sig á því hversu viðamikil starfsemi þetta í raun er. Fyrir nokkru reyndum við að gera okkur grein fyrir hversu stór úrvinnsluiðnaður landbúnaðarafurða, bæði kjöt- og mjólkurvinnsla, hér á Norðurlandi væri og niðurstaðan var um tíu þúsund störf."

Gríðarlega háir stýrivextir koma illa við framleiðslufyrirtækin
Gengisþróunin á þessu ári hefur að vonum komið illa við Norðlenska eins og önnur fyrirtæki. „Við erum með rúmlega helming af langtímaskuldum okkar í erlendri mynt og vegna gengisþróunarinnar hafa þær meira en tvöfaldast í þessu mikla falli krónunnar á síðustu mánuðum. En hins vegar skal það tekið fram að skuldastaða Norðlenska er hófleg. Þeir fjármunir sem fengust fyrir fasteignir Norðlenska á Akureyri voru annars vegar nýttir til þess að greiða út fjármuni til innleggjenda til þess að fjármagna kaup þeirra á félaginu og hins vegar var fjármununum varið til þess að greiða niður lán Norðlenska. Á þessu ári hafa skuldir félagsins verið greiddar niður um ríflega hálfan milljarð króna. Þrátt fyrir þær niðurgreiðslur hafa langtímalán ekki lækkað að nokkru marki vegna óhagstæðrar þróunar á gengi íslensku krónunnar gagnvart öðrum gjaldmiðlum. Það er mat mitt að félagið eigi auðveldlega að ráða við þessa skuldastöðu og enn auðveldara ætti það að vera ef gengi krónunnar styrkist. Þegar hins vegar vaxtastigið er komið yfir 20% tekur það verulega í og til viðbótar hefur lækkun gengis krónunnar á árinu haft gríðarlega slæm áhrif á rekstrarniðurstöðu félagsins.
Það er full ástæða til þess að undirstrika að ítrekaðar stýrivaxtahækkanir á árinu hafa komið harðast niður á framleiðslufyrirtækjum í landinu. Þetta segi ég vegna þess að afurðalán, eins og við tökum til þess að greiða framleiðendum fyrir sitt innlegg, fáum við á þessum Seðlabankavöxtum að viðbættu álagi. Stýrivextir í landinu eru nú í 18% og að viðbættum kostnaði kostar þetta fjármagn okkur vel yfir 20%. Í haust keyptum við lambakjöt fyrir 800-900 milljónir króna og þar til víðbótar þurftum við að fjármagna sláturkostnað sem nemur rúmum 200 milljónum króna. Þessa fjármuni áttum við ekki inni á bankabókum og þurftum því að fá þá í formi afurðalána, sem kostar fyrirtækið milljónatugi á mánuði."

Metsala í desember
Sala afurða Norðlenska gekk vel allt árið 2008, en aldrei þó eins og núna í desember. „Já, þetta er stærsti sölumánuður Norðlenska til þessa - bæði í magni og krónutölu. Neytendur voru greinilega jákvæðir í garð íslenskrar framleiðslu fyrir þessi jól og mér virðist augljóst að þeir skynjuðu það í fyrsta skipti í langan tíma að samhengi sé á milli þess að kaupa íslenskar vörur og stuðla að atvinnu í landinu."
Í kjölfar bankahrunsins í október var greinilegt, að sögn Sigmundar, að neytendur leituðu í ríkari mæli eftir ódýrari kjötvörum og þeirri eftirspurn var svarað. Í desember keypti fólk hins vegar hinn hefðbundna íslenska jólamat og sparaði að því er virðist ekki við sig. „Í desember fóru yfir hundrað tonn af hangikjöti frá okkur, sem þýðir ríflega 300 grömm af hangikjöti frá Norðlenska á hvern einasta Íslending í jólamánuðinum. Það er alveg ljóst að lambið var í heiðurssæti fyrir þessi jól. Það seldist í miklum mæli reykt, hangið, kryddað og ferskt. Og til viðbótar seldum við mjög vel af hamborgarhryggjum og öðrum tegundum af svínakjöti. Þegar á  heildina er litið getum við ekki annað en verið mjög ánægð með jólasöluna."

Miklar hækkanir á verði aðfanga
Sem fyrr segir hafa fjármagnsliðir hækkað umtalsvert á þessu ári og einnig segir Sigmundur að á síðari helmingi ársins hafi ýmsir kostnaðarliðir hækkað upp úr öllu valdi. Í því sambandi nefnir hann flutningskostnaðinn. Þannig hafi kostnaður við fjárflutninga í sláturtíðinni sl. haust verið meiri en nokkru sinni fyrr, en hann er beintengdur olíuverði sem var í sögulegu hámarki á þessum tíma. Og einnig segir Sigmundur að plast og ýmis önnur innflutt aðföng hafi hækkað í verði í takti við hraðlækkandi gengi krónunnar. „Og því miður hækkaði fóðurkostnaður upp úr öllu valdi og sömuleiðis áburðarverð og til viðbótar er spáð enn frekari hækkun á áburði í vetur. Ástæðan er fyrst og fremst veik staða krónunnar. Þetta er grafalvarlegt mál, enda er áburðurinn langstærsti kostnaðarliður í rekstri sauðfjárbúa."

Áætla svipaða sölu á árinu 2009
Sigmundur segir ekkert launungarmál að mjög erfitt sé að gera rekstraráætlanir fyrir árið 2009. „Það liggur engin þjóðhagsspá fyrir og greiningardeildir bankanna nánast hurfu, þannig að við höfum ekki mikið að styðjast við um þróun efnahags- og gengismála í landinu. 
Við gerum hins vegar eins raunhæfar áætlanir og kostur er um magn kjöts sem fari í gegnum okkar vinnslu á næsta ári. Við búumst við því að ásetningur bænda verði í stórum dráttum svipaður milli ára.
Á næsta ári gerum við ráð fyrir örlítilli magnaukningu, fyrst og fremst vegna þess að ætla má að innflutningur á kjöti verði í lágmarki á árinu, en hann hefur á undanförnum árum verið 4-5% af markaðnum. Á móti kemur að töluverður fjöldi erlends fólks hefur flutt úr landi og líklegt má telja að sú þróun haldi áfram. Að öllu samanlögðu teljum við raunhæft að áætla svipaða sölu á árinu 2009 og árinu 2008."

Vegið að bændastéttinni
Sigmundur segist óttast að áður en langt um líður muni margir bændur hreinlega gefast upp í sínum rekstri, enda sé vegið að bændastéttinni úr ýmsum áttum. „Bændur eiga sér því miður fáa málsvara og eru að því er virðist vinsælt skotmark. Núna er ráðist að bændum með nýju matvælafrumvarpi og einnig er talað fullum fetum um ESB-aðild án þess að menn hafi sett sér samningsmarkmið eða greint hvaða áhrif aðild að Evrópusambandinu hafi á íslenskan landbúnað. Íslenska stjórnkerfið hefur til þessa lítið tillit viljað taka til Akureyrar, hvað þá Raufarhafnar eða Þórshafnar. Er þá líklegt að Brussel vilji taka tillit til okkar hér norður í Atlantshafi? Ég vil hins vegar ekki útloka að menn skoði hvað felist í aðild Íslands að Evrópusambandinu, en það er grundvallaratriði að lagt verði fram greinargott yfirlit um bæði kosti og galla ESB-aðildar fyrir íslenskan landbúnað og þá atvinnustarfsemi sem byggir á honum."
Sigmundur segir að í gegnum tíðina hafi ófáum dálksentímetrum og ófáum mínútum í ljósvakamiðlum verið varið í að agnúast út í ríkisstyrki til íslensks landbúnaðar.
Ég fæ hins vegar ekki annað séð en að bankahrunið núna í haust, sem er að öllu leyti af manna völdum, hafi kostað okkur skattgreiðendur jafn mikið og ríkisstyrkir til landbúnaðar í meira en eina öld. Ég held að ástæða sé til þess að hafa þessa staðreynd í huga," segir Sigmundur E. Ófeigsson.


Svæði

Norðlenska ehf

Grímseyjargötu
600 Akureyri

s. 469-4500

kt: 500599-2789

upplysingar@nordlenska.is

Póstlistinn

Skráðu þig á póstlistann hjá okkur og fáðu fréttir sendar á netfangið þitt.

Vörumerki Norðlenska

GoðiKEAHúsavíkur kjötBautabúrið

Goði á facebook