Fréttir

„Ætlaði til sjós en það hefur dregist!“

Leifur Eyfjörð Ægisson, sem lengi var vinnslustjóri Norðlenska á Akureyri, lét af störfum í dag eftir 47 ár og 11 mánuði hjá félaginu og fyrirrennurum þess. Leifur kom á sínum tíma til starfa hjá Pylsugerð KEA við Kaupvangsstræti 1. febrúar 1965, tímabundið á meðan hann beið eftir plássi á skipi

Biðin eftir skipsplássinu stendur enn!

„Ég kom til starfa í Pylsugerð KEA 1. febrúar 1965 klukkan eitt,“ sagði Leifur um það bil sem hann hætti, laust fyrir hádegi í dag. Þegar hann kom til starfa var kjötvinnslan við Kaupvangsstræti eins og margvísleg önnur starfsemi Kaupfélagsins, nokkurn veginn þar sem veitingastaðurinn Goya er nú til húsa, og ekki sambærileg því sem síðar varð. „Elskan mín góða; þarna unnu líklega 20 eða 25 manns. Svo var farið hérna niður eftir 1966 og þetta þótti rosalega flott hús og fullkomið á þeim tíma. En síðan hefur margt breyst,“ segir Leifur. „Þetta er ekki sambærilegur iðnaður.“

Leifur fagnaði 67 ára afmæli í sumar. Hann segist lengi hafa verið ákveðinn í því að „hlaupa út daginn sem ég yrði 67 ára en ákvað svo að vinna út árið.“

Hann er fæddur og uppalinn á Hjalteyri, við mikið frjálsræði að eigin sögn og lék sér oft á bryggjunni. Bræður hans voru sjómenn og Leifur segir að nánast aldrei hafi annað þótt koma til greina en að hann fetaði sömu braut. „Mig var búið að dreyma um það frá því ég var smápatti að komast eitthvað út og sjá heiminn. Ég var sendur til sjós 14 ára og var með bróður mínum þrjár síldarvertíðir. Svo fór ég á millilandaskip einn vetur og ætlaði að færa mig yfir á annað skip, en það hefur dregist!“

Leifur bætir svo við: „Mig hefur lengi langað á sjó. Millilandaskipin leggja stundum að bryggjunni hér fyrir neðan og ég sé þau út um gluggann. Nú eru átta til 10 karlar um borð og skipin stoppa í þrjá til fjóra tíma á hverjum stað, en þegar ég var á millilandaskipum á árunum 1965 til 1968, þegar við sigldum aðallega til gömlu Sovétríkjanna, voru 40 kallar um borð. Þá tók langan tíma að lesta og losa og stoppað í viku eða jafnvel hálfan mánuð á hverjum stað.“

Margt hefur því breyst, ekki síður á sjónum en í kjötbransanum.

Draumur Leifs var að læra til kokks og starfa sem slíkur á sjónum. „Ég sótti um á Hótel KEA en komst ekki að en fékk svo vinnu í Pylsugerðinni. Var fyrst almennur verkamaður en hafði ekki verið þar nema í nokkra mánuði þegar ég ákvað að fara á samning og læra kjötiðn.


Leifur lauk náminu 1968 og ekki leið á löngu þar til honum var falin stjórnunarstaða. „Mér var hent út í djúpu laugina 24 ára gömlum. Var gerður að verkstjóra yfir öllu og það var satt að segja dálítið erfitt því þá þurfti ég að fara að stjórna körlum sem voru miklu eldri og höfðu kennt mér. Ég var verkstjóri í mörg ár, var svo gerður að vinnslustjóra 1986 og gegndi því starfi í akkúrat 20 ár. Hætti 2006, var þá orðinn fullorðinn og farinn að þreytast.“

Síðustu ár hefur Leifur fengist við vöruþróun og gæðaeftirlit, sem hann segir fjölbreytt og skemmtilegt. „Ég var mjög þakklátur fyrir að fá að breyta til og sinna öðru en stjórnun síðustu árin hér í fyrirtækinu,“ segir hann.

Þegar Leifur er spurður hvort starfið hafi verið skemmtilegt í gegnum árin, er svarið „bæði já og nei. Á tímabili hugsaði ég svolítið um það hvort ég myndi aldrei gera neitt annað í lífinu en vinna inni í svona verksmiðju en svo bráði það af manni. Maður heldur oft að grasið sé grænna hinum megin en svo er ekki. Aðalmálið er að temja sér jákvætt hugarfar.“

Áður en Leifur kvaddi vinnufélagana var hann spurður hvað nú tæki við, og ekki stóð á svarinu: „Ég ætla að fara að verka rjúpu.“ Það var þó aðeins í tilefni áramótanna, en ekki starf til frambúðar!

Myndin var tekin um hádegisbil, rétt áður en Leifur lét af störfum. Frá vinstri: Sigmundur E. Ófeigsson framkvæmdastjóri Norðlenska, Leifur Ægisson, Reynir B. Eiríksson framleiðslustjóri, Jóna Jónsdóttir starfsmannastjóri og Eggert Sigmundsson vinnslustjóri á Akureyri.


Svæði

Norðlenska ehf

Grímseyjargötu
600 Akureyri

s. 469-4500

kt: 500599-2789

upplysingar@nordlenska.is

Póstlistinn

Skráðu þig á póstlistann hjá okkur og fáðu fréttir sendar á netfangið þitt.

Vörumerki Norðlenska

GoðiKEAHúsavíkur kjötBautabúrið

Goði á facebook