Fréttir

KEA hamborgarhryggurinn valinn sá besti

Forsíða DV í dag
Forsíða DV í dag

KEA hamborgarhryggurinn frá Norðlenska var valinn sá besti í árlegri bragðkönnun DV, sem blaðið greinir frá í dag. Meðaleinkunn sem KEA hryggurinn fékk hjá matgæðingum blaðsins var 8,2. Meðal umsagna sem KEA hamborgarhryggurinn fékk, voru: Gott bragð, risastórar sneiðar og safaríkar“ -  Útlit gott, bragð virkilega gott“ - Sá besti enn sem komið er.“ 

„Við erum stolt af okkar fólki. Hér er vandað til vinnu, eins og við vissum auðvitað og það er gaman að matgæðingar DV skuli vera sammála því,“ segir Ingvar Már Gíslason markaðsstjóri Norðlenska.

Svo skemmtilega vill til að þeir hamborgarhryggir sem lentu í 2. og 3. sæti í bragðkönnun DV eru líka framleiddir af Norðlenska. Krónu hamborgarhryggur varð í 2. sæti með meðaleinkunn 8,0 og Nóatúns hamborgarhryggur í 3. sæti með meðaleinkunn 7,8. Dómararnir gáfu hryggjunum einkunn á bilinu 0 til 10.

Eggert Sigmundsson vinnslustjóri Norðlenska tekur í sama streng og Ingvar. „Það eru frábær tíðindi að þeir þrír hryggir sem við framleiðum skuli vera í þremur efstu sætunum. Þetta þakka ég auðvitað frábæru starfsfólki okkar sem stendur sig gríðarlega vel í alla staði. Hér er unnið myrkranna á milli núna og við munum framleiða mikið af hryggjum í næstu viku og þar næstu,“ segir Eggert. Hann segir alla hryggina frá Norðlenska framleidda eftir gömlum hefðum.

„Við erum auðvitað að rifna úr stolti yfir þessum tíðindum,“ segir vinnslustjórinn. Hann segir að Norðlenska muni framleiða um 80 tonn af hamborgarhryggjum fyrir jólin að þessu sinni.

Fimm manna dómnefnd sá um að velja besta kjötið fyrir DV. Hana skipuðu þeir Gissur Guðmundsson, matreiðslumeistari og forseti alheimssamtaka matreiðslumanna, Úlfar Finnbjörnsson, „villikokkur“ og fyrrverandi kokkalandsliðsmaður, Sigurður Kristinn Haraldsson, matreiðslumaður ársins 2011 og keppandi á móti matreiðslumanna Norðurlanda 2012 og Bocuse d‘Or árið 2013, Jóhannes Stefánsson, einn reyndasti matreiðslumaður landsins og eigandi veitingastaðarins Múlakaffis, og Logi Brynjarsson, yfirmatreiðslumaður á Höfninni og meðlimur í  unglingalandsliðinu.

Frétt DV á vef blaðsins


Svæði

Norðlenska ehf

Grímseyjargötu
600 Akureyri

s. 469-4500

kt: 500599-2789

upplysingar@nordlenska.is

Póstlistinn

Skráðu þig á póstlistann hjá okkur og fáðu fréttir sendar á netfangið þitt.

Vörumerki Norðlenska

GoðiKEAHúsavíkur kjötBautabúrið

Goði á facebook