Fréttir

Jarðgerðarstöð í burðarliðnum sem leysir af hólmi urðun sorps á Glerárdal

Allt stefnir í að sorpurðunarmál Eyfirðinga, sem miklar og heitar umræður hafa verið um undanfarin ár, séu að komast í nýjan farveg sem leiða mun til þess að urðun á Glerárdal verði hætt. Snemma á þessu ári fór fram umræða um þessi mál innan forystuhóps matvælaklasa Vaxtarsamnings Eyjafjarðar þar sem skýrt kom fram að forystumenn matvælafyrirtækja töldu sorpmál svæðisins forgangsmál til lausnar fyrir greinina og í raun ímynd svæðisins. Í kjölfarið tók Sigmundur Ófeigsson, framkvæmdastjóri Norðlenska, að sér að vinna málið áfram og í samvinnu við sérfræðinga á þessu sviði hefur nú verið unnin skýrsla og viðskiptaáætlun um stofnun fyrirtækis til að jarðgera allan lífrænan úrgang af svæðinu. Skýrslan var kynnt stjórn Sorpsamlags Eyjafjarðar fyrir skömmu og í kjölfarið fulltrúum sveitarfélaganna og fékk góðar undirtektir. Því næst var sveitarfélögunum við Eyjafjörð sent erindi um vilja þeirra til að miðla lífrænum úrgangi til slíks fyrirtækis og leggja því til stofnfé og hafa borist svör frá meirihluta sveitarfélaganna. Sigmundur Ófeigsson segir nú stefnt að því að stofna fyrirtæki um jarðgerðina innan þriggja vikna og að slík stöð verði risin fyrir mitt næsta ár. Gangi það eftir telur hann óhætt að fullyrða að urðun á Glerárdal verði alfarið hætt innan þriggja ára.

Allt stefnir í að sorpurðunarmál Eyfirðinga, sem miklar og heitar umræður hafa verið um undanfarin ár, séu að komast í nýjan farveg sem leiða mun til þess að urðun á Glerárdal verði hætt. Snemma á þessu ári fór fram umræða um þessi mál innan forystuhóps matvælaklasa Vaxtarsamnings Eyjafjarðar þar sem skýrt kom fram að forystumenn matvælafyrirtækja töldu sorpmál svæðisins forgangsmál til lausnar fyrir greinina og í raun ímynd svæðisins. Í kjölfarið tók Sigmundur Ófeigsson, framkvæmdastjóri Norðlenska, að sér að vinna málið áfram og í samvinnu við sérfræðinga á þessu sviði hefur nú verið unnin skýrsla og viðskiptaáætlun um stofnun fyrirtækis til að jarðgera allan lífrænan úrgang af svæðinu. Skýrslan var kynnt stjórn Sorpsamlags Eyjafjarðar fyrir skömmu og í kjölfarið fulltrúum sveitarfélaganna og fékk góðar undirtektir. Því næst var sveitarfélögunum við Eyjafjörð sent erindi um vilja þeirra til að miðla lífrænum úrgangi til slíks fyrirtækis og leggja því til stofnfé og hafa borist svör frá meirihluta sveitarfélaganna. Sigmundur Ófeigsson segir nú stefnt að því að stofna fyrirtæki um jarðgerðina innan þriggja vikna og að slík stöð verði risin fyrir mitt næsta ár. Gangi það eftir telur hann óhætt að fullyrða að urðun á Glerárdal verði alfarið hætt innan þriggja ára.


Jarðgerð, öflugri flokkun til endurvinnslu og samstarf við sorpbrennslu Þingeyinga

Á Eyjafjarðarsvæðinu falla til um 21000 tonn af lífrænum úrgangi árlega og koma 15000 tonn frá fyrirtækjum og um 6000 frá heimilum. Til lífræns úrgangs telst lífrænt sorp frá matvælaframleiðendum, kolefnisríkt sorp s.s. pappír, pappi, garðaúrgangur, timburúrgangur og “þéttbýlishrossatað”. Ljóst er að auk þessa er verulegt magn af lífrænum úrgangi utan sorphirðukerfis, svo sem búfjáráburður, frárennsli frá matvælafyrirtækjum og almennt skólp en á kynningarfundi með fulltrúum sveitarfélaganna sagði Sigmundur að það sé aðeins tímaspursmál hvenær reglur um alla þessa þætti verði hertar þannig að bregðast þurfi við með einhverjum hætti.

Sú jarðgerðarstöð sem nú er í sjónmáli tæki þegar við öllum lífrænum úrgangi frá fyrirtækjum og búist er við að fljótlega verði tekið upp svokallað tveggja tunnu sorpkerfi fyrir heimilissorp, þ.e. tunna fyrir allan lífrænan úrgang og önnur fyrir þann hluta sorpsins sem ekki fer til endurvinnslu eða jarðgerðar. Nú þegar eru safnkerfi á meirihluta svæðisins fyrir úrgang til endurvinnslu, s.s. járn og stál, gler, áldósir, pappa og pappír en reiknað er með að taka upp viðræður við Sorpsamlag Þingeyinga um að taka við og brenna öllu því sorpi af svæðinu sem fellur utan endurvinnslu eða jarðgerðar. “Við höfum þegar rætt við sveitarstjóra Norðurþings um þessi mál og samstarf er hagur beggja því jarðgerðarstöðin hér við Eyjafjörð gæti tekið við lífrænum úrgangi frá Þingeyingum í staðinn, úrgangi sem er kostnaðarsamur í brennslu. Þannig styrkist rekstrargrundvöllur fyrir bæði fyrirtækin,” segir Sigmundur.


Verðugt verkefni að byrja á að græða Glerárdalinn upp

Gert er ráð fyrir að notuð verði þekkt jarðgerðartækni og leggur Sigmundur áherslu á að valin verði besta fáanlega tækni í heimi á þessu sviði. Reiknað er með að kostnaður verði innan við 400 milljónir króna og nú þegar eru erlendir framleiðendur búnaðar reiðubúnir til samninga sem miðist við að jarðgerðarstöð verði risin og komist í gagnið fyrir mitt næsta ár. “Sá tími skiptir máli vegna þess að þá tekst að ná strax inn í stöðina sláturúrgangi á næsta hausti og því fyrr sem við leysum þessi mál – því betra,” segir Sigmundur.

Jarðgerðin sjálf fer fram í yfirbyggðu húsnæði og í lokuðum tækjabúnaði, ekki ósvipað mjöltromlum í fiskbræðslum. Hitinn sem skapast í niðurbrotsferlinu er allt að 70 gráðum og drepur flestar hættulegar örverur úr úrgangnum þannig að eftir 3-5 sólarhringa meðferð úrgangs kemur út úr tromlunni nánast fullgerð molta sem er sett í haug innandyra og látin fullgerjast á 20-25 sólarhringum. Þá er komin nánast fullgerð mold.

Eitt af þeim verkefnum sem leysa þarf á komandi misserum er að finna staði til jarðvegsuppfyllingar með moltunni en sjálfum þætti mér einboðið að nota moltuna til að loka sorpurðunarsvæðinu á Glerárdal og skila dalnum aftur sem næst því ástandi sem hann var í áður en urðun hófst þar. Það væri verðugt verkefni. Hins vegar hef ég ekki áhyggjur af því að ekki finnist næg verkefni fyrir moltuna, hana má t.d. nota í hljóðmanir í bæjunum og ýmsar uppfyllingar,” segir Sigmundur og bætir við að tækifæri skapist í þessu verkefni fyrir líftæknirannsóknir við Háskólann á Akureyri að þróa örverur til að stytta niðurbrotsferilinn og sömuleiðis sé ástæða til að horfa til framtíðarmöguleika í gasvinnslu úr t.d. lífrænum úrgangi frá sveitabæjum á svæðinu.


Allir tilbúnir að vera með”

Ljóst er að áhugi á verkefninu er mikill hjá sveitarfélögunum og ekki síður meðal matvælafyrirtækjanna. “Allir sem ég hef rætt þessi mál við eru tilbúnir að vera með, hvort heldur eru matvælaframleiðendur, veitingastaðir eða aðrir hagsmunaaðila. Ég tel óhætt að fullyrða núna að fjármögnun fyrirtækisins er engin hindrun. Aðild að því gætu átt matvælafyrirtæki, sorp- eða gámafyrirtæki, önnur endurvinnslufyrirtæki, sveitarfélög og hagsmunaaðilar. Ég stefni að því að leggja þetta mál fyrir stjórn Norðlenska á næstunni og vonast til að félag um jarðgerðina verði stofnað sem allra fyrst. Þetta mál snýst um að koma sorpmálunum út úr þessum ófremdarfarvegi sem þau hafa verið í um alltof langan tíma og leysa þau á arðbæran og skynsamlegan hátt. Ímynd svæðisins, fyrirtækja og sveitarfélaga á mikið undir því að við ljúkum þessu máli og ég er ekki í vafa um að hér er komin lausn sem er bæði raunhæf, skynsamleg og skilar okkur þeim árangri að urðun á sorpi verði hætt á Glerárdal. Það er kannski til marks um gjörbreytt andrúmsloft með þessari lausn að nú þegar hafa sveitarfélög boðið aðstöðu fyrir jarðgerðarstöðina en eins og allir þekkja hafa deilurnar um urðunina staðið um að enginn hefur viljað hafa þetta innan sinna marka,” segir Sigmundur Ófeigsson, framkvæmdastjóri Norðlenska.


Svæði

Norðlenska ehf

Grímseyjargötu
600 Akureyri

s. 469-4500

kt: 500599-2789

upplysingar@nordlenska.is

Póstlistinn

Skráðu þig á póstlistann hjá okkur og fáðu fréttir sendar á netfangið þitt.

Vörumerki Norðlenska

GoðiKEAHúsavíkur kjötBautabúrið

Goði á facebook