Fréttir

„Óvenju margir í sláturtíðinni sem hafa verið hjá okkur áður“

Ingibjörg Kristín Steinbergsdóttir.
Ingibjörg Kristín Steinbergsdóttir.

Sláturtíðin krefst mikils undirbúnings á hverju ári. Á Húsavík er ráðning starsfólks á könnu Ingibjargar Kristínar Steinbergsdóttur launafulltrúa, sem kveðst byrja að huga að þessari annasömu „vertíð“ strax í febrúar.

„Að þessu sinni eru óvenju margir þeirra, sem koma til okkar í sláturtíðinni, sem hafa starfað hér áður, bæði Íslendingar og útlendingar. Meira en 50% af mannskapnum hefur verið hér áður í sláturtíð,“ segir Ingibjörg Kristín Steinbergsdóttir.

„Við byrjum í febrúar að huga að starfsmannamálum fyrir sláturtíðina. Höfum þá samband við þá sem hafa verið hjá okkur til að komast að því hverjir hafa áhuga á að koma aftur. Svo þegar komið er fram í maí einbeitum við okkur að þessu á fullu.“ Þá segir hún yfirleitt orðið ljóst hverjir komi til starfa erlendis frá og því næst sé hugað að fólki á Húsavík og í næsta nágrenni.

„Það er töluvert um að við fáum umsóknir frá vinum eða ættingjum fyrrverandi erlendra starfsmanna sem hefur líkað vel hérna; ekki síst frá Svíþjóð og sumum landanna í gömlu austur Evrópu, til dæmis Póllandi.“

Ingibjörg Kristín segir ganga upp og ofan að ráða Íslendinga til starfa í sláturtíðinni. „Við auglýstum eftir fólki í gegnum Vinnumálastofnun en margar umsóknir bárust óvenju seint að þessu sinni.“  Af þeim sem skráðir eru til starfa hjá Norðlenska er rétt ríflega helmingur útlendingar, 50,5% - „en þar af eru reyndar nokkrir sem búsettir eru á Íslandi og hafa verið í nokkur ár. Sumir koma erlendis frá ár eftir ár, sá sem oftast hefur komið er nú hér í áttunda skipti. Svo eru auðvitað Íslendingar sem koma til okkar í sláturtíðinni aftur og aftur og hafa gert lengi. Þó er ekki jafn mikið um það og áður var að fólk úr sveitum komi til starfa í sláturtíðinni, margir eru farnir að vinna annars staðar með sveitastörfunum.“ 

Aðkomumenn sem starfa hjá Norðlenska í sláturtíðinni, Íslendingar og útlendingar, eru hátt í 70 og fyrirtækið sér þeim fyrir gistingu í þessa tvo mánuði. „Við erum með samning við hótelið, núna erum við með 35 herbergi á leigu þar. Fyrstu starfsmennirnir koma til okkar seint í ágúst og fólkið fer í lok október.“ 


Svæði

Norðlenska ehf

Grímseyjargötu
600 Akureyri

s. 469-4500

kt: 500599-2789

upplysingar@nordlenska.is

Póstlistinn

Skráðu þig á póstlistann hjá okkur og fáðu fréttir sendar á netfangið þitt.

Vörumerki Norðlenska

GoðiKEAHúsavíkur kjötBautabúrið

Goði á facebook