Fréttir

Jafnvægi í lambakjöti - viðvarandi skortur á nautakjöti

Undanfarnar vikur hefur verið fádæma gott veður á suðurhluta landsins og hitinn oft farið yfir tuttugu stig. Góðu veðri fylgin aukin ásókn í grillkjöt og þessa hefur orðið vart hjá Norðlenska, að sögn Sigmundar E. Ófeigssonar, framkvæmdastjóra Norðlenska.

"Það segir sig sjálft að þegar veðrið er gott á suðuvesturhorni landsins, þar sem 70-80% landsmanna búa, er aukin eftirspurn eftir grillkjöti. Það hefur verið mikið að gera hjá okkur í framleiðslu grillkjöts til þess að mæta þessari eftirspurn, en það sem hefur gert okkur erfitt fyrir er að það hefur verið skortur á góðum vöðvum úr svíninu sem best eru fallnir til glóðarsteikingar. Einnig er viðvarandi skortur á nautakjöti, sem gerir okkur líka erfitt fyrir," segir Sigmundur.

Hins vegar segir Sigmundur að ágæta staða sé í lambakjötinu. "Endar koma til með að ná saman. Hins vegar má ekki gleyma því að búið er að flytja út lambakjöt umfram útflutningsskyldu. Á þessu ári var ákveðið að útflutningsprósentan yrði sextán, en hún var tíu í fyrra. Norðlenska hefur lokið útflutningi á kvóta þessa árs og megninu af kvóta næsta árs," segir Sigmundur. "Ég hef þá trú að framboð og eftirspurn í lambakjötinu verði í bærilegu jafnvægi og mín sýn er sú að það verði frekar einhver birgðasöfnun í lambi. En þetta sjáum við ekki á þessum tímapunkti, þetta kemur ekki í ljós fyrr en í ágúst eða september og síðan ræður sláturtíðin líka miklu um þetta," segir Sigmundur.

Sigmundur segir ekki horfur á að úr rætist í sumar með aukið framboð á svínakjöti, en ef hins vegar sé horft til lengri tíma megi vænta aukinnar framleiðslu í landinu innan fárra mánaða.

Í nautinu segist Sigmundur því miður ekki sjá fram á betri tíma á næstunni. "Það er og hefur verið skortur á nautakjöti og því miður virðist þetta vera viðvarandi vandamál. Það eru kröfur um aukna mjólkurframleiðslu, sem aftur þýðir að bændur láta lifa. Þeir sem eru plásslitlir láta kvígurnar lifa en lóga nautkálfunum. Okkur þykir slæmt að á sama tíma og mikill skortur er á nautakjöti í landinu séu bændur að koma með ungnautkálfana í sláturhús. En þetta helgast sem sagt að hluta til af því að allt pláss í fjósunum fer undir kvígurnar og mjólkurkýr og því þurfa bændur að láta smákálfana frá sér."

Sigmundur segir að til þess að mæta eftirspurn eftir nautakjöti sé verið að flytja inn umtalsvert magn af nautakjöti. "Við hjá Norðlenska getum auðveldlega tekið við mun fleiri nautgripum og því vil ég hvetja bændur til þess að koma með gripi til okkar til slátrunar," segir Sigmundur E. Ófeigsson.


Svæði

Norðlenska ehf

Grímseyjargötu
600 Akureyri

s. 469-4500

kt: 500599-2789

upplysingar@nordlenska.is

Póstlistinn

Skráðu þig á póstlistann hjá okkur og fáðu fréttir sendar á netfangið þitt.

Vörumerki Norðlenska

GoðiKEAHúsavíkur kjötBautabúrið

Goði á facebook